22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5546 í B-deild Alþingistíðinda. (4787)

428. mál, gjöld af tóbaksvörum

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Hér er í raun og veru um þrjú mál að ræða. Það er í fyrsta lagi málið sem nú er til umr. og er frv. til l. um gjöld af tóbaksvörum, í öðru lagi er svo frv. til l. um verslun ríkisins með áfengi, en þessi tvö frumvörp eru samtengd eins og kunnugt er, og svo er þriðja frv. á þskj. 941, um tóbaksvarnir, sem meiri hl. fjh.- og viðskn. flytur í kjölfar afgreiðslu nefndarinnar nú.

Ég tók til máls við 1. umr. þessa máls og lýsti þá andstöðu minni við þá breytingu sem hér er gerð till. um. Ég flutti þau rök að breytingin væri óþörf, óeðlileg og ótímabær og gerði meira ógagn en gagn. Eftir að fjh.- og viðskn. Ed. tók málið til meðferðar tóku umræðurnar um málið nýja stefnu því að þá kom í forgrunn umræðnanna spurningin um það hvort breytingin sem hér er um að ræða kynni að stuðla að auknum tóbaksreykingum í landinu og að verið væri að brjóta niður það kerfi tóbaksvarna sem byggt hefur verið upp. Við sem skipum minni hl. n., hv. þm. Eiður Guðnason, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og ég, leggjum til að máli þessu verði vísað til ríkisstj. með þeim rökstuðningi fyrst og fremst að málið sé varhugavert frá sjónarmiði tóbaksvarna og við færum fyrir því nákvæmlega hin sömu rök og færð voru fram á fundi nefndarinnar af tóbaksvarnanefnd og flutt voru til okkar með skriflegum umsögnum landlæknisembættisins, læknaráðs Landspítalans og með samþykkt funda starfsmanna heilbr.- og trmrn. og landlæknisembættisins með héraðslæknum.

Lögin um tóbaksvarnir voru samþykkt á seinasta þingi. Sú löggjöf var ákaflega merk og mun áreiðanlega vera vel til þess fallin að draga úr tóbaksnotkun og kynna almenningi skaðsemi reykinga, eins og auðvitað var megintilgangur þessarar lagasetningar. Það er hins vegar mat okkar og mat fjölmargra þeirra sem fjallað hafa um þessi lagafrv., sem nú eru lögð fram af hálfu ríkisstj., að efni þeirra gangi þvert á stefnu og anda laganna um tóbaksvarnir.

Í athugasemdum tóbaksvarnanefndar er á það bent að tóbakstegundum muni hugsanlega fjölga við þá breytingu sem hér er gerð till. um, en nú eru um 50 tegundir hér á markaði og hefur verið unnið að því að reyna að fækka þeim í áföngum. Í öðru lagi telur nefndin að eftirlit með innflutningi verði erfitt, enda verður heimilt að tollafgreiða tóbak um land allt eftir þá breytingu sem hér er gerð tillaga um. Einnig verður vandasamt að kveða á um hámark skaðlegra efna í tóbaki. Til þess þyrfti þá sérstaka lagabreytingu. Í fjórða lagi verða engar hömlur á innflutningi nýrra tóbaksvara. Og í fimmta lagi er óljóst hvaða reglur eigi að gilda um tóbaksinnflutning ferðamanna og farmanna.

Í umsögn tóbaksvarnanefndar er einnig á það bent að þegar afnuminn er framleiðsluréttur ríkisins á tóbaki, einkaréttur ríkisins, skapist möguleikar á auknum tóbaksiðnaði innanlands sem geti haft varhugaverðar afleiðingar í för með sér. Enn er bent á að hér væri verið að lögleiða þá varhugaverðu verðlagningarstefnu sem gilt hefur í rúmt ár hér á landi og er talin einstök á Norðurlöndum, en þessi stefna hefur að sögn skert tekjur ríkissjóðs um 100 millj. kr. á hverju ári.

Vissulega er hætta á því að frjáls álagning af þessari vörutegund, bæði í heildsölu og smásölu, geti leitt til aukinnar samkeppni og hugsanlega lægra verðs, enda er ekkert sem bannar að boðnar séu fram tóbaksvörur með sérstökum afslætti eða tilboðsverði. Það er almennt sjónarmið nefndarinnar að lágt verð leiði til aukinnar sölu, ekki síst til unglinga, og freisti þeirra sem ekki eru byrjaðir að reykja.

Þar að auki mun verða lögbundinn minni munur á verði sígaretta og annars tóbaks en tíðkast hefur. Afnumin er verðjöfnun á tóbaki eftir landshlutum.

Með þessu nýja sölufyrirkomulagi er talin hætta á því, að dómi nefndarinnar, að auðveldara verði að sniðganga bann við tóbaksauglýsingum. Og nefndin vekur athygli á því að felldar eru úr gildi reglur frá 1965 um bann við stykkjasölu á sígarettum.

Niðurstaða nefndarinnar, eftir að fjöldamörg önnur atriði eru nefnd í umsögn hennar, er þessi:

„Svo margt mælir gegn þessum tveim frumvörpum um afnám einkasölu á tóbaki að fráleitt er að samþykkja þau óbreytt. Frumvörpin varða eitt stærsta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar og allar breytingar á fyrirkomulagi tóbakssölu þarf því að ígrunda rækilega. Það verður ekki gert á fáum vikum.“

Ég bendi líka sérstaklega á þá ályktun starfsmanna heilbr.- og trmrn. og landlæknisembættis með héraðslæknum, sem gerð var á fundi þeirra á Hvolsvelli dagana 19. og 20. apríl 1985. Þessi ályktun er ekki löng og er ómaksins vert að lesa hana, en hún er svohljóðandi:

„Undirritaðir starfsmenn heilbrigðisyfirvalda lýsa yfir andstöðu sinni við framkomin frumvörp um gjöld af tóbaksvörum og verslun ríkisins með áfengi sem gera ráð fyrir afnámi einkaréttar ríkisins á sölu tóbaks. Með samþykkt þeirra yrði brotið gegn markmiði og stefnumörkun tóbaksvarnalaga, nr. 74/1984 því að afnám einkasölu mundi torvelda framkvæmd þeirra mjög og draga úr áhrifum ríkisvaldsins á tóbaksneyslu í landinu, einkum hvað varðar verðstýringu, innflutning og eftirlit með auglýsingum.

Jafnframt bendum við á að ekkert samráð hefur verið haft við tóbaksvarnanefnd um málið svo sem skylt er skv. 5. gr. tóbaksvarnalaganna.

Við teljum að fyrirhugaðar lagabreytingar geti stuðlað að samkeppni milli innflytjenda og leitt til lækkunar tóbaksverðs sem mun auka á tóbaksneyslu og stefna í hættu þeim árangri sem náðst hefur í tóbaksvörnum eftir gildistöku laga um tóbaksvarnir um s. l. áramót.

Við vörum sérstaklega við að felld verði úr gildi 15. gr. tóbaksvarnalaganna um að 2% af brúttósölu tóbaks skuli renna til tóbaksvarna. Með gildistöku þeirrar greinar hefur loks fengist það fé til tóbaksvarnastarfsemi sem fyrirheit voru gefin um árið 1977, en voru að engu orðin fyrir gildistöku nýju tóbaksvarnalaganna. Þannig var fjárframlag Alþingis á s. l. ári aðeins sjöttungur þess sem það er nú.“

Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir það nokkuð mikil ósvífni af hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarþm. ef þeir ætla að keyra í gegn á tiltölulega skömmum tíma hér á Alþingi frumvörp sem hafa svo alvarlegar afleiðingar í för með sér að dómi allra þeirra sem best þekkja til, þ. e. bæði tóbaksvarnanefndar og allra helstu yfirmanna heilbrigðismála í landinu, að þeir sjá sérstaka ástæðu til að mótmæla þessum frumvörpum með þeim sterku orðum sem hér hafa verið lesin.

Vissulega ber að geta þess að hv. meiri h1. fjh.- og viðskn. hefur gengið til móts við þau sjónarmið sem hér koma fram varðandi tekjuöflun til tóbaksvarna með því að flytja sérstakt frv. þar sem gert er ráð fyrir að 0.5% af tekjum ríkissjóðs af tóbaksgjaldi renni til tóbaksvarnastarfs í staðinn fyrir þau 2% af brúttósölu tóbaks sem áður runnu til tóbaksvarna skv. núgildandi lögum. Ég geri ráð fyrir að þessar upphæðir séu nú sambærilegar og því sé ekki beinlíms hægt að kvarta yfir þessari hlið málsins.

En ég vek athygli á því að tóbaksvarnanefnd mælir mjög sterklega á móti samþykkt þessara frumvarpa og einnig fjölmennur fundur starfsmanna heilbrigðiskerfisins. Ég vil leyfa mér að upplýsa deildarmenn um hverjir stóðu að þessari samþykkt á Hvolsvelli, en þau voru með leyfi forseta: Skúli Johnsen borgarlæknir, Heimir Bjarnason aðstoðarborgarlæknir, Kristófer Þorleifsson héraðslæknir Vesturlandshéraðs, Pétur Pétursson héraðslæknir Vestfjarðahéraðs, Friðrik Friðriksson héraðslæknir Norðurlandshéraðs vestra, Ólafur Oddsson héraðslæknir Norðurlandshéraðs eystra, Stefán Þórarinsson héraðslæknir Austurlandshéraðs, Ísleifur Halldórsson héraðslæknir Suðurlandshéraðs, Jóhann Sigurðsson héraðslæknir Reykjaneshéraðs, Guðjón Magnússon settur landlæknir, Guðmundur Sigurðsson settur aðstoðarlandlæknir, Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri heilbr.- og trmrn., Jón 1ngimarsson skrifstofustjóri heilbr.- og trmrn., Ingibjörg Magnúsdóttir deildarstjóri í heilbr.- og trmrn., Hrafn Friðriksson yfirlæknir heilbr.- og trmrn. og Ingimar Sigurðsson deildarlögfræðingur í heilbr.- og trmrn.

Allur sá hópur sem telur sig bera þyngsta ábyrgð á heilbrigðismálum hér á landi mælir mjög sterklega á móti samþykki þessa frv. og samt ætla menn að gera það á skömmum tíma og án þess að málið hafi ýkja mikið verið rætt. Ég vek athygli á því að fjölmiðlar hafa alveg steinþagað um þetta mál og þrátt fyrir að vakin sé athygli á alvöru þessa máls virðist ekki nokkur leið að ná til eyrna fjölmiðla, hvorki í útvarpi, sjónvarpi eða blöðum, þrátt fyrir að svo áhrifamikill hópur mæli sterklega gegn lagabreytingum sem Alþingi er um það bil að gera.

Ég vil bæta því við að það er ekki aðeins sá hópur sem ég nú nefndi sem hefur látið málið til sín taka. Það má líka minna á samþykkt stjórnar læknaráðs Landspítalans, en hún gerði, með leyfi forseta, svohljóðandi samþykkt 6. maí 1985, þ. e. fyrir hálfum mánuði:

„Stjórn læknaráðs Landspítalans varar eindregið við þeim tillögum sem fram hafa komið á Alþingi í 1. frv. til l. um gjöld á tóbaksvörum, 2. frv. til l. um verslun ríkisins með áfengi og fela í sér afnám tóbakseinkasölu á Íslandi. Þessar tillögur eru söluhvetjandi og beinlínis andstæðar tilgangi tóbaksvarnalaganna, að draga úr tóbaksneyslu og heilsutjóni af völdum tóbaks.

Stjórn læknaráðs skorar á þm. að beita sér gegn þessum hugmyndum.“

Undir þetta bréf skrifar Magnús Karl Pétursson formaður læknaráðsins og auk hans Árni Björnsson varaformaður, Auðólfur Gunnarsson meðstjórnandi, Jón Sigurðsson meðstjórnandi, Jóhann Heiðar Jóhannsson ritari, Guðmundur Jónmundsson meðstjórnandi, Tómas Zöega meðstjórnandi. Í stjórn læknaráðsins er nákvæmlega sama uppi á teningnum og á fundi starfsmanna heilbrrn. og landlæknisembættis með héraðslæknum. Það er ekki ein einasta rödd í aðra átt. Það eru allir undantekningarlaust sammála um að hér sé hættulegt mál á ferðinni. Samt sem áður ætla menn að vaða áfram með frv. af þessu tagi þvert á allar ráðleggingar þeirra sem best eiga til að þekkja.

Ég vil enn leyfa mér að vitna í ályktun sem nefndinni barst nú fyrir skemmstu, en það var ályktun aðalfundar Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands. Hún er gerð 20. apríl 1985. Í bréfi stjórnar félagsins, sem undirritað er af Kolbrúnu Haraldsdóttur ritara, segir með leyfi forseta:

Stjórn Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands var falið að koma á framfæri við hv. alþm. eftirfarandi ályktun: „Aðalfundur Heilbrigðisfulltrúafélags Íslands, haldinn 20. apríl 1985, fagnar þeim verulega árangri sem náðst hefur í tóbaksvörnum að undanförnu. Fundurinn varar eindregið við hugmyndum um frjálsan innflutning, sölu og verðlagningu á tóbaki því að sömu lögmál um samkeppni og vöruverð gilda að sjálfsögðu ekki um tóbak eins og aðrar neysluvörur.

Full ástæða er til að minna á að tóbak er hættulegt ávanaefni og þarf að berjast gegn því sem slíku. Fundurinn lýsir yfir þeirri skoðun sinni að yrði framlagt stjfrv. um afnám einkasölu á tóbaki samþykkt sé í reynd gerður að engu tilgangur nýsamþykktra laga um tóbaksvarnir.“

Virðulegi forseti. Það er ekkert smáræði sem t. d. þessi fundur leyfir sér að fullyrða í ályktun sinni. Fundarmenn virðast allir hafa verið sammála um að það stjfrv. sem hér um ræðir geri í reynd að engu tilgang nýsamþykktra laga um tóbaksvarnir og varar mjög eindregið við samþykkt frv.

Það er skemmst frá að segja, eins og ég hef reyndar þegar rakið, að allir þeir aðilar sem fengu mál þessi til umsagnar mæltu mjög eindregið með því að þau yrðu ekki samþykkt. Meiri hl. n. finnst sjálfsagt að samþykkja það eftir sem áður.

Við sem skipum minni hl. n. teljum eðlilegast að málum þessum verði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar, eins og oft er gert þegar mál eru að dómi manna ekki nægilega grunduð, ekki nægilega vel undirbúin, en ég tek það skýrt fram, a. m. k. hvað mig snertir, að ég mun hiklaust greiða atkv., og við Alþb.-menn, gegn þessum frumvörpum verði tillaga okkar felld.

Ég vil ljúka máli mínu með því að skora mjög eindregið á hv. Ed. að ígrunda þetta mál betur en gert hefur verið fram að þessu, gera sér grein fyrir því að það mæla allir umsagnaraðilar á móti málinu. Allar stofnanir heilbrigðisstétta og heilbrigðisyfirvalda, sem um málið hafa fjallað, eru eindregið andvígar því. Er þá ekki augljóst mál að hv. Ed. hlýtur að taka málið til betri yfirvegunar og gjalda varhug við þeirri till. að málið hljóti samþykki?