21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5472 í B-deild Alþingistíðinda. (4724)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér fyrst og fremst vegna orða síðasta ræðumanns sem ganga fram af mér. Hann vildi halda því hér fram að fyrirspyrjandi hefði mælst til þess að fyrst og fremst þyrfti að leiðrétta launakjör háskólamenntaðra manna. Ég kom að vísu inn í þessa umr. þegar hún var komin á einhvern rekspöl en ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram héðan úr ræðustól að fyrst og fremst þyrfti að leiðrétta launakjör þessa hóps. Ég hef hins vegar heyrt menn halda því hér fram með góðum rökum, rökum sem ég tek heils hugar undir, að launakjör þessara manna þurfi að leiðrétta. Það er ekki þar með sagt að ekki þurfi að leiðrétta launakjör fleiri starfsstétta hér á landi.

Í síðustu orðum hv. síðasta ræðumanns þótti mér nokkuð lágt reitt til höggs. Því var haldið fram að þeir sem eru háskólamenntaðir í dag hafi verið studdir til sinnar menntunar af láglaunafólki þessa lands. Við höfum hér á landi námslánakerfi sem er hluti af okkar velferðarkerfi. Námslán eru í dag og hafa verið síðan árið 1975, í 10 ár, verðtryggð lán. Þar er ekki verið að gefa fólki neitt. Menn greiða sín lán til baka fullum fetum. Að ætla að halda því hér fram að þeir, sem háskólamenntunar hafa notið, geri það á kostnað annarra finnst mér vera fyrir neðan allar hellur.