22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5545 í B-deild Alþingistíðinda. (4786)

428. mál, gjöld af tóbaksvörum

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. Ég ætla ekki að ræða mikið efnislega þetta frv. Menn þekkja það allir. Það er um það að ræða að ríkið hætti einkasölu á tóbaksvörum, en í staðinn verði tekið upp gjald af tóbaksvörum til að ríkið haldi áfram þeim tekjum sem það áður hefur haft af tóbakssölu.

Á fundi nefndarinnar þegar um málið var fjallað, sem var raunar á fleiri en einum fundi, komu til viðræðna ýmsir, þ. á m. tóbaksvarnanefnd öll sömul og raunar líka forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, Jón Kjartansson, og síðan Ásgeir Friðjónsson í fíkniefnadómstólnum.

Tóbaksvarnanefnd vakti á því athygli að í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir því að framlög ríkisins til tóbaksvarna skuli ákveðin af Alþingi við afgreiðslu fjárlaga. Við það vildi nefndin ekki una, heldur að breytt yrði lögum um tóbaksvarnir þannig að þetta gjald yrði fastákveðinn hluti af tekjum ríkisins af tóbakssölu og á það féllst nefndin.

Það kom til umræðu hvort hugsanlegt væri að eitthvað kynni að verða auðveldara um smygl á fíkniefnum ef tóbaksvörur yrðu seldar af innflytjendum beint en ekki gegnum Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Af því tilefni töldum við sjálfsagt að kalla á okkar fund dómara í fíkniefnamálum, Ásgeir Friðjónsson, sem kom á fund til okkar og var lengi með okkur og skýrði fyrir okkur þá hörmulegu stöðu sem þau mál öll eru í og sýndi dæmi með myndum af því hvernig unnt væri að smygla þessum vörum til landsins, sem virðist nú gerast í síauknum mæli, en hann tók sérstaklega fram að það væri engin ástæða til að ætla að auðveldara væri að gera það í tóbakspakkningum en á annan hátt. Af þeim sökum væri engin ástæða til að ríkið hefði þessa einkasölu. Á grundvelli allra þessara upplýsinga leggur meiri hl. n. því til að frv. verði samþykkt. Minni hl. leggur hins vegar til að því verði vísað til ríkisstj. og mun sjálfsagt gera grein fyrir sinni afstöðu.

Ég vil geta þess að meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur sérstakt frv., frv. til l. um breyt. á lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir. Það hefði verið eðlilegt að það hefði verið á dagskrá hér líka núna, því var útbýtt um leið og nál. í máli því sem ég mæli nú fyrir, en af einhverjum mistökum hefur það ekki orðið. Það skiptir þó auðvitað engu máli því að það kemur bara á næsta fundi. En ég geri hér grein fyrir því að 1. gr. fjallar um það að árlega skuli sem svarar 0,5% af tekjum ríkissjóðs af tóbaksgjaldi verða greidd til tóbaksvarna og að tóbaksvarnanefnd geri tillögur til ráðh. um ráðstöfun fjárins. Það er kannske rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa grg. með þessu frv. úr því að það er ekki núna á dagskránni, en kemur á næstu dagskrá væntanlega, en hún er svohljóðandi:

„Frv. þetta, sem samið er og flutt af meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed., er fylgifrv. með stjfrv. um verslun ríkisins með áfengi og stjfrv. um gjöld af tóbaksvörum. Skv. ofangreindum frumvörpum, verði þau að lögum, fellur einkaréttur ríkisins til verslunar með tóbak niður frá og með 1. janúar n. k. Eins og kunnugt er skal skv. 15. gr. laga nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, verja 2% af brúttótekjum ÁTVR til tóbaksvarnastarfs. Ljóst er að um leið og ríkið missir einkasölurétt sinn á tóbaki verður mörkun fjárframlaga til tóbaksvarna ekki komið við með þessum hætti. Af þessum sökum er í frv. þessu gerð tillaga um að 0.5% af tekjum ríkisins af tóbaksgjaldi, sbr. 1. gr. frv. til l. um gjöld af tóbaksvörum, verði varið til tóbaksvarna. Miðað við áætlaðar tekjur af tóbaksgjaldi á verðlagi þessa árs næmi árlegt framlag til tóbaksvarna um 2.85 millj. kr. Fjárhæð þessi er sambærileg þeirri fjárhæð sem varið er til tóbaksvarna skv. gildandi lögum. Frv. þessu er m. ö. o. ætlað að tryggja að fjárframlög til tóbaksvarna verði með sama hætti og nú tíðkast þrátt fyrir þá kerfisbreytingu sem í frv. felst.“

Með þessum skýringum vænti ég þess að ekki þurfi um þetta mál að hafa fleiri orð.