21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5493 í B-deild Alþingistíðinda. (4736)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umr. ýkja mikið en vildi ekki láta hana hjá líða án þess að taka til umræðu fáein atriði.

Hér hefur verið töluvert mikið rætt af þeim hv. ræðumönnum sem á undan hafa talað um það fjármagn sem ætlað er til vegagerðar, um þá prósentu af þjóðarframleiðslu sem ætluð er til þessara mála nú í ár og næstu tvö árin. Ég tek undir það sem hefur verið sagt að vegaframkvæmdir eru mjög arðbærar framkvæmdir, mikilvægur þáttur í okkar framförum og til þeirra þarf að verja eins miklu fé og möguleikar eru á hverju sinni. Hins vegar setja aðstæður okkur þröngar skorður núna og þarf ekkert að rekja það nánar, við höfum orðið að láta ýmis þörf verkefni bíða. Það er búið að ákveða þessa prósentu í ár og viljayfirlýsing um að þessi prósenta verði 2.4% næstu tvö árin og ber að vona að við það verði hægt að standa, því að það er rétt sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. að það verður víða pláss fyrir það fjármagn.

Ég vil koma að nýtingu þessa fjármagns sem til skiptanna er nú í ár og þeirri skiptingu sem er á milli kjördæma. Við þm. Austurl. höfum verið óánægðir með þá skiptingu sem hefur verið undanfarin ár. Samkvæmt útreikningum ber okkur að fá 18% af fjármagni til vegagerðar skv. þeirri skiptiformúlu sem í gildi hefur verið en við höfum ekki náð því undanfarin ár vegna þess að í heildarpakkanum hafa verið sérstök verkefni og Ó-vegir í öðrum kjördæmum sem eru að sjálfsögðu mjög þarfar framkvæmdir og þola ekki bið, en til þeirra hefur ekki verið aflað fjár sérstaklega eins og fram hefur komið.

Við munum leggja mikla áherslu á það þegar þetta hlutfall verður endurskoðað eftir það tímabil sem nú fer í hönd að gerðar verði leiðréttingar á þessu og við fáum skiptiprósentu í hlutfalli við þær þarfir sem fyrir hendi eru á Austurlandi í vegamálum.

Ég ætla ekki að tala langt mál um þarfirnar á Austurlandi. Búið er að nefna hér nokkur verkefni sem eru mjög brýn. Ég vil aðeins benda á hvílík risaverkefni þar eru fyrir hendi. Stærð kjördæmisins er slík að ef farið er þar um frá enda til enda þá er vegalengdin álíka leið og héðan frá Reykjavík og austur í Möðrudal. Menn geta ímyndað sér hvaða verkefni eru í vegamálum á slíku landsvæði þegar það bætist við að þarna eru fjallvegir fleiri og meiri en annars staðar að Vestfjörðum þó undanskildum. Við höfum mjög brýnt verkefni á Austurlandi sem við þurfum að vinna að á næstu árum, þ. e. að tengja Vopnafjörð og Hérað með vegi sem mögulegt væri að halda opnum meiri hluta ársins. Við þurfum að vinna að tengingu Héraðs við Breiðdal um svokallaða Víðigróf en þar er á þjóðvegi nr. 1 hinn versti óvegur sem er hálfófær allt árið fyrir venjuleg farartæki.

Við erum með stór verkefni á Berufjarðarströnd og í Kambanesskriðum eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. Við erum með hinn argasta veg á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, sem eru tvö fjölmenn byggðarlög á Austurlandi með mjög vaxandi umferð, og eins Suðurfjarðaveg. Það mætti auðvitað halda upptalningunni áfram miklu lengur því að verkefnin þarna eru óþrjótandi en ég ætla ekki að fara út í þá sálma meira að sinni.

Hér hefur verið rætt um teppalagða vegi og þá vegi sem ekki eru teppalagðir en það er víða þannig ástandið á Austurlandi a. m. k. að það á eftir að byggja vegina upp úr snjó, byggja þá þannig að það sé hægt að fara um þá ferða sinna að það séu ekki ófærir vegaspottar langtímum saman veturna og vorin. Það eru til vegir á Austurlandi sem eru ekki færir nema kannske tvo, þrjá mánuði á sumri svo vel sé en þeir vegir eru nauðsynlegir til þess að fólk geti farið ferða sinna til þess að menn geti sinnt jafn einföldum þörfum og að komast í verslanir á sínum verslunarstað, til þess að koma börnum sínum í skóla og til þess að geta sinnt mannlegum samskiptum eins og að sækja mannfagnaði og þar fram eftir götunum.

Við erum ekki farnir að hugsa svo hátt að byggja nein mannvirki fyrir gífurlega umferð eins og kom fram í ræðu hv. 5. þm. Reykn. Geirs Gunnarssonar að þörf er á hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki að gera lítið úr þeirri þörf en hins vegar sýnir þetta svo ekki verður um villst hve það er mikil firra þegar því er haldið fram að það sé hagkvæmt að röskun byggðar verði í landinu. Slíkt kallar á gífurlegar framkvæmdir, ekki minni framkvæmdir en þegar verið er að tala um að byggður sé vegarspotti fyrir einn eða tvo bæi og brú fyrir eina kerlingu eins og heyrðist einhvern tíma. Fjölmennið kallar á gífurlegar framkvæmdir í vegamálum eins og hér hefur verið réttilega rakið.

Miklar framfarir hafa orðið á undanförnum árum í gerð varanlegs slittags og menn hafa náð miklu betri tökum á þeim framkvæmdum en áður og þessum framkvæmdum hefur miðað mjög vel. Það má benda á að reynt hefur verið að leggja einfalt slitlag á þá vegi sem bera ekki mjög mikla umferð. Ég held að eigi að halda áfram á þessari braut og reyna að nýta þetta fjármagn sem allra best þannig því að þar sem þetta hefur verið gert hefur þetta gefið góða raun og verið til mjög mikilla bóta. Þjóðvegir eða stofnbrautir úti um landsbyggðina bera mjög misjafnlega mikla umferð og ef hægt er að nýta það fjármagn, sem varið er til varanlegs slitlags, betur með þessum hætti er sjálfsagt að reyna það.

Ég vil að lokum aðeins koma inn á ummæli hv. 5. þm. Reykn. um útboðin. Ég gæti trúað að við höfum átt þá sneið sem fluttum hér till. að láta fara fram könnun á gildi útboða. Ég vil eindregið mótmæla því að við höfum verið að leggjast gegn þessari stefnu í vegamálum. Ég held að það hafi komið fram í minni ræðu þegar ég talaði við umr. þess máls að það er ekki meiningin heldur verði búið svo um hnútana að ekki verði lögð niður sú þjónusta sem þarf að vera fyrir hendi úti á landsbyggðinni í þessum efnum. Það er grundvallaratriði. En ég hef margtekið það fram í þessu sambandi að vörubíla- og vinnuvélaeigendur verða í mörgum tilfellum að skipuleggja sig og sína starfsemi upp á nýtt miðað við þær breyttu aðstæður sem nú eru. Ég vil samt ekki viðurkenna neitt afturhald í þessum efnum heldur eðlilega varfærni og að það sé búið þannig um hnútana að menn geti rekið starfsemi með vörubíla- og vinnuvélar áfram úti um landsbyggðina og veitt þá þjónustu sem nauðsynleg er og verður alltaf að vera fyrir hendi og óþægilegt er að bjóða út hverju sinni.

Það má m. a. geta þess að þegar t. d. verða miklir vatnavextir eða skriðuföll eða eitthvað ófyrirsjáanlegt kemur fyrir er ekki hægt um vik að bjóða út viðgerðir á vegum eða samgöngumannvirkjum. Þá er gott að grípa til þessara aðila sem heima fyrir eru til þess að laga þessa hluti.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri. Ég við aðeins ítreka það að lokum að við þm. Austurl. munum vinna að því með öllum ráðum að leiðrétta okkar prósentu í skiptingunni. Þegar endurskoðun fer fram fáum við réttlátan hlut. En um skiptinguna í einstök verkefni innan kjördæmisins hefur verið alveg bærileg samstaða. Ég hygg að hv. 11. landsk. þm., sem er í þingmannahópi Austurl., muni gera grein fyrir sinni afstöðu en það hefur verið lýst mjög mikið eftir afstöðu hans hér úr þessum ræðustól. En ég tek undir það með hv. 2. þm. Austurl. að hann er áreiðanlega maður til þess að svara fyrir sig í sambandi við sína afstöðu í fjvn.