21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5537 í B-deild Alþingistíðinda. (4774)

484. mál, friðarfræðsla

Árni Johnsen:

Herra forseti. Fullmikið þykir mér nú höfðinu barið við steininn með því að koma með þessa till. hér aftur inn í sali Alþingis. Engin till., sem rædd var í hv. Alþingi á s. l. ári, varð eins umdeild og skapaði eins mikla úlfúð og umrædd friðartillaga, ekki einu sinni kvótamálið, og hefði líklega verið eðlilegra og skynsamlegra af hv. friðelskandi flm. að hægja aðeins ferðina og horfa til átta.

Það er nú svo að þegar um er að ræða heimspekilegar vangaveltur, eins og komu fram í ræðu hv. 1. flm., þá er erfitt að festa tök á hinum fjölmörgu kennisetningum sem fljóta þar hjá í örskoti. Það var talað um að það þyrfti að prófa fólk, reyna fólk, gera tilraunir á fólki eins og hægt væri að komast að einhverri niðurstöðu. Á hinn bóginn má alveg eins segja að hver einasti maður er hljóðfæri sem er engu líkt, þarf sinn eigin stíl, sína eigin möguleika og sinn eigin sveigjanleika. Strax þar strandar þessi kenning um prófunina, skipulagninguna, miðstýringuna, vegna þess að þessi friðarfræðsla, sem talað er um að eigi að vera allt niður í dagvistarstofnanir — það ætti kannske að ganga skrefið til fulls og taka vöggustofurnar með, — á að vera svo yfirveguð, svo skipulögð og miðstýrð að það er ekkert mannlegt sem getur rúmast þar í einni kenningu.

Það kom líka fram hugmynd um það — að vísu bresk, en sagt að hún ætti vel heima hér á Íslandi — að það ætti að gera athugun á friðarsinnum. Það er kannske svolítið forvitnileg tillaga. Ég verð að segja eins og er að ég öfunda hv. þm. Pál Pétursson að vera í hópi friðarsinna ef slíka rannsókn ætti að gera ítarlega. En ég vil leggja áherslu á það að sú friðarfræðsla, sem við þurfum á að halda í okkar landi og gagnvart okkar samherjum á þessum hnetti á meðan dvölin er, rúmast innan þeirrar siðfræði sem kristindómurinn byggir á. Það er ástæðulaust og óeðlilegt í okkar samfélagi að tína upp hér og þar slíkar kenningar sem fram komu í ræðu hv. síðasta ræðumanns en ganga fram hjá því sem heitir kristin fræðsla og rúmar allt það sem þm. talar um.

Það sem við þurfum á að halda er í fyrsta lagi frið við okkar fólk — þá segi ég okkar fólk í okkar landi — frið við okkar land og svo það líf sem snertir okkur utan við þröskuld landsins. Fyrst skulum við sinna þessu áður en við stöndum með allan heiminn í kokinu. Sú friðarfræðsla, sem við þörfnumst og hefur verið ræktuð og skilar sér vel í okkar landi, er sú kristnifræðsla sem er grundvöllur að okkar siðfræði. Það þarf ekkert nýtt gáfnafrauð til þess að tjalda í þeim efnum. Við eigum í skjóli slíkrar kennslu að hlú að mannrækt eins og allir foreldrar og kennarar gera í okkar landi að bestu samvisku með tilliti til hvers einstaklings. Svo einfalt er það mál og má sleppa gáfnafrauðinu.