21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5505 í B-deild Alþingistíðinda. (4748)

476. mál, fiskeldismál

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Á þskj. 828, 476. mál, er till. til þál. um aðgerðir í fiskeldismálum sem ég mæli hér fyrir fyrir hönd okkar flm. sem eru auk mín hv. þm. Eiður Guðnason, Karl Steinar Guðnason og Karvel Pálmason. Þessari þáltill. er ætlað að marka stefnuna að því er varðar fiskeldismál og skipan þeirra að öðru leyti en því sem ég mælti fyrir hér áður varðandi skipan fiskeldismála í stjórnkerfinu, þ. e. undir hvaða rn. þau skuli fella. Hins vegar kemur fram í þessari till. vísbending, eins og ég gat um áðan, um að meðan ekki hefði verið ákveðið að þessi mál heyrðu undir sjútvrn. væru málin á hendi forsrh. Sú vísbending kemur fram í því að forsrh. er ætlað að skipa sérstaka nefnd sem hér er kölluð fiskeldisnefnd til að vera til ráðuneytis og ráðgjafar um þennan málaflokk.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að það hefur verið mikill áhugi á fiskeldismálum. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa lýst yfir trú sinni á greininni og að hún eigi framtíð fyrir sér og gæti orðið vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi. Þeim mun furðulegra er að stefnumörkun hefur verið mjög á reiki og tæplega er hægt að tala um eiginlega stefnumörkun að því er fiskeldi varðar þrátt fyrir margra ára umræður um þessi mál. Eins og ég gat um áðan verður því ekki séð að fiskeldi eigi neins staðar heima í stjórnkerfinu. Það er mjög mörgu ábótavant að því er varðar sjúkdómavarnir og af því höfum við ótal dæmi. Rannsóknarstörf hafa mjög lítt verið stunduð í þessari grein. Hér skýtur skökku við miðað við þann áhuga sem menn hafa sýnt.

Það er vafalaust áhugi á því að skipa mörgu því er varðar fiskeldi með lögum, en ævinlega verður þó að hafa hóf á því að hve miklu leyti menn skipa slíkum málum með lögum. Hitt er þó ekki síður umhugsunarefni að það tekur tíma. Þessari till. er þá m. a. ætlað að brúa bilið þannig að greinin hafi traustari grundvöll til þess að standa á en hún hefur nú og viti hvar hún stendur.

Reyndar hefur mjög litlu verið skipað í lögum um fiskeldismál og tekur því varla að tína það til, en þá frekar með reglugerð um það litla sem gert hefur verið.

Í þessari till. eru níu töluliðir. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að sett verði á fót sérstök nefnd, fiskeldisnefnd. Hún á að vera samráðsvettvangur og ráðgjafaraðili í þeim málum sem varða fiskeldi. Verkefni nefndarinnar á auk þess að vera að efla miðlun upplýsinga um fiskeldi og undirbúa og hafa frumkvæði að rannsóknarverkefnum á sviði fiskeldis. Hún á að veita stjórnvöldum og opinberum stofnunum og þeim sem í greininni starfa ráðgjöf og það er ætlast til þess að henni verði veitt bærileg starfsaðstaða og fé verði veitt úr ríkissjóði til þess. Hér er gerð tillaga um að nefndina skipi tveir fulltrúar eftir tilnefningu frá Háskóla Íslands, einn eftir tilnefningu fiskeldisbrautar við búnaðarskólana að Hólum og Hvanneyri, einn eftir tilnefningu Hafrannsóknastofnunar, einn eftir tilnefningu Veiðimálastofnunar, einn frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva og einn fulltrúi frá forsrn., en forsrh. skipi nefndina. Þessari nefnd er þá ætlað allvíðtækt verkefni, eins og af þessu verður séð, og mikið ráðgjafarverkefni meðan hlutum hefur ekki verið komið með öðru móti fyrir,

Í annan stað er tillaga gerð um að þegar á þessu ári verði veitt heimild fyrir tveimur nýjum stöðugildum við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum við rannsóknir í fisksjúkdómum og vörnum gegn fisksjúkdómum og jafnframt verði veitt fé úr ríkissjóði til nauðsynlegra tækjakaupa. Til upplýsingar er rétt að geta þess að við tilraunastöðina að Keldum mun starfa einn vísindamaður og einn aðstoðarmaður að þessum verkefnum, en þau er nauðsynlegt að efla að tvennu leyti sérstaklega: í fyrsta lagi að auka rannsóknir á fisksjúkdómum og hins vegar að setja ákveðnar vinnureglur og leiðbeiningar og hafa eftirlit með þeim.

Í þriðja lagi er hér gerð tillaga um að reglugerð nr. 70 frá 1972, um heilbrigðiseftirlit með klakstöðvum og eldisstöðvum, með síðari breytingum, verði þegar endurskoðuð með hliðsjón af fenginni reynslu, sem ég þarf ekki til að vitna, og í því skyni að efla reglubundið eftirlit í klak- og eldisstöðvum og setja ströng skilyrði um heilbrigðisvottorð í tengslum við verslun með og flutning á hrognum, seiðum og eldisfiski. Á þetta hefur skort eins og dæmin sanna.

Í fjórða lagi er hér gert ráð fyrir því að fiskeldisstöð ríkisins í Kollafirði verði breytt í rannsóknastöð í fiskeldi og fé verði veitt þegar á næsta ári til stöðvarinnar með tilliti til þessa nýja verkefnis.

Ég skal ekki fjalla sérstaklega um sjúkdómamálin svo mjög sem þau hafa komið til umræðu hér í þinginu, en mig langar til að fara nokkrum orðum um rannsóknastarfsemi almennt.

Ég held að það sé augljóst að nauðsynlegt sé að við stundum eigin rannsóknir á þessu sviði vegna þess að íslenskar aðstæður eru sérstæðar og því getum við ekki nýtt okkur þekkingu annars staðar að nema að takmörkuðu leyti. Ef við vitnum t. d. til Norðmanna er fyrst til þess að taka að langmestan hluta eldis síns stunda þeir í sjávarkvíum, en okkar eldi mun vafalaust verða að mestum mæli eða í miklum mæli í landkvíum og er þar mikill munur á.

Í öðru lagi er sérstaða okkar fólgin í því að við höfum möguleikana á því að nota varma í langtum ríkara mæli en aðrir. Það er reyndar mjög litið vitað um hvernig vaxtarhraði eykst með hækkandi hitastigi, en þetta getur vitaskuld haft úrslitaáhrif á það í hve ríkum mæli sé hagkvæmt að kaupa varma til stöðvanna.

Í þriðja lagi eru birtuskilyrði sérstæð á Íslandi, en það er tiltölulega lítið vitað um áhrifin af samspili birtu og varma á vaxtarhraða og kynþroska. Þetta er líka mikilvægt rannsóknarverkefni.

Í fjórða lagi mætti benda á að það er tiltölulega lítið vitað um áhrifin af mismunandi þéttleika fisks í eldiskerjum, hvorki með tilliti til sjúkdóma né heldur með tilliti til vaxtarhraða. Þetta eru vitaskuld áhugaverð rannsóknarverkefni.

Í fimmta lagi er það rannsóknarverkefni hvernig megi kynbæta eldisfisk. Hjá grannþjóðum okkar er slík starfsemi rekin. Hér kemur m. a. til álita, að mínum dómi að ráða sérfræðinga á sviði erfðafræði til að gera erfðafræðilegar rannsóknir, reyndar bæði á eldisfiski og göngufiski og þá á göngufiski með tilliti til hafbeitar. Það er spennandi að velta því fyrir sér að því er hafbeitina varðar hvort hægt sé að ná árangri í því að greina lax sem t. d. skilar sér betur en aðrir og rækta þær erfðir ef unnt reyndist að festa hendur á þeim.

Nokkrar rannsóknir hafa verið stundaðar að því er varðar fóður, en þar er þó áreiðanlega mikið óunnið. Eins og fram kemur í máli mínu hef ég snúið því fyrst og fremst að laxinum, en það má ekki skilja það svo að aðrar eldistegundir séu ekki líka rannsókna verðar, bæði silungur og ýmsar flatfisktegundir, skelfiskur og krabbadýr svo að dæmi séu tekin. Í því sambandi er m. a. áhugavert að vita hversu ræktun krabbadýra eða skelfiska í affallsvatni frá laxakví gæti tekist. Þetta eru einungis nokkur dæmi um þau verkefni sem ég tel nauðsynlegt að menn líti til.

Skv. því sem ég rakti áðan er það hugmyndin skv. þessari þáltill. að fiskeldisnefnd færi með stefnumörkun og frumkvæði að því er rannsóknarverkefni varðar. Það ætti að undirbúa rannsóknaráætlanir og jafnframt tel ég að nefndin ætti að fá fé til að veita til valinna aðkeyptra rannsóknarverkefna.

Að því er Kollafjarðarstöðina varðar er lagt til, eins og ég gat um, að henni verði breytt í rannsóknastöð. Hún ætti þá bæði að geta stundað sjálfstæðar rannsóknir og tekið að sér rannsóknarverkefni fyrir þóknun.

Engu að síður er ljóst að til að byrja með yrði að verja fé úr opinberum sjóðum til að gera stöðina hæfa til þessa verkefnis þótt hún gæti síðar staðið undir kostnaði af rannsóknastarfinu með greiðslum frá greininni eftir því sem greininni hefði vaxið fiskur um hrygg.

Fimmta atriðið sem gert er að ályktunarorðum í þessari þáltill. varðar menntun í fiskeldisfræðum og eflingu hennar. Það er gerð tillaga um að hún verði efld m. a. með því að koma á fót kennslu í fiskeldi við verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands og námsbraut í fiskeldi í Reykjavík eða nágrenni hliðstæðri þeirri sem nú er starfrækt að Hólum. Jafnframt er lögð áhersla á að greitt verði fyrir því að nemendur geti fengið skólavist erlendis, t. d. í Noregi og Skotlandi, vegna náms í greinum sem varða fiskeldi og jafnframt að veitt yrði fé til að kosta erlenda kunnáttumenn til að halda fyrirlestra og námskeið á Íslandi. Ég þarf ekki að fjölyrða um nauðsyn góðrar menntunar sem undirstöðu þess að vel takist til í hverri atvinnugrein. Ég held reyndar að það hafi oft háð okkur að kostur hafi ekki verið á vel menntuðu starfsliði í nýjum atvinnugreinum sem upp hafa verið teknar. Í fyrstunni verðum við að sjálfsögðu að leita eftir því að nýta okkur þá þekkingu sem upp hefur verið byggð hjá ýmsum grannþjóðum okkar jafnframt því að efla kennslu í þessum greinum á innlendum vettvangi eftir því sem okkur vex fiskur um hrygg.

Í sjötta lagi er lagt til að stuðlað verði að því að þau mál er varða sölu í þessari grein verði að sem mestu leyti í höndum Íslendinga, m. a. með því að viðurkenna útgjöld vegna uppbyggingar sölustarfsemi sem lánshæfan hluta fjárfestingar. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér er það mjög í mun að Íslendingar spreyti sig á sölustarfi í þessari grein og ég tel að við eigum að hafa allar forsendur til þess, en það sé líka eðlilegt og rétt að stuðla þá að því að svo verði.

Í sjöunda lagi er lagt til að Framkvæmdasjóði Íslands verði fyrst um sinn falið að veita fjárfestingarlán til fiskeldisfyrirtækja og jafnframt verði honum falið að veita ábyrgðir sem á kann að vanta til viðbótar veðum í eignum viðkomandi fiskeldisfyrirtækja, sem banki eða lánastofnun þar kann að krefjast, og að ráðstöfunarfé sjóðsins verði ákveðið með tilliti til þess að hann sinni þessu verkefni. Það er nefnilega ekki bara svo að því er stjórnkerfið varðar að greinin eigi hvergi heima, heldur varðar það einnig fjárfestingarlán og fyrirgreiðslu í þeim efnum. Ég vil benda á að meðalstór fiskeldisstöð mun þurfa til fjárfestingar álíka upphæð og gott bátsverð og hinar stærstu stöðvar getum við talið í togaraverði eða tveimur. En fiskeldi á sem sagt hvergi heima í kerfi fjárfestingarlánasjóðanna eins og nú er og það má rekja sögur af því, sem hv. þm. eru sjálfsagt kunnar, hvernig mál hafa þvælst milli banka og stofnana án árangurs og tafið fyrir þróun í þessari grein. Eitt er vitaskuld að útvega fé til þessara verkefna, annað að finna því stað í því kerfi sem slíkar framkvæmdir eru fjármagnaðar með. Það er skoðun okkar flm. að hvorugt megi dragast, en þyki mönnum álitamál hvernig skipa skuli þessum málum til frambúðar er vitaskuld fyrir öllu að ákveða það fyrirkomulag sem gildi þar til annað verður ákveðið. Hér er gert ráð fyrir að þetta verkefni verði falið Framkvæmdasjóði bæði að því er varðar lánveitingar og ábyrgðir fyrir lánum. Þá er auðvitað jafnframt verið að ætla Framkvæmdasjóði nokkuð mikilvægt verkefni. Hann verður nefnilega að meta þau verkefni sem sótt er um lán eða ábyrgðir vegna og velja umsóknir og hafna á grundvelli slíks mats. Honum yrði þannig falið að hafa nokkra stjórn á þróuninni. Það verður að segjast að þótt greinin sé efnileg er áreiðanlega skynsamlegt að hafa hóf á uppbyggingarhraða þannig að reynsla og þekking nýtist sem best og komið verði þannig í veg fyrir óþarfa áföll. Að mínum dómi er ekki nóg að aðilar geti sett bærilegar tryggingar fyrir lánum, heldur er ekki síður mikils virði að fjárfestingar og rekstraráætlanir séu vel undirbúnar og þær séu metnar og síðast en ekki síst að það sé tryggt að hæfir starfsmenn fáist til að reka stöðina. Skv. þessari till. er gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóður hefji þetta verkefni. Vitaskuld má finna annan aðila, ef menn geta fundið hann, en aðalatriðið er að skipa þessum málum strax þannig að þau velkist ekki lengur í vafa.

Í áttunda lagi er ályktað um það að stuðlað verði að því að afurða- og rekstrarlán vegna fiskeldis taki sérstakt mið af þörfum þessarar atvinnustarfsemi og verði ekki síðri kjörin sem fram bjóðast en þau sem bjóðast öðrum atvinnugreinum, svo sem sjávarútvegi og landbúnaði.

Í níunda lagi er lagt til að fyrir næsta löggjafarþing verði lagt frv. til l. um skipan fiskeldismála, þ. á m. um að efla og endurskipuleggja fisksjúkdómavarnir, mengunarmál, rannsóknarstarfsemi og rannsóknastöð í fiskeldi, sbr. það sem upp var talið undir 4. tölulið, en jafnframt verði lagt fram frv. til l. um breytingar á gildandi lögum til samræmis við þessa nýskipan, en þær breytingar þurfa reyndar ekki að vera miklar.

Í pósti mínum í dag voru bréf, eins og ég gat um í ræðu minni áðan, dags. 6. maí og 9. maí, frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Þau fjalla að hluta til um þau atriði sem ég hef hér gert að umtalsefni og ég vil leyfa mér að vitna til þeirra, með leyfi forseta.

Í bréfinu frá 6. maí, sem varðar fund með forsrh., kemur fram eftirfarandi:

„Koma þarf á reglum í sambandi við leyfisveitingar og umfram allt endurbótum á fisksjúkdómavörnum. Einnig er nauðsynlegt að skipuleggja rannsóknastarfsemi og menntunarmál. Lánafyrirgreiðslur eru í ólestri sem stendur, bæði að því er varðar framkvæmdir og rekstur. Landssambandið telur að koma eigi á fót nefnd eða ráði skipuðu mönnum með fagþekkingu sem samráðsvettvangi og ráðgjafaraðila. Ráðinu yrði falin forganga í stefnumótun í rannsókna-, heilbrigðis- og menntamálum.“

Hér eru slegnir sömu tónar og í þeirri þáltill. sem ég hef hér rakið og ég tel að hér komi fram stuðningur við þau sjónarmið sem í þáltill. eru.

Í bréfinu frá 9. maí er einnig farið fáeinum orðum um þessi atriði og ég vil leyfa mér að vitna til þess, með leyfi forseta. Tillaga Landssambandsins er sú, fyrir utan það að fiskeldi heyri undir forsrn. fyrst um sinn, „að leyfi til byggingar fiskeldisstöðvar verði í höndum viðkomandi sveitarfélaga á sama hátt og raunin er um önnur atvinnufyrirtæki, en þeim sé skylt að leita umsagnar fiskeldisnefndar, sbr. meðfylgjandi, auk þeirra aðila annarra sem með málefni atvinnufyrirtækja fara, svo sem Náttúruverndarráðs, Hollustuverndar ríkisins og skipulagsyfirvalda. Að Framkvæmdasjóði Íslands verði gert kleift að fjármagna uppbyggingu stöðvanna og viðskiptabönkunum að veita afurðalán. Að hlutverk stjórnvalda takmarkist við að sinna þörfum fiskeldisins fyrir menntun, rannsóknir og sjúkdómavarnir og fjármagna þann jarðveg sem nauðsynlegur er til þess að samkeppnisaðstaða sé viðunandi gagnvart erlendum fyrirtækjum í greininni.“

Þetta síðasta skírskotar til tolla- og söluskattsfrelsisins á fjárfestingu, niðurfellingar söluskatts og verðjöfnunargjalds á raforku til samræmis við stóriðjumynstur notkunarinnar og tímabundinna skattaívilnana á fyrstu starfsárum hvers fyrirtækis. Þetta eru þau ályktunarorð sem helst varða það sem hér hefur verið gert að umræðuefni.

Herra forseti. Ég hef rakið allítarlega efni þessarar þáltill. En meginatriðið er í rauninni það að stefna sé mörkuð þannig að greinin fái traustari grundvöll til að starfa á þannig að ljóst sé hver stefnan sé og að hér sé reynt að stefna fram á við með farsælum hætti. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir greinina að það megi takast. Vafalaust má tína til fleiri atriði en hér hafa verið rakin og sjálfsagt er að taka þar til skoðunar varðandi einstök atriði hvort finna megi betri skipan. En ég legg áherslu á að menn finni nú þegar einhverja skipan og einhverja stefnu sem unnt sé að beita og sem menn vita að gildi a. m. k. þangað til annað hefur verið ákveðið.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til atvmn.