22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5561 í B-deild Alþingistíðinda. (4795)

428. mál, gjöld af tóbaksvörum

Árni Johnsen:

Hæstv. forseti. Ég ætla nú að byrja á því að létta af áhyggjum hæstv. fjmrh. um mína skoðun á einkasölu. Ég tel að ekkert mæli á móti afnámi einkasölu og í rauninni sé það æskilegt. En ég tel að það þurfi að gera það þannig að sæmilega megi við una. Og ég held að það sé hægt að breyta þessu frv. þannig að það sé viðunandi. En það er ekki víst að það sé hægt á svo stuttum tíma sem til stefnu er og þess vegna hefur verið rætt um að æskilegt væri að fá lengri frest í málinu.

Ég mun koma að því aðeins síðar í mínu máli.

Fyrst vil ég aðeins víkja að því sem hæstv. fjmrh. sagði, að verið væri með aðdróttanir um að það væri verið að brjóta lög um tóbaksvarnir. Það er ekki mín skoðun að verið sé að brjóta þau. En þessi löggjöf skarast við það verkefni sem tóbaksvarnalögin kveða á um og tóbaksvarnanefnd hefur unnið að.

Að hér sé eingöngu um að ræða frv. um breytt sölufyrirkomulag, það er önnur hlið málsins. Þó að frv. fjalli um það, þá er þarna um að ræða þætti sem eru svo samtvinnaðir að það verður að horfa til beggja átta í þeim efnum. Það er staðreynd skv. þeim tölum sem birst hafa frá opinberum aðilum á Íslandi að sjötta hvert dauðsfall á landinu fyrir aldur fram er af völdum tóbaksreykinga, það er staðreynd. Og það er hátt hlutfall.

Það var vikið að hinum ódýrari sígarettum. Frönsku sígaretturnar, sem hér hefur verið talað um, voru með 12% af markaðnum í desember s. l. En í mars og apríl voru þessar sígarettur komnar með 45% af markaðnum. Mesta salan á þessum ódýrari tegundum er í nágrenni skólanna, í sjoppum í nágrenni skólanna. Þar hefur orðið veruleg aukning á sölu tóbaks. Þess vegna hafa þeir menn sem hafa verið valdir til þess að vinna að tóbaksvörnum áhyggjur af því að þegar leyft er lægra verð ýti það undir það að fleiri unglingar byrji að reykja. Og allir eru sammála um að æskilegast sé að unglingar byrji aldrei að reykja. Allir eru sammála um það. Enginn mælir hinu bót.

Nú er að koma á markaðinn ný sígarettutegund frá Sviss og hún verður ódýrari en frönsku sígaretturnar. Það má því reikna með að innan ekki langs tíma hafi þessar tvær tegundir lagt undir sig um 90% af markaðnum. Og ef það er staðreynd, eins og allt bendir til og allar staðreyndir leiða í ljós, að lágt verð á sígarettum leiði til aukinna reykinga þá erum við þarna á rangri leið. (Gripið fram í: Það breytist.) Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur kallað reykingar farsótt. Það er dálítið stórt orð. Annars vegar ræðum við um frelsi í viðskiptum en á hinn bóginn erum við líka sammála um það, ugglaust bæði við hæstv. fjmrh. og aðrir þm., að eiturefni eigi ekki að vera háð sömu skilyrðum í innflutningi og almennar vörutegundir, enda höfum við sérstaka löggjöf um innflutning eiturefna. Og einmitt á þeim nótum verðum við að mínu mati að taka tillit til þess hvaða vöru við erum að flytja inn í landið með hættulegum efnum í. Þar er tóbak innifalið þó að það flokkist ekki undir hina hefðbundnu eiturefnaupptalningu.

Það er kannske fyrst og fremst verðlagningarþátturinn, að verðið verði ekki of lágt, sem má beita til þess að reyna að fyrirbyggja að krakkarnir og unglingarnir byrji að reykja. Það eru tvö vopn tiltæk gegn notkun tóbaks. Í fyrsta lagi fræðsla, í öðru lagi verðlagning. Og þetta er samtvinnað. Það eru þrjú atriði ég gat um þau áðan og ég ætla aðeins að endurtaka það, það eru þrjú atriði sem ég tel að þurfi að hnýta betur upp í þessu frv. til þess að hægt sé að tala um það í fullri alvöru:

Í fyrsta lagi, hæstv. fjmrh., að ekki verði 60 % þak á vörugjaldinu. Í öðru lagi að tóbaksgjaldið geti verið háð ákvörðun ráðherra án þess að hann sé rígbundinn vísitölunni. Og í þriðja lagi að innflutningur tóbaks sé háður leyfi heilbrrh. eins og innflutningur á öllum eiturefnum, að sótt sé um leyfi fyrir hverri tegund af tóbaki. Og þá gæti það t. d. verið viðmiðun hvert magn skaðlegra efna er í tóbakinu. Talað hefur verið um að æskilegt væri a. m. k. í byrjun að miða við 15 mg tjöru og 1 mg af nikótín sem hámark. Svo að ég nefni eina tegund er Winston með 17–18 mg af tjöru og fjölmargar ódýrari tegundir hafa mikið tjöruinnhald. Þarna gæti því verið viðmiðun. En þessi þrjú atriði tel ég grundvallaratriði til þess að hægt sé að hleypa þessari breytingu í gegn, vegna þess að við eigum að líta öðrum augum viðskiptahætti í innflutningi og sölu eiturefna heldur en annarra vörutegunda sem við notum í okkar landi.