22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5550 í B-deild Alþingistíðinda. (4789)

428. mál, gjöld af tóbaksvörum

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil fyrst fagna ræðu hv. 9. þm. Reykv. og þeim orðum sem hann mælti varðandi þetta frv. Hér hefur reyndar verið gerð góð grein fyrir hinum óyggjandi rökum gegn þessu frv. af hv. 3. þm. Norðurl. v., frsm. minni hl. n., og litlu við það að bæta, enda heyrir maður það ævinlega þegar hugur hv. frsm. meiri hl., hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, 4. þm. Norðurl. v., er greinilega ekki með máli. Það heyrist ævinlega á hans framsögu. Mér þótti ekki mikill sannfæringarkraftur í henni sannast sagna þó að hann hefði greinilega beitt sér fyrir því að verstu agnúarnir væru þarna af sniðnir með því að flytja frv. til breyt. á lögum um tóbaksvarnir.

Ég reiknaði satt að segja ekki með því að hæstv. fjmrh. væri alvara með því að koma þessu máli í gegn, þó að hann vildi sýna það og kanna hver hugur manna væri til þess, og enn síður að honum tækist að ganga þannig frá málum að velflestir, a. m. k. stjórnarsinnar, væru handjárnaðir í þessu máli eins og manni sýnist nú. Ég segi það kannske — þrátt fyrir að þetta sé alvörumál — frekar í gamni en alvöru að ég hélt að hæstv. fjmrh. hefði e. t. v. samið þetta frv. í skelfingu sinni í sumar þegar vakin var athygli hans á því að nikótín væri eitur og hann varð þar mjög undrandi og lýsti því yfir að ef tilfellið væri að í þessu væri eitur vildi hann ekki vera yfirsölustjóri þess eða eitthvað í þá áttina og ekki standa að slíku og vildi skilja öðrum það eftir. Þessi undrun hæstv. ráðh. minnti á hina sakleysislegu undrun hæstv. forsrh, sem hann er víðkunnur fyrir um öll lönd.

Ég hélt hins vegar ekki að þetta væri alvara, en það er greinilega alvara og ég harma að jafnágætur maður og hæstv. fjmrh. skuli leggja fram frv. af þessu tagi sem fær þau mótmæli og þau mótrök sem hér voru tíunduð áðan af hv. 3. þm. Norðurl. v.

Ég harma það ef niðurstaðan hér verður að einhver bisnesslögmál, sem greinilega eru þarna á ferðinni, eru svo í algleymi að það er ekki einu sinni hlustað á þá sem helst og best vita um þessi mál. Það er kannske í samræmi við ýmislegt annað hér, ég er ekki að segja það, en mikið er það dapurlegt ef svo er komið þessari löggjafarsamkundu að rök hins kalda og harða bisness eru orðin allsráðandi með meiri hluta þm. og menn hlusta ekki á aðvaranir þeirra sem gleggst eiga til að þekkja. Ég segi það því, án þess að vera að lengja umr. hér, að menn taka mikla ábyrgð á sig með samþykkt þessa frv. í ljósi þeirra aðvarana sem menn hafa þegar fengið, og áreiðanlega er ekkert of í lagt þar. Ég hlýt t. d. að beina máli mínu til hæstv. dómsmrh., hvort honum þyki það góð latína sem hér er framreidd, eða hv. 3. þm. Suðurl., formanns í reykingavarnanefnd, hvort hann ætlar einnig að standa hér að, hvort þeir muni verða í þeim hallelújakór sem hreinlega virðist ætla að loka öllum skilningarvitum fyrir skynsamlegum rökum í þessu máli og þeirri þekkingu og þeim rökum sem tilreidd eru í fskj. minni hl. frá ekki ómerkari aðilum en þar eru tilgreindir.

Ég spyr því að lokum: Fyrir hverja er þetta gert? Hvaða þrýstihópur er það sem hefur knúið á hæstv. fjmrh. að koma þessu í gegn? Þau rök að ríkið eigi ekki að hafa yfirstjórn sölunnar á hendi, heldur eigi aðrir að gera það, eru vitanlega engin rök. Maður hlýtur að ígrunda hvort hagsmunir umboðsmanna séu hér æðri öllu. Eru það virkilega þeir sem hér er verið að taka tillit til? Ef þetta er gert fyrir neytendur — við vitum að hæstv. fjmrh. hefur mikinn áhuga á að gera ýmislegt fyrir neytendur þessa lands — væri fróðlegt að heyra rökin fyrir því á hvaða forsendum neytendur eiga að njóta hér góðs af, sérstaklega hollusturökin sem fyrir þessu eru. Hvaða hagsmuni er hér verið að koma til móts við? Einhverjir hagsmunir eru það sem reka hér á eftir og knýja á að þessi mál eru komin inn í þennan undarlega farveg sem ég vona reyndar að hv. Ed. beri gæfu til að hafna í ljósi þeirra óyggjandi raka sem hér hafa verið tíunduð gegn frv.