21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5512 í B-deild Alþingistíðinda. (4752)

414. mál, fjárhagsvandi bænda

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um úttekt á fjárhagsvanda bænda og ráðstafanir í landbúnaði sem er á þskj. 680. Það er till. sem ég er 1. flm. að, en ásamt mér standa að till. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Ragnar Arnalds, Skúli Alexandersson og Helgi Seljan. Ég leyfi mér að fara yfir efni þessarar þáltill. ef forseti gerir ekki athugasemd við.

„Alþingi ályktar vegna versnandi afkomu í landbúnaði og mikilla fjárhagserfiðleika bænda að fela ríkisstj.:

a. Að beita sér nú þegar fyrir úttekt á fjárhagsstöðu bænda og einstakra búgreina. Athuga skal sérstaklega raunverulegar launatekjur bænda síðustu ár borið saman við viðmiðunarstéttir og horfur varðandi afkomu á næstunni. Einnig verði reynt að meta helstu ástæður fyrir versnandi afkomu, svo sem árferði, markaðsaðstæður og stjórnvaldsaðgerðir, m. a. stefnuna í vaxta og lánamálum.

b. Að undirbúa tillögur um ráðstafanir til úrbóta í ljósi niðurstaðna úr úttekt, sbr. a-lið, með það að markmiði að koma í veg fyrir yfirvofandi byggðahrun. Slíkar tillögur skulu m. a. miða að því:

að draga úr greiðslubyrði með almennri lækkun vaxta og lengingu lána,

að jafna aðstöðu meðal bænda, m. a. með breyttri framleiðslustjórn,

að örva sölu á landbúnaðarafurðum með vöruþróun, bættri markaðsstarfsemi og niðurgreiðslum,

að renna styrkum stoðum undir nýjar búgreinar með auknum lánveitingum, betri nýtingu fjármagns, ráðgjöf og góðu skipulagi.

Sérstaklega verði tekið á vanda sauðfjárbænda og þeirra bænda sem lagt hafa í umtalsverðar fjárfestingar á undanförnum fimm árum.

Landbrh. geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum úttektar, skv. a-lið, og tillögum til úrbóta, skv. b-lið, í þingbyrjun haustið 1985.

Kostnaður, sem hlýst af ályktun þessari, greiðist úr ríkissjóði.“

Í grg. er farið yfir þau atriði sérstaklega sem valda þrengingum hjá bændum að mati flm. og þær aðgerðir sem gerð er tillaga um að ráðist verði í eða undirbúnar verði nú alveg á næstunni.

Það er kunnara en um þurfi að hafa mörg orð hvernig erfiðleikar hafa magnast upp í landbúnaði undanfarin misseri þó að árferði til landsins hafi yfirleitt verið óvenjuhagstætt. Þetta ástand hefur þróast þannig að víða blasir við búsetuhrun ef ekki verður um að ræða samstillt átak af opinberri hálfu í samvinnu við fólkið í byggðarlögunum til að bregðast við þessum aðstæðum.

Um þetta ástand vitna m. a. margar ályktanir sem borist hafa að undanförnu frá bændafundum, hagsmunasamtökum bænda og raunar einnig Búnaðarþingi og sumar þeirra eru birtar sem fylgiskjöl með þessari þáltill.

Það fer ekki milli mála að efnahagsstefna stjórnvalda hefur leikið bændur grátt, ekki síður en launafólk og aðrar vinnustéttir í þessu landi. Þar nægir að benda á dæmi eins og hávaxtastefnu ofan á verðtryggingu lána og mikinn samdrátt í niðurgreiðslum. Kvótakerfið í landbúnaði hefur mistekist í veigamiklum atriðum og bitnaði harðast á litlum bújörðum sem eru margar og skipta miklu máli í byggðakeðjunni. Tíðar breytingar á fóðurbætisskatti hafa gert bændum erfitt fyrir með skipulag framleiðslunnar og þrátt fyrir skattinn blasir nú við veruleg offramleiðsla mjólkurafurða á nýjan leik eftir tímabundinn samdrátt. Vitna um það m. a. fréttir sem komu frá Ríkisútvarpinu í kvöld um það að ekki væri unnt að mati Framleiðsluráðs landbúnaðarins að tryggja mjólkurbændum fullt verð fyrir framleiddar afurðir. Stjórnvöld draga úr hömlu að taka ákvarðanir varðandi framleiðslumagn, varðandi áburðarverð og annað er lýtur að hagstjórn í búrekstri. Bændur fá greiðslur fyrir framleiddar afurðir seint og illa og endanlegt uppgjör fyrir síðasta verðlagsár (1983–1984) fékkst ekki fyrr en nær hálfu ári eftir að því lauk, kom raunar ekki til sumra bænda fyrr en um mánaðamótin janúar-febrúar á þessu ári. Óvissa ríkir um útflutningsbætur sem kunnugt er og aðra mikilvæga þætti varðandi búskapinn.

Verðlagningarkerfi búvöru er enn einn þáttur sem er meingallaður og vantar mikið á að kostnaðarliðir séu rétt áætlaðir í verðlagsgrundvellinum, að mati samtaka bænda a. m. k.

Allir þessir þættir til samans og fleiri, sem ekki eru hér taldir, hafa leitt til gífurlegrar kjaraskerðingar hjá bændastéttinni sem stóð höllum fæti fyrir vegna óhjákvæmilegra framleiðslutakmarkana. Launaþátturinn í búreikningum hefur rýrnað stig af stigi á meðan tilkostnaðurinn hækkar stöðugt og fram undan er mikil hækkun, og raunar framgengin, á áburðarverði, upp á 40% á þessu vori. Fjölmargir bændur berjast nú í bökkum og skrimta í náð upp á krít hjá kaupfélögum og öðrum afurðasölufélögum. Margir sjá ekki fram úr erfiðleikunum, hvorki varðandi afborganir af lánum, þ. á m. skuldbreytingarlánum sem tekin voru í fyrra, né heldur hvernig greiða á áburð vegna áburðarkaupa á þessu vori.

Ástandið í sveitum landsins hefur aldrei verið jafn alvarlegt í raun síðan á kreppuárunum á fjórða áratug aldarinnar og fjöldi bænda mun engu síður fyrir þá þéttbýlisstaði sem tengjast þeim og byggja í ríkum mæli á úrvinnslu landbúnaðarafurða og þjónustu við nærliggjandi sveitir.

Það bætir ekki úr skák að stefnumörkun varðandi nýjar búgreinar, svo sem loðdýrarækt og fiskeldi, hefur verið óljós og losaraleg og fyrirgreiðsla og stuðningur af opinberri hálfu ófullnægjandi. — Raunar vorum við hér í dag í sþ. að ræða fiskeldismálin þar sem farið var yfir það stefnuleysi sem ríkir af hálfu stjórnvalda í sambandi við þennan vaxtarbrodd sem ýmsir hafa bundið vonir við að gæti komið strjálbýlinu að nokkru haldi.

Óhjákvæmilegt er að veita þeim sem ráðast í nýja framleiðslu, eins og loðdýrarækt, aðstoð og aðlögunartíma, m. a. varðandi lánskjör og afborganir af lánum þar sem afurðir fara ekki að skila sér fyrr en tveimur árum eftir að lagt er í fjárfestingu.

Með þessari þáltill., herra forseti, er lagt til að Alþingi feli ríkisstj. að taka nú þegar á þessum málum til að koma í veg fyrir þann ófarnað sem við blasir og létta byrðar þeirra bænda sem verst eru staddir, en hafa að öðru leyti ekki forsendur til að halda áfram búskap.

Við leggjum áherslu á að niðurstöður þeirrar úttektar á fjárhagsvanda bænda, sem gert er ráð fyrir að stjórnvöld beiti sér fyrir, liggi fyrir sem fyrst þannig að hægt sé að hafa hliðsjón af þeim þegar mótaðar eru tillögur til að rétta hlut bænda.

Í till. er ekki tekin afstaða til þess í einstökum atriðum til hvaða ráða skuli gripið þó að flm. telji raunar augljóst í mörgum tilvikum hvar skórinn kreppir. Þeirri úttekt sem hér er gert ráð fyrir er ætlað að lýsa betur inn í þann vanda sem hér er við að fást.

Meðal atriða sem hljóta að koma til umfjöllunar þegar gerðar eru tillögur um úrbætur og jöfnun á kjörum bænda eru, svo að dæmi séu tekin: fjármagnskostnaður; rekstrarlán, lánshlutfall og uppgjör af hálfu afurðasölufélaga; framleiðslutakmarkanir, þ. á m. svæðakvóti og bústærð; útflutningsuppbætur, m. a. hugsanleg nýting fjármagns til jöfnunar á aðstöðu bænda; niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum sem núverandi ríkisstj. hefur dregið úr í mjög ríkum mæli; jarðræktarstyrkir og breytt tilhögun á þeim; vinnslukostnaðurinn og aðgerðir til lækkunar og hagræðingar, en það hefur komið fram að kostnaður vinnsluaðilanna er nánast ótrúlegur, t. d. er heildsölu- og skrifstofukostnaður jafnhár eða ívið hærri en þau laun sem greidd eru vegna haustslátrunar. Verðmyndunarkerfi landbúnaðarafurða er einnig atriði sem taka verður á. Nefnt hefur verið þegar nýjar búgreinar, stuðningur og skipulag við þær. Síðast en ekki síst skal geta félagslegra aðgerða, m. a. afleysingarþjónustu, viðurkenningar á vinnuframlagi kvenna á búum og fulls fæðingarorlofs fyrir konur í sveitum.

Eftir að þessi þáltill. var lögð fram nálægt páskum hefur hæstv. landbrh. svarað nokkrum fsp. sem fram voru bornar af minni hálfu og raunar frá fleiri þm. og segja svörin nokkuð um þau vandamál sem hér er við að fást og hvernig aðgerðir núverandi ríkisstj. hafa verkað á ýmsa þætti í landbúnaði. Þannig hefur hæstv. ráðh. svarað til um áburðarverð sem ákveðið var seint og um síðir og löngu seinna en reglur bjóða að gert sé. Hann hefur svarað um verðuppgjör til bænda og þann mikla drátt sem þar hefur orðið á. Því miður gat hann ekki fullvissað okkur um að til hliðstæðrar seinkunar gæti ekki komið á verðuppgjöri til bænda vegna yfirstandandi verðlagsárs. Hann hefur einnig svarað skriflega fsp. um breytingu á niðurgreiðslum þar sem m. a. kom í ljós að samdráttur í niðurgreiðslum frá 1982 hefur haft í för með sér að verð á kindakjöti hefur hækkað um 31% og enn þá meira á mjólkurafurðum. Þar er það 43% og á smjöri um nálægt 51% aðeins vegna samdráttar í niðurgreiðslum. Menn geta rétt ímyndað sér hvort slík stórfelld breyting á verði vegna minnkandi niðurgreiðslna hefur ekki haft áhrif á söluna og þar með þann vanda sem við er að fást vegna landbúnaðarframleiðslunnar og bitnar það fyrst og síðast á bændunum sjálfum.

Fram er komið hér á þingi síðan þessi þáltill. var flutt sérstakt frv., ríkisstjórnarfrv., um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og hefur það verið nýlega til umr. í hv. Nd. Ég ætla ekki að gera það frv. að umtalsefni. Um það hefur verið rætt af þm. Alþb., þ. á m. hv. 4. þm. Norðurl. e. sem hefur gert það að tillögu sinni að ekki verði stætt á því að afgreiða og lögfesta þetta frv. á yfirstandandi þingi, svo sáralítið sem bændum og öðrum hagsmunaaðilum hefur gefist kostur á að fjalla um það á undirbúningsstigi, heldur verði markvisst að því unnið á komandi sumri — væntanlega í von um að Alþingi starfi ekki alveg til hausts og saman renni 107. og 108. löggjafarþing en um það vitum við raunar ekkert enn sem komið er — og sumartíminn verði notaður til þess af þar til kvöddum þm. að kynna málið fyrir bændum, ræða það við fulltrúa bænda og fara yfir einstök atriði, þannig að menn geti tekið á þessum málum með öðrum o betri hætti strax og þing kemur saman að hausti. Ég vek athygli á því að sú till. sem hér er flutt um úttekt á vanda bænda og einstakra framleiðslugreina í landbúnaði getur orðið þýðingarmikið innlegg í þá athugun og þá umræðu sem við erum að gera tillögu um að Alþingi beiti sér fyrir með skipulögðum hætti á komandi sumri í þessum efnum.

Ég held að það hefði verið þörf á því einmitt vegna þessa stjfrv. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum að úttekt af því tagi sem hér er lögð til að gerð verði lægi fyrir þannig að þingið gæti haft hana til hliðsjónar. Það verður hægt ef vel verður að staðið af framkvæmdavaldsins hálfu í sambandi við þessa úttekt og hún tengd þeirri umræðu sem Alþb. hefur lagt til að fram fari um þennan stóra lagabálk, frv. til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég vænti þess að þótt liðið sé á þing fái þessi till. þinglega meðferð og unnt verði að taka á þeim þáttum á komandi sumri sem þar er lagt til. Ég legg til að till. verði eftir að umr. hefur verið frestað vísað til hv. atvmn. sameinaðs þings.