21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5529 í B-deild Alþingistíðinda. (4771)

468. mál, ferðaþjónusta

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég fagna þessari ágætu umræðu sem hefur orðið um þessa till. okkar. Ég vil sérstaklega þakka viðurkenningarorð hæstv. fjmrh. og annarra hv. þm. sem hafa farið loflegum orðum um grg. þessarar till.

Hv. 3. þm. Suðurl. og 2. þm. Norðurl. e. og raunar einnig hæstv. fjmrh. telja þó að ekki sé möguleiki að vinna þetta verk á svo skömmum tíma sem lagt er til. Við flm. teljum þetta gerlegt og þessi tímamörk eru að sjálfsögðu við það miðuð að fjárlagatillögur verða að vera komnar fram fyrir mitt ár. Það er nauðsynlegt til þess að tillit sé tekið til þeirra við fjárlagagerðina. Þessi till. var að sjálfsögðu ekki lögð fram í gær. Ég man nú ekki hvenær hún var lögð fram, það er ekki mjög langt síðan, en engu að síður hefur dregist ögn að mæla fyrir henni. Ég vonaðist til að geta það fyrr.

Þeim til hughreystingar sem hafa áhyggjur af því að þetta takist ekki vil ég láta þess getið að það er auðvitað minnsta mál í heimi að lengja þennan frest ofurlítið til þess að minnka þá álagið á símann sem hv. 3. þm. Suðurl. hafði áhyggjur af. En ég tók eftir því að þessi till. kom svolítið við fjárveitingahjartað í hv. 3. þm. Suðurl. Ég skil það mjög vel. Ég þekki þessa tilfinningu, enda taldi ég mér skylt að benda á sjóði sem sækja má í. Ég gleymdi að geta þess þegar ég kom hér upp áðan, vegna þess að þm. minntist á þetta líka í fyrra skiptið sem hann kom hér upp, en ég vil undirstrika það sem segir í grg. að eðlilegt væri að ætla Ferðamálasjóði skerf af fjármagni Þróunarfélagsins sem verið er að stofna um þessar mundir. Ég man ekki betur en við séum að tala um einar 500 millj. þar og það er nú hreint ekki búið að úthluta þeim öllum. (Gripið fram í: Það er löngu búið að því.) Er löngu búið að því, já. Stjórnarþingmenn vita það kannske betur. Hér segir einnig: „Enn fremur hlýtur hluti af uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni að flokkast undir eflingu atvinnu í stað hefðbundinna búgreina.“ Í frv. til breytinga á framleiðsluráðslögum er gert ráð fyrir því að draga úr útflutningsuppbótum og einmitt að leggja það fé sem þannig sparast í eflingu atvinnu í stað hefðbundinna búgreina. Ég vil enn minna á að ferðamálaráð og Ferðamálasjóður hafa lögbundinn tekjustofn, þ. e. 10% af söluverðmæti Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, tekjustofn sem því miður hefur stöðugt verið höggvið í.

Ég er reyndar svolítið undrandi á úrtölum hv. 3. þm. Suðurl., sem er maður athafna og framkvæmir gjarnan fljótt það sem honum dettur í hug, svo að ég hefði sannarlega ekki vænst andmæla af hans hálfu við því að skjótt væri brugðist við.