21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5468 í B-deild Alþingistíðinda. (4720)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru auðvitað engin tök á að ræða það mál sem hér er til umræðu á þeim tíma sem hér gefst. Hér er vissulega um merkilegt mál að ræða, atgervisflótta háskólamenntaðra manna úr ríkiskerfinu, og er eðlilegt að menn hafi af því áhyggjur. Ég hef hins vegar miklu meiri áhyggjur af þeim atgervisflótta sem nú á sér stað úr undirstöðuframleiðslugreinum þjóðarinnar. Þar er virkilegur atgervisflótti á ferðinni. Þó að Háskóli Íslands eigi allt gott skilið verður hann ekki lengi við lýði ef atgervisflóttinn úr frumframleiðslugreinunum heldur áfram eins og nú horfir. Þá þurfa menn ekki að tala um neina launahækkun hjá háskólamenntuðum mönnum, prófessorum eða öðrum, ef fólkið í frystihúsunum og sjómennirnir á flotanum hrekjast úr þeim störfum sem þar er um að ræða vegna lélegra launakjara og lélegrar aðstöðu til vinnu.

Ég hef sagt það áður og get sagt það enn að það er ekki nokkur vafi á því að það er verulega hægt að bæta um í launakjörum opinberra starfsmanna með því að fækka þeim verulega í rn. og annars staðar. Ég tel að fjöldi opinberra starfsmanna í ríkisstofnunum sé allt of mikill og komi niður á launum. Það er hægt að fækka þarna án þess að það komið niður á þjónustu og þar með bæta laun þeirra sem eftir verða. Það er þetta sem á að gera. En þarna er kerfið á móti og ekki síður hagsmunaaðilar opinberra starfsmanna sjálfra.

Mikill samanburður er oft gerður í þessum efnum milli stétta. Það er talið að þau umframfríðindi, sem opinberir starfsmenn hafa í gegnum lífeyrissjóðakerfið, jafngildi 15 til 18% hærra kaupi en almennt launafólk á vinnumarkaðinum hefur. Það heyrist lítið talað um þessar tölur þegar menn eru að tala um slæm launakjör hjá háskólamenntuðum mönnum sem vissulega má segja að séu slæm.

Ég get lokið mér af, herra forseti, þó að ég vildi gjarnan hafa sagt miklu meira. En ég held að meginefnið sé komið fram. Ég hef miklu meiri áhyggjur þjóðarinnar vegna af þeim atgervisflótta sem á sér stað úr framleiðsluatvinnugreinum landsmanna, fiskveiðum og fiskvinnslu, en þeim sem er í atvinnugreinum hjá hinu opinbera hjá háskólamenntuðum mönnum þó að vissulega sé ástæða til að gefa því gaum sem þar er að gerast.