21.05.1985
Sameinað þing: 84. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5472 í B-deild Alþingistíðinda. (4725)

459. mál, flótti háskólamenntaðra manna úr þjónustu ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég er ekkert hissa á því þó að sumum finnist harkalega að orði kveðið þegar menn tala tæpitungulaust um málefnin eins og þau blasa við hverju sinni. Ég fullyrði að skattborgarar þessa lands, láglaunafólk jafnt sem aðrir, hafa lagt sinn skerf til þess að sú menntun, sem framleidd hefur verið í landinu, hefur verið gerleg.

Ég vil benda hv. síðasta ræðumanni á það einnig: Hvað ætli það séu margar milljónirnar árlega sem teknar eru af skattborgurum þessa lands, þar með láglaunafólkinu til þess að borga í verðtryggðan lífeyrissjóð opinberra starfsmanna? Það eru nokkrir tugir milljóna árlega, sem launafólk borgar með þessum hætti til þessara hópa ? Hvað er þetta annað en beinn styrkur frá skattborgurum til þessara stétta? Ég er ekkert að sjá eftir því út af fyrir sig en menn verða að viðurkenna staðreyndir hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þannig mætti halda lengi áfram. Háskólamenntaðir menn eins og ýmsir aðrir vel menntaðir einstaklingar þessa lands eiga vissulega þjóðinni skuld að gjalda fyrir það framlag sem hún hefur af höndum lagt til þessara einstaklinga.