01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

22. mál, Fiskifélag Íslands

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að svara hv. 4. þm. Vesturl.

Ég dró ekkert jafnaðarmerki milli Fiskifélags Íslands og saltvinnslunnar. Það má ekki misskilja orð mín þannig. Ég dró jafnaðarmerki milli óhollra afskipta ríkisvalds af atvinnulífi og milli saltvinnslunnar. Fiskifélag Íslands er ekki ríkisstofnun. Fiskifélag Íslands er í raun sjálfstætt félag sem ríkið hefur hægt og sígandi gerst æ stærri aðili að, uns það er nánast að 95% á framfæri ríkisins. Ef fullyrðingar hv. 4. þm. Vesturl. eru réttar gæti það sannast, ef ríkið hætti þátttöku sinni í starfsemi Fiskifélagsins, að eftir sem áður þyrfti ríkið að einhverju leyti á þjónustu þess að halda. Þá er sanngjarnt að það kaupi þá þjónustu því verði sem hún verður seld. Ég legg áherslu á það, sem hv. 4. þm. Vesturl. benti á. að Fiskifélagið þjónar annars vegar opinberum aðilum og hins vegar félagasamtökum sjávarútvegsins. Og ég ætla ekkert að kasta neinni rýrð á starf Fiskifélagsins, hvorki að því sem viðvíkur skýrslugerð né útgáfustarfsemi eða öðru slíku, en það er eðlilegt að sú þjónusta þess sem ríkisstofnanir og ráðuneyti hafa þörf fyrir fari fram annaðhvort hjá ráðuneytinu sjálfu eða þá af hálfu Fiskifélagsins og sé seld því verði sem standi undir kostnaði við hana.

Aftur á móti get ég ekki orðið sammála hv. 4. þm. Vesturl. um að almenningur hafi stórfenglegt gagn af því að kosta Kristján Ragnarsson á Fiskiþing. Ég held það sé mjög erfitt að færa sönnur á það. (Gripið fram í: Ég held það kosti ekki neitt.) Það kosti ekki neitt? Fiskiþing hefur nú stundum verið haldið annars staðar en í Reykjavík, á Akureyri t.d. (Gripið fram í: Nei, það er bara LÍÚ.) Það er bara LÍÚ. Jæja. En geti menn ekki einu sinni kostað sig sjálfa í bæinn á Fiskiþing segir það náttúrlega sitt um ástand sjávarútvegsins, það þurfi ríkisstyrki til. Ég get ekki endilega séð að það réttlæti tilvist Fiskifélagsins út af fyrir sig. Ég held einfaldlega að ef ríkið hættir þátttökunni í þessu félagi komi í ljós hvort hagsmunaaðilar telja sig hafa einhvern ávinning af því að halda rekstri þess áfram og nota þjónustu þess, sem þeir hafa notið hingað til, og kosta hana sjálfir. Það sem er verið að leggja til er ekki merkilegra eða mikilfenglegra.

Menn skyldu athuga að þau fyrirtæki, sem hér er almennt lagt til að lögð verði niður, eru æðimisjöfn að eiginleikum og það kunna að vera fleiri rök fyrir því að leggja þau niður en eingöngu þau að hér sé ekki um nauðsynlega félagslega þjónustu að ræða. Ég nefni mismunandi dæmi. Annars vegar Jarðboranir ríkisins, sem hér voru nefndar, og svo hins vegar Fasteignamat ríkisins. Seinna verður nú komið að báðum þessum fyrirtækjum. Eiginleikar þessara fyrirtækja eru mjög ólíkir. En í báðum tilvikum er ekki hægt að færa nein rök fyrir því hvers vegna ríkið eigi endilega að fást við rekstur þessara fyrirtækja. Í öðru tilvikinu er um að ræða fyrirtæki sem hreint og beint er hægt að leggja niður, þ.e. Fasteignamatið, án þess að það sjái högg á vatni þar sem þjónusta þess er gjörsamlega ónauðsynleg. Þá þjónustu er hægt að fá með öðrum hætti, einfaldlega með því að nota aðra viðmiðunarstuðla en Fasteignamatið. Jarðboranir ríkisins eru aftur á móti fyrirtæki sem til verður nánast í ákveðinni atburðarás. Sjálfsagt og eðlilegt var á einhverjum ákveðnum tíma að koma þessu fyrirtæki upp til þess að annast ákveðnar rannsóknir. en í sjálfu sér mætti alveg eins kaupa þjónustu þess.

Hvað viðvíkur orðum hv. 5. þm. Reykv. langar mig til að fara fyrst yfir hans erindi í aðalatriðum. Þar bar kannske hæst ákveðna gagnrýni í minn garð um vinnubrögð. Áður en ég svara þeirri gagnrýni mætti ég kannske leyfa mér að gagnrýna hann á móti.

Hann taldi upp fjölda fyrirtækja sem hugsanlega hefði líka mátt leggja til að leggja niður. Það kom ekki fram í hans máli hvort hann vildi eða vildi ekki. Ég kalla það líka óvönduð vinnubrögð í málflutningi komi það ekki skýrt fram af hálfu þeirra hv. þm. sem hér tala hver þeirra skoðun er á þeim málum sem þeir eru að fjalla um.

Hann spurði: Hvers vegna bara þessar stofnanir? Hvers vegna ekki fleiri. Til að byrja með vil ég svara því að þessar till. hefðu að mínu mati mátt vera fleiri. Ég takmarkaði mig við þessar stofnanir. Það var hrein og bein ákvörðun. Það að þetta eru þáltill. en ekki frv. liggur einfaldlega í því að mér fannst eðlilegt að byrja á því að kanna vilja þm. og ríkisstjórnar til þessara hugmynda og fá fram þær skoðanir sem hér kunna að vera ríkjandi meðal þm. sem hér sitja á þessum málum. Í framhaldi af því mundi ég, ef þessi mál ekki næðu fram að ganga, leggja fram frv. Ég ætla mér ekki að láta þetta mál niður falla upp við Grænlands köldu kletta. Málflutningur af þessu tagi um þessi fyrirtæki og fleiri er því örugglega í vændum.

Enn vil ég líka minnast á það að hér er alls ekki í öllum tilfellum verið að tala um að sú þjónusta, sem hér skuli lögð niður, verði þar með almenningi kostnaðar laus. Ég er einfaldlega að tala um að greiðsla og samningar um þessa þjónustu fari fram með öðrum hætti þar sem hún er nauðsynleg.

Ég biðst afsökunar á kansellístílnum. Ég skal taka það til greina að reyna að bæta mig í þeim efnum. Hv. 5. þm. Reykv, taldi upp fjölda fyrirtækja. Til að byrja með ætla ég ekki að væna hann um að hann hafi sofið á seinasta þingi, en minna hann þó á að hann getur flett því upp í fjárlagaumræðunni að við í BJ lögðum til að margar af þeim stofnunum, sem hann þar nefndi, yrðu felldar út úr fjárlögum, en það náði ekki fram að ganga. Þessi málflutningur er því í ákveðnu sögulegu samhengi. Við erum að hnykkja á málum sem þegar voru til umræðu í fjárlagaumræðunni í fyrra. — Það mætti kannske segja um þessa umræðu alla að það sé leitt að hæstv. ríkisstj. skuli vera fjarverandi upphaf fjárlagaumræðunnar.

Hv. 5. þm. Reykv. spurði: Hvers vegna Fasteignamat og hvers vegna ekki Hollustuvernd. Ég þarf vonandi ekki að fara út í skilgreiningar eða lýsingar á því að það er ákveðinn munur á Hollustuvernd ríkisins og Fasteignamati ríkisins hvað þjónustu við almenning snertir. Önnur stofnunin starfar að því að viðhalda ákveðnu öryggi hvað heilsu og hollustu snertir á meðan hin er að dingla við að gera eitthvað sem engin þörf er fyrir, þ.e. tilbúin þörf, og skiptir í engu öryggi landsmanna, hvorki hvað menntun, heilbrigði, húsnæði né annað snertir.

Ég veit ekki hvort þingheimur hefur tekið eftir því hversu margar af þeim stofnunum sem hv. 5. þm. Reykv. nefndi eru í vörslu eða undir yfirstjórn landbrn. Af því að í augnablikinu eru ekki neinir framsóknarmenn viðstaddir get ég viðurkennt það opinberlega að ég hef hugleitt alvarlega hvort ætti að leggja fram frv. um að leggja landbrn. niður. Menn hafa spurt mig þeirrar spurningar: Hvað er landbrn. að gera? Reyni ég að svara þeirri spurningu kemst ég óhjákvæmilega að þeirri niðurstöðu að landbrn. geri í raun og veru ekki neitt — ekki neitt sem gagn getur kallast.

Við lögðum til í fjárlagaumræðunni í fyrra að leggja niður Sölu varnarliðseigna. Eins og hv. 5. þm. var minntur á er það reyndar ákveðið stefnuskráratriði BJ.

Ég get ekki lagt Háskólabíó að jöfnu við þær stofnanir sem hér um ræðir. Háskólabíó er í vörslu stofnunar sem er í eigu ríkisins og Háskólinn reynir þar af veikum mætti að afla aukinna tekna. Stór hluti þeirra tekna, hvort sem um Háskólabíó eða happdrætti er að ræða, rennur beint í vasa ríkissjóðs. Við lögðum reyndar til í fjárlagaumr. í fyrra að þeirri skattheimtu yrði aflétt þannig að þetta skilaði einfaldlega meiri tekjum til Háskólans en það gerir í dag.

Í framhjáhlaupi, vegna orða hv. 4. þm. Vesturl. sem er nú horfinn af vígvellinum, sýnist mér að sú einfalda hótun að setja upp saltverksmiðju hefði hugsanlega nægt til að lækka saltið. Það hefði ekki þurft að fara út í 264 millj. kostnað til að ná 25% lækkun saltverðs.

Er þetta markaðshyggja eða er þetta frjálshyggja? spurði hv. 5. þm. Reykv. Það er auðvelt að segja nei, þ.e. þetta er hvorki markaðshyggja né frjálshyggja. Markaðshyggja eða frjálshyggja er hugsunarháttur þar sem einnar og hálfrar aldar gamlar kenningar um nytjastefnu eru gerðar að nokkurs konar trúaratriði, þar sem ekki er spurt spurninga um réttlæti eða það sem menn mundu almennt kalla heilbrigða skynsemi. Markaðshyggjan eða frjálshyggjan hafnar t.d. nánast algerlega öllu því sem kallast gæti kristilegt siðferði. Hérna er eingöngu um það einfalda og ekki flóknara atriði að ræða en það að það verður einhvern veginn ekki sannað að mínu mati með nokkru móti að það skaðist nokkur aðili á því að leggja niður þá starfsemi sem hér er gerð tillaga um að hætta. Aftur á móti verður það fullyrt með nokkrum rétti, tel ég, að sé dregið úr umsvifum ríkisins, og þá á ég ekki endilega við umsvil þess í peningalegu tilliti, heldur einfaldlega stærð þess, gæti það hugsanlega leitt til þess að árangur af starfsemi ríkisins á öðrum sviðum gæti batnað þar sem menn þyrftu ekki að dreifa athygli sinni yfir jafnflókinn og margbrotinn rekstur.

Hv. 5. þm. Reykv. benti á að hérna væri um atvinnu u.þ.b. 300 manns að ræða og þar héngi trúlega afkoma u.þ.b. þúsund manns á spýtunni. Hérna er um u.þ.b. 150 millj. í ríkisbúskapnum að ræða. Það má benda á að þessar 150 millj. plús saltverksmiðjan samsvara í heild sinni útgjaldaaukningu ríkisins vegna samningsins við BSRB.

En þetta dæmi er ekki svona einfalt. Ég tel að ef þörf er á eða eftirspurn er eftir þeirri þjónustu sem þarna er rekin, — ég geri mér grein fyrir því að svo er það alls ekki í öllum tilvikum, það er engin eftirspurn eftir þjónustu Fasteignamatsins, — þá sé ekki um atvinnuöryggi 300 manns að ræða heldur miklu færri. Samt sem áður get ég ekki réttlætt að þessum stofnunum sé viðhaldið eingöngu vegna þess að þær eru atvinnuskapandi fyrir einhvern tiltekinn hóp manna.

Eins og ég sagði í upphafi var ekki algjörlega hægt að ráða það af orðum hv. 5. þm. Reykv. hvort hann vildi eða vildi ekki. Það fór ýmislegt í taugarnar á honum í sambandi við þennan tillöguflutning. Það voru vinnubrögðin, það var spurningin um það hvers vegna þessar stofnanir væru tilnefndar og ekki fleiri og þar fram eftir götunum. Hann lýsti því reyndar að í ákveðnum grundvallaratriðum væri hann hugsanlega ekki andsnúinn þessu eða jafnvel sammála þessum hugmyndum að einhverju leyti. En þó fannst mér skina í gegn einhver almennur pirringur. Ég get ekki alveg gert mér grein fyrir því vegna hvers þessi pirringur er til kominn. Ég minnist þess reyndar að einhvern tíma hafi það, hugsanlega fyrir tíð hv. 5. þm. Reykv., verið í lögum Alþfl. að menn skyldu stefna að því að öllu jöfnu að ráða flokksbræður sína í stöður hjá því opinbera. Þessi grein mun hafa verið felld úr lögum fyrir ekki löngu. Þá má kannske spyrja að því að lokum: Er þessi pirringur hugsanlega tengdur því að það séu í þessum stofnunum óvenjulega margir kratar? Ég hef ekki kannað það mál til hlítar.