21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5498 í B-deild Alþingistíðinda. (4740)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er óhætt eftir ræðu hv. 11. landsk. þm. að koma svona klæddur upp í ræðustól á Alþingi. Mitt aðalerindi var eiginlega að segja örfá orð við hann í áframhaldi af hans ræðu áðan, en ég ætla fyrst að víkja að hv. þm. Páli Péturssyni, fjallkóngi þeirra framsóknarmanna, en hann gengur hér undir því nafni.

Ég heyrði ekki betur en hann teldi allt of mikið fjármagn lagt í vegaframkvæmdir. Ég veit ekki við hvaða tímabil hann miðar, líklega tímabil fyrrv. samgrh., sem er núv. hæstv. forsrh., formaður Framsfl., sem var tímabil niðurlægingar í vegaframkvæmdum. Það er það sem hv. þm. Páll Pétursson, þingflokksformaður framsóknarmanna, er nú að lýsa og miða við. (Félmrh.: Ég vil mótmæla þessu.) Hæstv. félmrh. er óhætt að mótmæla hverju sem hann vill.

En í framhaldi af þessu er rétt fyrir þá Austfirðinga að fara á fjörur við hv. þm. Pál Pétursson. Ef það er svona mikið til skiptanna ætti hann að geta látið þá Austfirðinga hafa einhvern skerf af sínu þannig að ekki væri vandamál þar. Ég veit að hv. 11. landsk. þm. mundi taka við slíku þannig að ekki væri vandamál að leysa þann hnút ef of stórt er skammtað einhvers staðar.

Þetta er ekkert nöldur í stjórnarandstöðu, hv. þm. Páll Pétursson. Það eru staðreyndir sem hér er verið að tala um. En ég get tekið undir það að ef hv. þm. Páll Pétursson miðar við það sem fyrrv. hæstv. samgrh. stóð að, þá er hér stærra skammtað og betur að verki verið en þá var og er það vel.

Og þá er það blessaður höfðinginn að austan, hv. 11. landsk. þm. Ég heyrði á hans ræðu að hann ætlar sér áfram að reyna að styðja við bakið á stráknum, eins og hann orðaði það á sínum tíma, hæstv. iðnrh., í ríkisstj. Menn voru ekkert að spyrja, a. m. k. ekki ég, hvort hann ætlaði sér að halda áfram að styðja ríkisstj. Ég varð fyrir vonbrigðum með það að hann svaraði engu af því sem spurt var um og var það þó afskaplega skýrt sem um var spurt. Nú skal spurt aftur þannig að menn geti þá svarað já eða nei.

Það kemur fram á þskj. 948 að hv. þm. Egill Jónsson, fjárveitinganefndarmaður, hafi verið fjarstaddur lokaafgreiðslu þessa máls, sem og er rétt. Það er rétt, af hvaða ástæðum sem það var, að hann var fjarstaddur. Ég spurði áðan hvort hægt væri að fá það upplýst hvort þessi hv. þm. sem einn af stjórnarliðsmönnunum í fjvn. stæði að þessari vegáætlun, hvort hann stæði að afgreiðslu þessarar vegáætlunar eins og hún var endanlega afgreidd frá fjvn. og hvort hann stæði að þessu nál. (Gripið fram í: Hvað heldur þú?) Hvað heldur þú? spyr einhver þarna. Það er líklega sá sem ekki var heldur við þegar þetta var afgreitt þó að hann skrifaði undir. Ég ætlaði ekki að leiða getum að því. Ég vil fá svarið frá viðkomandi aðila. Mér finnst að við eigum til þess rétt. Við sem erum að reyna að burðast við að styðja við bakið á stjórnarliðinu hér til ýmissa góðra verka eigum rétt á að fá að vita hvort stjórnarliðarnir sjálfir hafa hlaupið fyrir borð í einhverjum málum eða ekki. Spurningin er þessi: Stendur hv. 11. landsk. þm. að afgreiðslu þessarar vegáætlunar eins og fjvn. leggur hana hér fyrir og því nál. sem hér liggur fyrir frá nefndinni?