21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5503 í B-deild Alþingistíðinda. (4744)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vek athygli á því að nú við lokaumr. vegáætlunar hefur ekki tekist þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan að fá um það vitneskju hvort allir fulltrúar stjórnarflokkanna í fjvn. standa að þessari afgreiðslu. (Gripið fram í: Það er hægt að biðja um nafnakall.) Jú, það eru auðvitað ýmsar leiðir til þess að þrautreyna það hvort menn fást til að tjá sig og ég heyri á hv. formanni fjvn. að hann gerir ráð fyrir því, trúlega að fenginni reynslu, að það verði að grípa til þeirra aðferða ef eigi að fá menn til að tjá sig. En það er — (Gripið fram í: Menn geta verið fjarstaddir líka.) Jú, auðvitað. Svo bæta menn við: Það er hægt að vera fjarstaddur líka. En ég vek athygli á þessu vegna þess að mér finnst það skipta nokkru máli hvort stjórnarliðið sjálft stendur að þessari afgreiðslu eða ekki. Ég hélt — það er kannske einfeldni að halda það — að menn gætu tjáð sig um afstöðu, þ. e. ef þeir hafa afstöðu á annað borð. Ég vil bara vekja athygli á þessu nú að við lokaumr. málsins er það ekki ljóst hvort allir stjórnarliðar í fjvn. standa að þeim tillögum sem hér liggja fyrir um afgreiðslu vegáætlunar næstu árin. Enn er lýst eftir afstöðu og enn er tækifæri til að upplýsa þingheim um það hvort samstaða er eða ekki.