21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5487 í B-deild Alþingistíðinda. (4733)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þetta nál. sem hér liggur fyrir til umr. Undir það rita ekki alveg allir nm. eins og hér var vakin athygli á og verður sjálfsagt gerð grein fyrir því síðar. En nefndin var yfirleitt vel sammála í störfum sínum að þessum málum þó að nokkrir nm. riti undir álitið með fyrirvara.

Formaður fjvn. og frsm. hefur gert það ítarlega grein fyrir þessum málum öllum í heild að ekki er þörf á að bæta þar miklu við. Vitanlega eru þessi mál sameiginleg áhugamál allra alþm., brennandi áhugamál. Það er reynt að leysa þau með hliðsjón af langtímaáætlun sem hv. alþm. urðu furðu sammála um að standa saman að hér fyrir nokkrum árum.

Ég ætla ekki að ræða skiptingu fjár milli kjördæma þó að þar komi sjálfsagt eitt og annað til greina sem menn eru kannske ekki fyllilega sammála um. Samt verðum við að sjálfsögðu að hafa allt landið í heildarsýn þegar þessu fé er dreift því að markmið okkar er að bæta samgöngur um allt Ísland til að gera landið aðgengilegra og meira aðlaðandi fyrir okkur sem það byggjum svo og gesti okkar og ferðamenn.

Þessi endurskoðun eða þessi umfjöllun, sem farið hefur fram núna á þessum málum, boðar í sjálfu sér fá nýmæli. Það má auðvitað hafa mörg orð um hvert einstakt atriði hennar en við könnumst við þær tölur t. d. frá árinu 1985 og 1986 frá fyrri tímum. Og á þeim verður ekki ýkjamikil breyting í framkvæmd þegar á heildina er litið.

Það mætti tala langt mál um viðfangsefni í samgöngumálum innan hvers kjördæmis fyrir sig. Ég ætla að leyfa mér að minnast örfáum orðum á mitt kjördæmi, Vesturlandskjördæmi. Hver er sjálfum sér næstur í þeim efnum og hygg ég að það sama gildi um alla hv. alþm. Ég vil leyfa mér að minnast fyrst á samgönguleiðina um Hvalfjörð, þáltill. sem fyrir liggur hér, mál nr. 413 í Sþ., og hefur ekki verið rædd enn þá, en þm. Vesturl. standa að. Þessi leið hefur að sjálfsögðu mjög batnað á s. l. árum en stendur þó enn þá til bóta.

Þá vil ég leyfa mér að minnast á Ólafsvíkurveg frá Borgarnesi um Mýrar og hreppana sunnanfjalls um Fróðárheiði til Ólafsvíkur. Það er sérstaklega leiðin frá Borgarnesi og vestur um Mýrar sem er fjölfarin stofnbraut sem þarf að hafa í huga á allra næstu árum og að verður unnið. Enn fremur má nefna meginleiðina yfir Snæfellsnesfjallgarð. Svo nefni ég Heydalsveginn.

Þá má ekki alveg gleyma leiðinni frá Fróðárheiði sunnanverðri, þ. e. frá Heiðarkastinu, framan undir Jökli alla leið inn að Enni, þ. e. hinn svokallaði Útnesvegur. Við getum ekki gert allt sem okkur langar til í einu vettvangi. Þessar framkvæmdir verða að dreifast á mörg ár. En það er nauðsynlegt að hvetja Vegagerðina til þess að undirbúa kostnaðaráætlanir um framtíðarleiðir, þó að þar verði ekki unnið að vegagerð að ráði á allra næstu tímum. Ég leyfi mér í þeim efnum að minnast á leiðina um Stapahraun eða sem sumir kalla um Klifhraun til Arnarstapa, en það er hluti af Útnesvegi.

Það er dálítið áberandi þegar rætt er um vegamál úti á landi að þá er mikið lagt upp úr því að komast sem allra fyrst til Reykjavíkur. Menn ræða um það að hafa sem allra greiðasta, skemmsta og fljótfarnasta leið úr sínu byggðarlagi til Reykjavíkur. En við megum heldur ekki gleyma samgönguleiðum sem tengja saman einstaka byggðarlög innan okkar kjördæma og ekki heldur tengibrautum milli byggðanna og annarra kjördæma. Á þetta verðum við að leggja ríka áherslu en láta ekki ljómann af höfuðborginni villa okkur alveg sýn í öllum tilvikum.

Ég vil sérstaklega nefna eina leið sem við þm. Vestf. leggjum áherslu á að athuguð verði mjög gaumgæfilega á þessu ári, en það er leiðin frá Ólafsvík um Fróðárhrepp, um Eyrarsveit, Grundarfjörð og Helgafellssveit til Stykkishólms. Það þóttu miklir sigrar hér fyrir einum 15–20 árum þegar tókst að leggja veg um Ennið og Búlandshöfða og brúa Mjósund. En sannleikurinn er sá að það þarf að taka þessa vegi alla til nýrrar athugunar. Hefur mönnum þá komið í hug að gera þessa leið mun styttri og greiðari en hún er nú, þ. e. að fara um Mávahlíðarrif í Fróðárhreppi, fyrir framan Búlandshöfða og yfir Kolgrafarfjörð. Velja síðan þegar kemur inn fyrir Mjósundabrú hvaða leið verður farin um Helgafellssveit og hvaða leið valin suður yfir Snæfellsnesfjallgarð. Það er mjög brýnt verkefni að ná samkomulagi um framtíðarvegarstæði á þessum slóðum og ég kvíði því ekki því að yfirleitt hefur samvinna okkar þm. Vesturl. gengið vel í þessum efnum þó að við marga erfiðleika sé að etja og oft sé erfitt að ákvarða stað fyrir ónógar fjárveitingar.

Það má ekki gleyma því að á Snæfellsnesi eru langir vegir, vegir báðum megin við fjallgarðinn og einnig vegir á nokkrum stöðum yfir fjallgarðinn. Það segja sumir að vegir á Snæfellsnesi séu þeir verstu á landinu öllu. Ég veit ekki hvort allir samþykkja það en eigi að síður er ástæða til þess að huga vandlega að vegagerð á þessum slóðum og að sjálfsögðu verður að tengja og byggja upp áfram Snæfellsnesveg alla leið inn í Miðdali í Dalasýslu. Ég fagna því, eins og ég gerði hér við 1. umr., að það er áætluð nokkur fjárhæð til þess að rannsaka vegagerð yfir Gilsfjörð. Ég lít svo á að rannsókn í þeim efnum verði lokið á næsta ári. Þá ber einnig að fagna því að vonir standa til þess að vegur um Laxárdalsheiði verði fullgerður nú í sumar og einnig að á Vestfjarðavegi um Bröttubrekku verði Bjarnadalsá brúuð sem er einn aðalþröskuldurinn nú, vegartálmi á þessari gömlu samgönguleið milli nágrannabyggða.

Það er ekki ástæða til að þylja upp alla vegi í Vesturlandskjördæmi þó að ég hafi vikið að nokkrum þeirra í fáum orðum. En af því að ég er nú kominn langleiðina með að líta í huganum á nokkra þjóðvegi í því kjördæmi má auðvitað ekki gleyma uppsveitum Borgarfjarðar t. d. um Norðurárdal og Holtavörðuheiði. Það verður ekki annað sagt en að þeim vegi miði allvel áfram og þar verður unnið á þessu ári.

Á þessu ári verður m. a. byggð brú yfir Hvítá á Kljáfossi og er það mikil framkvæmd og góð í augum okkar þm. Vesturl. Að sjálfsögðu þykir okkur hægt miða áfram í þessum málum og gjarnan vildum við sjá stærri fjárhæðir sem veitt yrði til einstakra verkefna. En við verðum þó að sætta okkur við það að þetta tekur allt langan tíma. Land okkar er stórt og erfitt yfirferðar og við megum ekki gleyma því að viðurkenna það sem vel hefur verið gert.

Þar sem ég var síðast staddur við Kljáfossbrú sakar ekki að minna á veginn um Lundarreykjadal, Uxahryggi og Bláskógaheiði, að maður ekki minnist á Kaldadal. En ég ætla ekki að nefna fleiri vegi því að eftir að komið er suður af Uxahryggjum styttist leiðin á Þingvöll og á hina ágætu vegi, teppalögðu sem sumir segja, a. m. k. vandlega lagða bundnu slitlagi, eins og flestir vegir eru orðnir í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi.

Ég vil svo að lokum færa samstarfsmönnum mínum í fjvn. bestu þakkir svo og vegamálastjóra og starfsmönnum hans og hæstv. samgrh.