21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5471 í B-deild Alþingistíðinda. (4723)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er létt í vasa hjá mér hvað sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir segir um gamla lummu í samanburði á launakjörum, starfsaðstöðu hins almenna launamanns á markaðinum eða prófessora, eins og hún talaði og sagði hér: Prófessorar, það eru láglaunafólkið í landinu, það er láglaunastéttin ásamt hinum.

Ég hef ekkert á móti prófessorum nema síður væri. (Iðnrh.: Jú, heldur betur.) Nú fá menn málið. Hæstv. iðnrh. getur ekki setið kyrr þegar talað er um þessa hluti.

(Iðnrh.: Búinn að gleyma Bjarna Guðna?) Ég hafði hvorki á móti hv. þm. þáv. og prófessor Bjarna Guðnasyni né öðrum þeim slíkum sem um er að ræða. En ég vil ekki una því eilífa tali um það að þessi stétt sé sú láglaunastétt sem fyrst og fremst beri nú að sinna og leiðrétta launakjör hjá.

Ég vil þá spyrja hv. þm. eins og hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur: Ætlast hún til þess t. d. að verkalýðshreyfingin setti fram kaupkröfur upp á 30%? Hæstv. forsrh. sagði að núna væri á borðinu frá BSRB krafa um 17–24%, ef ég hef tekið rétt eftir. (Forsrh.: Það er samanburður, skulum við segja en ekki beint talan.) Já, 17–24%. Er það meining þeirra manna, sem eru með slíka kröfugerð, að sú prósentutala gangi upp í gegnum allt launakerfið eða er hv. þm. Guðrún Helgadóttir, sem auðvitað ætti að vera úr þeim röðum sem hún telur sig vera — (Gripið fram í: Og hvaða röð er það?) Málsvari lítilmagnans í þjóðfélaginu. (GHelg: Rétt.) Já, auðvitað fer ég með rétt mál, það er engin spurning um það — er hún að mælast til þess að þessi prósentutala, ef fram næðist, gengi upp í gegnum allt launakerfið í landinu? Ef hún er að því er hún jafnframt að dæma þá sem verst eru settir til þess að bera enn þá minna úr býtum en þeir hafa nú þegar. Ég held að það sé nauðsynlegt að þeir sem tala um þessi mál geri sér þetta ljóst. Sama prósentuhækkun í gegnum allt launakerfið þýðir verri stöðu fyrir þá sem verst eru settir fyrir. Gott væri að fá svar við þessu. (Gripið fram í.) Prófessorar eiga allt gott skilið. (ÓÞÞ: Hvaða vinnuskyldu hafa þeir?) Það er nú rétt að hv. skrifari Nd. geri formlega fsp. um það hér í þinginu hvaða laun þeir hafa þannig að það komi fram svart á hvítu. (Gripið fram í.) Hv. þm. Gunnar G. Schram fór hér með tölur áðan sem ég man ekki nógu vel til þess að geta fullyrt neitt um. En hefði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sinnt þingskyldu þá og verið hér, þá vissi hann þetta.

En ég get fallist á það að prófessorslaun eru út af fyrir sig kannske ekki há laun. Það hefur verið gert vel við þessa einstaklinga í gegnum tíðina oft og tíðum. Þetta eru einstaklingar eins og aðrir sem hafa a. m. k. að hluta til verið studdir af þjóðfélaginu, af lítilmagnanum, af skattborgaranum, til náms til þess að þeir gætu öðlast þá þekkingu sem þeir hafa fengið í gegnum námið. Ég vil því á engan hátt halda því fram að þeir eigi enga skuld þjóðfélaginu gjalda.