01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

22. mál, Fiskifélag Íslands

Guðmundur Einarsson:

Nú, þá skulum við halda áfram. Fyrst langar mig að víkja að ýmsu sem hefur til fallið varðandi frjálshyggju og önnur grundvallaratriði. Það er kannske meinið í hugsanagangi ýmissa þeirra sem gjarnan telja sig á vinstri vængnum að leggja að jöfnu stofnanir eins og skóla og sjúkrahús og framkvæmdadeild Innkaupastofnunar. Skólar, sjúkrahús, elliheimili, dagvistarstofnanir og ýmsar slíkar varða milliliðalaust velferð og hamingju fólks í landinu, bæði sem heildar og sem einstaklinga. Við Bandalagsmenn höfum margoft lýst bæði í stuttu máli og löngu áherslum okkar á eflingu þeirrar þjónustu sem þar fer fram. Við höfum krafist þess, nú síðast t.d. við umr. sem fóru fram hér út af launamálum á þessu hausti, að í þessum málaflokkum sé varið réttlæti. Við höfum lagt áherslu á skyldu ríkisvaldsins til að sinna þessum efnum sem ég nefndi, t.d. skólamálum, sjúkrahúsmálum, elliheimilismálum, dagvistarstofnunum og ýmsu slíku. Þetta varðar sem sé velferð einstaklinga milliliðalaust, jöfnuð þeirra og réttlæti í þjóðfélaginu. En við teljum okkur alls ekki skylt að þessu gefnu að standa síðan jafndyggilega vörð um allar mögulegar og ómögulegar stofnanir í bænum sem gegna hinum ólíkustu hlutverkum misjafnlega vel og, eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vék að í máli sínu hér fyrr í kvöld, eru frá ýmsum tíma og í mörgum tilfellum frá tíma þegar þeirri starfsemi varð ekki með góðu móti á annan hátt komið á fót.

Það er á þessum grunni sem við stöndum sem jafnaðarmenn. Þetta er dæmi um okkar jafnaðarmennsku. Við viljum gæta og verja velferð og hamingju fólksins í þessu landi, en við teljum það á hverjum tíma skyldu stjórnmálamanna að endurskoða þær aðferðir sem beitt er og við teljum að sú varðstaða um velferðina eigi ekki að ná til þeirra stofnana sem við höfum rætt um hér í kvöld. Starfsemi þeirra varðar ekki umræðu um grundvallaratriði í velferðarpólitík.

Mér þykir mjög miður að hv. þm. Skúli Alexandersson skuli vera farinn. Það kom ýmislegt fróðlegt fram í hans ræðu um Fiskifélag og Saltverksmiðju. Skemmtilegast þótti mér að hv. þm. Alþb., vinstri maðurinn og vörðurinn um öll kompaníin lýsti því yfir í byrjun síns máls hvernig kostir samkeppninnar hefðu valdið verulegri lækkun á saltverði. Ef þessi hugsunarháttur væri ríkjandi í meira mæli í ræðum og tillögusmíð á þeim bæ gæti vel verið að ýmislegt horfði til betri vegar.

Í upptalningu sem hv. þm. upphóf um starfsemi Fiskifélagsins kom ekkert fram sem ekki væri hægt að sinna á annan hátt en með sérstöku kompaníi utan um það eins og Fiskifélaginu. Það var nefnd skýrslugerð. Við höfum ýmsar stofnanir sem sjá um skýrslugerð, eins og Þjóðhagsstofnun og Hagstofu. Það var talað um úrvinnslu aflakvóta. Við höfum bæinn fullan af kompaníum sem eru með tölvur og alls kyns útbúnað til að vinna að slíku. Það var talað um sjómannaalmanak. Við erum með samtök sjómanna, við erum með samtök útvegsmanna, við erum með útgáfufélög og ýmsan rekstur sem mundi vafalaust ekki telja eftir sér að uppfylla þá þörf sem augljóslega er fyrir handbók af þessu tagi. Það má því óhikað velta fyrir sér hvort ástæða sé til að hafa þessa starfsemi í því formi sem Fiskifélagið er.

En það má líka taka hinn pólinn í hæðina og segja einfaldlega að þeir aðilar sem njóta þeirrar þjónustu beint sem Fiskifélagið veitir skuli meta hvort þeir vilja reka þessa starfsemi í sömu mynd eða einhverri breyttri mynd. Mér þótti þessi upplestur um Fiskifélagið því alls ekki sannfærandi. Sérstaklega slæmt þótti mér að ræðu hv. þm. skyldi ljúka með yfirlýsingum um að Fiskifélagið væri dæmi um félagslega stofnun sem væri hluti af grundvelli okkar lífs og okkar tilvistar sem þjóðar. Og þar er ég einmitt aftur kominn að því sem ég byrjaði á, þessum almennu atriðum, að það er kannske eitt bráðnauðsynlegasta verkefnið í íslenskri pólitík að menn skoði nú hug sinn um það hvort vera þurfi jafnaðarmerki milli sjúkrahúsa og framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins eða Fiskifélags Íslands.

Svo mörg voru þau orð. Það kom ýmislegt ágætt fram í vinsamlegum orðum hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar. Þar gætti að vísu ákveðinnar tvíhyggju að því leyti að lögð var áhersla á gagnrýni á framkvæmd, og helst virtist gagnrýnt að upptalningin hefði ekki verið algerlega tæmandi, þó að í aðra röndina virtist hv. þm. fylgjandi þeirri meginstefnu sem í þessum frv.-flutningi kemur fram. Maður veltir því helst fyrir sér hvort hv. þm. hafi fundist frv. súr. Það var vikið að orðalagi og það var viðvörun um að verða ekki samdauna kerfinu. Ég held að ég geti fyrir hönd okkar Bandalagsmanna meðtekið þessa viðvörun af fúsum og frjálsum hug frá fulltrúa þingflokks sem hefur þegar brennt sig.

Í öðru lagi var rætt um áherslu á löggjafarstarfið. Ég er alveg sammála því að á það ber að leggja mikla áherslu í starfi þm. Raunar tel ég að þar séu BJ og Alþfl. sammála. Það þarf auðvitað að velja þá aðferð sem hentar hverju sinni. Eins og hv. þm. Stefán Benediktsson benti á í sínu máli völdum við á síðasta þingi þá aðferð að flytja brtt. við fjárlög. Hún virðist greinilega ekki hafa verið nógu sterk því að enginn virðist hafa tekið eftir því að þar er í raun og veru opnuð þessi pólitíska askja sem við erum nú enn að opna fyrir þingheimi. Að þessu sinni var valin sú aðferð að flytja um þetta þáltill. Með því er beðið um að tekin sé „prinsip“-afstaða og síðan sé ríkisstjórn og hennar starfsfólki falið að framkvæma þær aðgerðir sem þarf. Þetta er því miður ekki einsdæmi um þá leið sem löggjafarfúsir þm. verða stundum í nauðvörn að fara. Það er öllum ljóst að aðstaða sú sem þm. og þingflokkar búa við veldur því að löggjafarstarfið hefur að verulegu leyti færst úr þeirra höndum þó þeir leitist kannske við með tillöguflutningi að halda þó enn þá að einhverju leyti um stjórnvölinn til þess að ráða stefnunni. Það er alveg rétt að deila má um hvort þessi aðferðin sé betri. Kannske kemur það í okkar hlut næsta haust, ef guð lofar, að flytja þessi mál í frv.-formi. Þá verðum við e.t.v. búnir að ganga þennan veg. En aðrir flokkar hafa því miður einnig þurft að beygja sig fyrir þessum staðreyndum hins daglega lífs okkar.

Það sem hv. þm. gerði mest mál úr var í raun og veru hvers vegna einungis þessi fyrirtæki eða þessar stofnanir væru teknar fyrir. Það er náttúrlega bara spurning um mat. Einhvers staðar verður að byrja. Og ég er ekki viss um að menn hefðu látið neitt betur yfir þessu máli þó að þeir hefðu fengið 98 þáltill. inn á borð sitt í byrjun þings.

Mér þótti hins vegar mjög vænt um að heyra að þessi tillöguflutningur hefur augljóslega vakið upp ýmsar mjög jákvæðar hugmyndir hjá hv. þm. Á þeim lista sem hann taldi upp eru stofnanir eins og Fóðuriðjan í Ólafsdal, Laxeldisstöðin í Kollafirði, Gutenberg, Háskólabíó og fleiri sem full ástæða er til að athuga gaumgæfilega hvort ekki eigi að sleppa taumum af. Ég dreg enga dul á það að ég tel að Laxeldisstöðin í Kollafirði sé t.d. löngu komin út fyrir sitt hlutverk. Það er þörf fyrir rekstur hennar sem rannsóknarstöðvar á Íslandi í fiskifræðum og fiskirækt. Hins vegar eru mörg ár síðan hún hætti að gegna því hlutverki svo vel væri, en tók upp fyrirtækjarekstur og selur seiði út um allt land.

Háskólabíó er líka umdeilanlegt að mínu mati sem gamals starfsmanns Háskólans. Það var mjög umdeilt á sínum tíma. Hins vegar vildi svo til einmitt um þetta leyti að Háskólinn átti peninga og það var ýmislegt í þjóðlífinu sem olli því á þeim tíma að fólk fór að sækja út fyrir heimili sín til að leita sér afþreyingar. Bíórekstur var um þær mundir verulega ábatasamur og þá hrapaði háskólaráð að því að byggja þetta bíó sem síðan í mörg, mörg ár var hinn versti og þyngsti baggi. Mjög margir starfsmenn skólans telja það, og með réttu, alls ekki hlutverk Háskóla Íslands að reka bíó, sem í þokkabót hentar síðan ekkert allt of vel til síns brúks.

Það var ágætt að fá þessar vísbendingar og leiðbeiningar og þar með ákveðna forvinnslu á því hvernig mætti útvíkka þessa hugmynd og þennan málarekstur. Við getum kannske fylgt því eftir einhvern tíma síðar. En það sem ég held að sé það mikilvægasta í þessari umr. og það sem veldur því að ég harma að hún skuli fara fram á þessum tíma, án þess að hv. þm. hafi séð ástæðu til að vera viðstaddir, er að hér er rætt um að ég tel grundvallaratriði í pólitík. Þær skoðanir sem hér hafa komið fram, þar sem sett eru jafnaðarmerki á milli reksturs skóla og sjúkrahúsa og reksturs stofnana eins og Innkaupastofnunar eða Jarðborana ríkisins, eru til sannindamerkis um það að þessi umr. á það skilið að fara fram aftur og á öðrum tíma dags.