21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5525 í B-deild Alþingistíðinda. (4767)

468. mál, ferðaþjónusta

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég get verið alveg sammála því sem hv. ræðumenn hafa sagt hér, að það er vaxandi áhugi á þessari atvinnugrein víða um land. Ég verð var við mikla grósku í greininni, ferðamannaþjónustunni, í minni heimasveit. Ég get þó ekki annað en tekið undir það með hv. þm. Árna Johnsen að mér finnst nokkuð mikil bjartsýni að halda að könnun sem þessi gæti orðið tilbúin á þeim tíma sem gert er ráð fyrir, jafnvel þó að tækist að afgreiða þessa tillögu út úr nefnd og frá þinginu í vor.

Ég skildi hv. þm. Árna Johnsen ekki á neinn hátt þannig að hann teldi landsbyggðina setta á hakann að neinu leyti í till. Ég hjó miklu frekar eftir því og vil reyndar leggja áherslu á það að stundum sé einum of mikið gert að því að hvetja menn til að bíða eftir því að ríkið eða hið opinbera geri einhverja könnun sem þessa. Því betur gerir hið frjálsa framtak ýmislegt, bæði í þessum atvinnuvegi og öðrum, ef menn telja það arðbært. Það hefur enginn hvatt menn hingað til, að ég held, til þess að stofna ferðaskrifstofur eða stofna til auglýsingastarfsemi til að hvetja menn til utanlandsferða. Þar er þó mun meiri gjaldeyriseyðsla, líklega um helmingi meiri gjaldeyriseyðsla en gjaldeyristekjur af ferðamönnum til Íslands og enn þá eru fleiri Íslendingar sem ferðast til útlanda heldur en erlendir sem okkur sækja heim.

Ég tek undir það að þetta er ágætis grg. og málið í sjálfu sér mjög gott. Ég veit ekki hvers má vænta af nýju frv., sem vonandi verður að lögum, sem hér liggur fyrir frá samgrh. Það er í því að mínu viti margt sem horfir til bóta. Sjálfsagt er þar eitthvað sem betur mætti fara, eins og hv. þm. Helgi Seljan gat um. Eitt sem ég hjó eftir í ræðu hv. þm. var að stuttur tími ferðamanna hér á landi gerði mönnum erfiðara fyrir í greininni. Þetta er sjálfsagt alveg rétt. En er það ekki svo víðast hvar í veröldinni að ferðamannatími er yfirleitt stuttur? Ég segi víðast hvar. Það eru sjálfsagt til staðir sem geta lengt hann nokkuð, en sólarstrandir eru tómar langan tíma ársins og eins skíðastaðir út um heim. Ég veit það að heima í Mývatnssveit eru það nú töluvert á annað hundrað manns sem vinna við það starf eingöngu á sumrin að taka á móti ferðamönnum og þar hafa menn gert þó nokkuð mikið sjálfir, með aðstoð sveitarfélagsins í sumum tilfellum, í sumum tilfellum eingöngu af sjálfsdáðum, til þess að taka á móti ferðamönnum og hafa af því ábata. Og það er það sem mér finnst meginmáli skipta. Þar hafa menn lagt í þó nokkurn auglýsingakostnað. Bændur í Mývatnssveit hafa lagt í auglýsingakostnað út um allan heim og leigja nú herbergi í sínum íbúðarhúsum erlendum ferðamönnum yfir sumartímann.

Ég vil ekki orðlengja þetta meira. Ég vildi aðeins að það kæmi fram að málið er að mínu viti mjög markvert, þ. e. sú atvinnugrein sem kallast hér ferðamannaþjónusta. Ég stend m. a. í því núna að undirbúa stóra ráðstefnu, sem haldin verður hér eftir sex vikur, þar sem væntanlega verða nokkur hundruð erlendir gestir. Það er býsna flókið mál og ég er hræddur um að við séum ekki alls kostar undir það búnir, jafnvel ekki þeir sem telja sig fagmenn í greininni, jafnvel ekki þeir sem reka hér stór hótel og standa fyrir ferðamannaþjónustu, hvað þá svona viðvaningar eins og ég og mínir líkar.