22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5553 í B-deild Alþingistíðinda. (4791)

428. mál, gjöld af tóbaksvörum

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem snertir fyrst og fremst heilbrigðisvandamál sem við búum við í þessu landi. Hér er um að ræða mál sem er ákaflega fjölþætt og ástæða til að skoða ítarlega. Ef það er æskilegt að breyta núverandi löggjöf um einkasölu, sem kemur vel til greina, þarf að skoða alla þætti málsins og hnýta það upp þannig að ekki hljótist slys af. Þegar ég segi að við séum að fjalla um mál sem er heilbrigðisvandamál má nefna að skv. upplýsingum landlæknis verða um það bil 300 dauðsföll á ári af völdum tóbaksreykinga. Það er á bilinu 270–330 þar sem um er að ræða bein dauðsföll. Það er um að ræða 150 utanlandsferðir á ári í æðaaðgerðir sem beinlínis eru taldar eiga rætur að rekja til reykinga. Þessi ferðafjöldi hefur aukist mjög á stuttum tíma. Fyrir tveimur árum voru farnar 50 ferðir.

Það er aukin skattheimta í landinu vegna tóbaksnotkunar og kannske þegar allt kemur til alls álitamál hvort um er að ræða tekjur eða tap í sambandi við tóbakið. Það má nefna að allur sá rumafjöldi sem bundinn er tóbakssjúklingum eða veiki af völdum tóbaks í heilbrigðiskerfinu er feikilega kostnaðarsamur þáttur í heilbrigðiskerfinu í heild. Það má áætla að um 200 rúm séu bundin á ári í heilbrigðiskerfinu. Það eru heldur fleiri rúm en eru á Borgarspítalanum einum og þar eru 1120 stöðugildi svo að þarna er fljótt að safnast í háar upphæðir þegar málið er skoðað ofan í kjölinn — það má einnig taka Vífilsstaði inn í þessa mynd. Þar að auki fylgja alls kyns smærri sjúkdómar tóbaksnotkun, magabólgur, mæði, fótkuldi, lélegt úthald og getuleysi. (Gripið fram í: Getuleysi til hvers?) Til svo margra hluta. Hér er því um að ræða mál sem er flókið og margþætt, eins og ég gat um áður.

Ég held að það sem fyrst og fremst vakir fyrir þeim sem mótmæla því að svo hratt sé unnið við þetta mál sem raun ber vitni sé ótti þeirra við verðlagningarstefnuna sem felst í frv. Það segir t. d. í bréfi frá stjórn læknaráðs Landspítalans, með leyfi forseta, þar sem eindregið er varað við þeim tillögum sem fram hafa komið á Alþingi um þetta mál, að þessar tillögur séu söluhvetjandi og beinlínis andstæðar þeim tilgangi tóbaksvarnalaganna að draga úr tóbaksneyslu og heilsutjóni af völdum tóbaks. Nú er það svo að þetta frv. bindur verðlagninguna á sígarettum miðað við innkaupsverð sem þar af leiðandi leiðir til sölu á léttari sígarettutegundum, hvort sem þær eru skaðlegar eða ekki. Verðlagningin hefur verið í höndum ráðh., en frv. tekur mið af innkaupsverðinu. Það er að vísu svigrúm til þess að leggja á vörugjald frá 30–60% , en samt sem áður yrðu ódýrustu sígarettur á markaðinum í dag á 65 kr. pakkinn þegar aðrar færu upp í 100. Það hefur sýnt sig alls staðar að ódýrara tóbak leiðir til aukinnar notkunar á því.

Nú eru Íslendingar eina þjóðin, a. m. k. á Norðurlöndum, sem er með sveigjanlegt verð á tóbaki. Í Finnlandi er pakkinn seldur á 60–63 kr., í Svíþjóð á 68 kr., í Danmörku á 88–90 kr., í Noregi á 101 kr., en á Íslandi er verðið 53–78 kr., meðalverð 66 kr. Nú er talað hér um tóbaksvarnalög sem eru nýsamin og nýafgreidd frá Alþingi en hafa þó strax skilað árangri. Það má benda á að tóbakssala á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hefur minnkað um tæp 6%. Þar er minnstur samdráttur í sígarettusölu, 4%, þrátt fyrir hlutfallslega hátt verð, því að frönsku sígaretturnar sem komu inn á markaðinn í fyrra hafa dregið til sín viðskiptavini og tekið viðskipti af öðrum tóbaksinnflytjendum. Þar er minnkunin 4%. Í vindlum er minnkunin 5.3%, í reyktóbaki 23.5% og í neftóbaki er minnkunin um 10.3%. Ef við lítum á notkun tóbaks sem heilbrigðisvandamál, sem ég tel að eigi fyrst og fremst að gera, þá er það borðliggjandi að það hlýtur að þurfa að vanda vel til ef það á ekki að stíga skref aftur á bak í þessu efni.

Í sambandi við framkvæmd tóbaksvarnalaganna, í sambandi við merkingar og viðvaranir á umbúðum og framkvæmd laganna, þá hafa íslenskum heilbrigðisyfirvöldum borist bréf víða að utan úr hinum stóra heimi þar sem talsmenn í heilbrigðismálum segja það ákveðið að Íslendingar hafi framkvæmt það í þessum efnum sem aðrar þjóðir vildu hafa gert og Íslendingar séu þannig brautryðjendur í baráttu við mikið heilbrigðisvandamál. Það ber því allt að sama brunni: það er ástæða til að fara mjög varlega.

Það er sagt að á Íslandi sé tóbakseinkasala, en tóbakseinkasalan er í rauninni ekki í gildi á Íslandi. Í rauninni hafa, um skeið a. m. k. verið framin lögbrot í sambandi við tóbakseinkasöluna vegna þess að það mun hafa tíðkast hjá einhverjum tóbaksinnflytjendum að kaupa tóbak hjá Áfengis- og tóbaksversluninni og selja það síðan öðrum aðilum úti í þjóðfélaginu með ýmiss konar lánafyrirkomulagi. Skv. núgildandi lögum er þetta brot á einkasölunni. Þarna er farið í kringum lögin og er ástæða til að vekja athygli á því í þessari umræðu.

Nú eru um það bil 40 tegundir af tóbaki á markaði á Íslandi, en talið er að með breytingu á lögunum muni þær tegundir fara yfir 100. Að vísu er gert ráð fyrir að síðar síist eitthvað út, þeim fækki, en þarna er talið að framboð muni aukast mjög verulega. Samkeppnin eykst verulega. Það er hætta á því að það skapist svigrum fyrir þá sem eru í tóbakssölu til að auka tóbaksnotkunina með margs konar starfsemi fremur en hitt og umfram það sem lög frá Alþingi s. l. ár hafa gert ráð fyrir og hefur verið unnið markvisst að. Ég held t. d. að það ætti að standa í slíkum lagabálki sem hér um ræðir að það væri háð leyfi heilbrigðisyfirvalda hvort ætti að fjölga tegundum og þó sérstaklega ákvæði um innihald tjöru og nikótíns í tóbaki, þar væri hámark á. Þannig væri hægt að hafa nokkra stjórn á því að ekki færu á markaðinn ódýrar tegundir sem væru hættulegastar heilsu manna. Þetta ákvæði er ekki í lögunum, en ég vona að sú nefnd sem fjallar um málið skoði það fyrir 3. umr. og e. t. v. er þá ástæða til að koma með brtt. í málinu af það hnýtist ekki upp eins og eðlilegt er.

Það má segja að þessi þrjú atriði, verðlagningarstefnan sem er bundin með frv., fjöldi tegunda sem mun aukast og engar hömlur á innihaldi tóbaksins, séu mestu vankantarnir á frv. og því hefði verið ástæða til að skoða það betur þótt frv. komi alveg til greina í heild. En það eru vankantar á því sem ég tel að þurfi að skoða og rétta af svo að þarna fari ekki úr böndum það sem menn hafa verið að vinna að í langan tíma og borið hefur árangur, sýnilegan árangur, með framkvæmd laga frá Alþingi.

Það má skjóta því hér að, þegar talað er um tekjur af tóbaki, að hlutur ríkisins í verði eins sígarettupakka er, þegar við tölum um t. d. bandarískar sígarettur sem kosta 76,10 kr. í smásölu, 50,20 kr. af 76,10. Þegar við tölum um franskar sígarettur, sem kosta 53,30 í smásöluverði, þá er hlutur ríkisins 39,60. Þess vegna ætti það ekki að vera andstætt hagsmunum ríkisvaldsins, um leið og unnið er að framgangi heilbrigðismála, að hafa hátt sígarettuverð. Þar er um að ræða hærri tekjur. Þar er um að ræða minni freistingar fyrir fólk þessa lands til þess að ánetjast tóbaki. Það ætti þannig að hjálpa til í þessu stóra heilbrigðisvandamáli sem notkun tóbaks er miðað við allar þær upplýsingar sem liggja nú fyrir, upplýsingar sem voru kannske ekki á takteinum fyrir 15–20 árum, en eru staðreynd í dag og munu vonandi verða þess valdandi að ungt fólk byrjar síður að nota þennan vímugjafa.