21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5539 í B-deild Alþingistíðinda. (4778)

97. mál, heimaöflun í landbúnaði

Frsm. (Björn Dagbjartsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. atvmn. um till. til þál. um heimaöflun í landbúnaði.

N. fjallaði um till. og fékk umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda og landbrn. Allar umsagnir voru jákvæðar og n. samþykkti að mæla með samþykkt till. Fjarverandi afgreiðslu voru Eggert Haukdal, Jóhanna Sigurðardóttir og Kristín S. Kvaran.

Eins og fram kom í framsögu um þetta mál er þetta fyrst og fremst áróðursmál fyrir því að nýtni og hirðusemi, þær góðu dygðir, hverfi ekki alveg úr íslensku þjóðlífi.

Það er orðið svo að orðið „nýtni“ er farið, í máli fræðimanna meira að segja, að fá allt aðra merkingu en áður fyrr. Nú nota menn orðið „nýtni“ eins og nýtingu. Ég hjó eftir því í umr. hér fyrr í kvöld að tekjur bænda voru taldar mjög rýrar og ég get borið því vitni að einhver sú altekjulægsta stétt sem ég veit um eru sauðfjárbændur með lítil bú. Það var rætt hér um rýrar tekjur háskólaprófessora í dag, 35 þús. kr. laun á mánuði. Ég fullyrði að fjölmargir sauðfjárbændur á landinu hafa innan við 200 þús. eða höfðu innan við 200 þús. kr. nettótekjur s. l. ár. Þetta er fólk sem bókstaflega engu eyðir og rétt dregur fram lífið, margt eldra fólk sem engu eyðir. Það er ljóst að tilkostnaður við margan búreksturinn er allt of hár miðað við þær tekjur eða afrakstur sem hann gefur og nýbýli eru nánast vonlaus fjárfesting eins og er. Heimaöflun, eins og það hugtak var skýrt í framsögu í vetur, er eitt virkasta og raunhæfasta svarið við því að lækka tilkostnað við landbúnaðarframleiðsluna, þá væntanlega til hagsbóta fyrir alla.