21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5469 í B-deild Alþingistíðinda. (4721)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í þessari umr. er þess krafist að laun háskólamenntaðra manna verði hækkuð, ég veit ekki hvað mikið, líklega mjög verulega, og því er haldið fram að launin séu ákaflega lág. Ég get tekið undir það. Þau eru lág borið saman við það sem er víðast hvar erlendis. Í þessari umr. er þess líka krafist að laun þeirra sem starfa í grundvallaratvinnuvegunum verði hækkuð verulega. Ég get líka tekið undir það, þau eru lág. Ég held að það hafi verið rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði um það, það er vissulega einnig hætta á flótta þaðan.

Kjaradómur hækkaði nokkuð laun háskólamenntaðra manna. Ég get tekið undir það að það var minna en ég bjóst við. En núna krefst BSRB leiðréttingar til samræmis. Á lista sem ég fékk frá BSRB á mitt borð, er talinn vera frá 17 og upp í 25% munur. Að vísu segir launamáladeildin að að meðaltali yfir allt talið sé kannske 5–6% munur. En BSRB segir að það þurfi meira til að leiðrétta gagnvart BHM.

Ég hef það beint frá forustumönnum ASÍ sem segja að ef slík leiðrétting eigi að fara fram og ef eigi að fara að gera mikið meira við háskólamenntaða menn a. m. k. þá hljóti þeir að krefjast leiðréttingu yfir línuna, það sé alveg ljóst að þá hafi þeir dregist aftur úr.

Hvar erum við þá stödd? Þá er það spurningin: Ber þjóðfélagið launahækkun yfir alla línuna? Ég veit að hv. fyrirspyrjandi segir já. (GHelg: Já.) Um þetta eru vissulega deilur. Það er ekki langt síðan sjávarútvegurinn og fiskvinnslan voru á hvínandi hausnum og gátu ekki greitt þessi laun. (Gripið fram í: Og eru enn.) Svo er reyndar mjög víða enn. Þá er það spurningin: Hver á að greiða þessi laun?

Staðreyndin er líka sú, sem ég gat um hér áðan og kom fram hjá engum öðrum en hv. 3. þm. Reykv. að afköstin hér á hverja vinnustund eru töluvert innan við helming af því sem gerist víða í kringum okkur. Við erum að krefjast og viljum hafa og ég er alveg sammála að menn eigi að geta haft sömu laun fyrir dagvinnu og annars staðar, hjá þjóð sem er því miður með miklu miklu minni afköst á hverja vinnustund. Við höfum raunar byggt upp þessi góðu lífskjör með mjög mikilli vinnu. Talið er að vinna á bak við þjóðarframleiðsluna hér sé um 25% meiri en t. d. á Norðurlöndunum. Þannig hefur þetta verið byggt hér upp.

Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að vinna okkur smám saman út úr þessu. Við getum það með ýmsum möguleikum sem nú eru fyrir hendi ef ekki verður knúin fram önnur kollsteypa í efnahagsmálum.

Ég vísa því á bug að ríkisstj. sé ekki að leitast við að leiðrétta þessi mál, hún er að því. Sú samþykkt, sem gerð var um sömu laun fyrir háskólamenntaða menn innan ríkisgeirans og utan, er vissulega einhver mikilvægasta samþykkt sem hefur verið gerð um það.

Hv. síðasti ræðumaður sagði að lífeyrissjóðurinn samsvaraði 15–18% í launum. Það er að vísu enn þá hærra en forseti ASÍ sagði við mig. BHM segir að hann sé ekki nema 3% umfram laun. Þetta er dæmi um að þarna er um stór deilumál að ræða.

Það mikilvægasta nú er að þessi þriggja manna matsnefnd hefji störf sem allra fyrst. Ég vil taka það fram að strax daginn eftir að kjaradómur féll var talað við fyrsta manninn sem var beðinn að taka að sér formennsku í henni. Það er búið að tala við marga síðan og væntanlega finnst einhver innan tíðar sem vill takast þetta erfiða starf á hendur. Þetta er ákaflega erfitt starf og umdeild atriði sem þar hljóta að verða tekin til meðferðar. En það er von mín að þetta geti orðið mjög fljótlega.

Ég hygg að allir sjái að með haustmánuðum verði innan gildandi laga ráðrúm til að endurskoða laun háskólamenntaðra manna. Það verða áreiðanlega einhverjar breytingar á launamarkaðinum, ég held að menn geti bókað það. Þá þarf slíkur samanburður að liggja fyrir. En þá er líka mikilvægt að t. d. launþegar almennt, ASÍ, BSRB, viðurkenni að þetta sé réttur samanburður. Ég hef þess vegna óskað eftir því að þessi samanburður verði gerður í tengslum við kjararannsóknarnefnd og undir það hefur verið tekið. Ég held að ákaflega mikilvægt sé að samanburðurinn verði ekki vefengdur. Það er því unnið að þessu eins og frekast er unnt án þess að leiða til allsherjar kollsteypu aftur í þjóðfélaginu.