22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5563 í B-deild Alþingistíðinda. (4797)

505. mál, sjóðir atvinnuveganna

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umr., en alténd hefur mér þó gefist tími til að lesa þetta frv. S. l. mánudag hélt ég uppi harðorðri gagnrýni á málsmeðferð, en fór ekki í efnisumræðu. Eftir lestur þessa frv. er ég hins vegar alveg jafnnær um tilganginn með þessu frv., nema þá að sýna þurfi frv. til að uppfylla atriði úr sáttmálaleik þeirra hæstv. forsrh. og hv. þm. Þorsteins Pálssonar frá sumrinu 1984. Ég hlýt a. m. k. að setja mörg spurningarmerki við raunhæfan og virkan árangur af þessu frv. fyrir þá atvinnuvegi sem þessi væntanlegu lög eiga að þjóna í framtíðinni. Ég held að viðhorfið til atvinnugreinanna, frekari uppbyggingar þeirra og möguleika, skipti hér öllu, hvort menn vilja og ætla að trúa og treysta á efnahagslegan grunn þjóðarbúsins byggðan á þessum þrem einingum að meginhluta. Fátt hefur þar verið um fína drætti í tíð hæstv. ríkisstj. sem nú situr, en máske eiga þeir eftir að hressast áður en lýkur. En það verður vandséð af þessu frv. Ég kem a. m. k. ekki auga á þá viðhorfsbreytingu gagnvart þessum grunngreinum sem vænta hefði mátt í þeim frv. sem hér er verið að leggja fram þessa dagana og eiga að skipta sköpum um þessi mál.

Ég sé að eitt meginatriðið snertir kannske alla þessa sjóði. — Ég mun að sjálfsögðu sérstaklega fjalla um þann sjóð sem ég er kunnugastur, þ. e. Búnaðarsjóð og Stofnlánadeild landbúnaðarins í tengslum við það. Ég sé að sú stefnumörkun hæstv. ríkisstj. að draga úr framlögum og öllum kvöðum ríkisins gagnvart atvinnugreinunum er vandlega innsigluð í þessu frv. því þar er ríkið einmitt losað undan öllum kvöðum gagnvart uppbyggingu og þróun atvinnugreinanna. Alfarið skulu þær sjá um það sjálfar. Það er sjónarmið út af fyrir sig, en ég held að tvímælis geti það orkað, alveg sér í lagi þegar á breytingar er kallað, krefjandi breytingar eins og er um landbúnaðinn og sjávarútveginn að nokkru einnig.

Í sambandi við þetta er ekki hægt að komast hjá því að minna á að oft hefur verið rætt um það hér á Alþingi að ekki hafi verið staðið við lögboðin framlög til atvinnugreina og höfð um það stór orð og ekki skal ég draga úr gagnrýni á að við lög skuli ekki staðið sem skyldi. Varðandi landbúnaðinn og framlög til Stofnlánadeildar hefur þetta komið fram m. a. og alveg sér í lagi hjá talsmönnum stjórnarandstöðu Sjálfstfl. á tíma síðustu ríkisstjórnar. Upprifjun þeirra orða gæti verið býsna skemmtileg. Ég bendi á að undanfarin ár hefur vantað upp á mótframlag ríkisins, jafnháu framleiðenda- og neytendagjaldi, sem hér segir: Árið 1979 vantaði að vísu 812 þús. þar upp á, árið 1980 vantaði 4.7 millj., árið 1981 9.1, árið 1982 13.3. Öll þessi ár gagnrýndi stjórnarandstaða Sjálfstf1. á þessum tíma hvað harðast hvað illa væri farið með Stofnlánadeild landbúnaðarins hvað snertir mótframlagið á móti framleiðenda- og neytendagjaldinu. En 1983 vantar 40 millj. upp á og 1984 vantar tæpar 51 millj. upp á.

Ég bendi á það í tengslum við þetta líka að í ár er engin króna á fjárlögum til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, ekkert framlag utan það sem fer til Lífeyrissjóðs bænda. Ég ætla ekki að fara frekar út í það nú, enda er sá aðili sem harðast gagnrýndi þetta á sínum tíma, hv. 11. landsk. þm., ekki viðstaddur þessa umr. (Gripið fram í: Hann er rétt ókominn.) Hann er ævinlega rétt ókominn þegar við hann á að tala. Já, ég þekki það.

Nú ætla ég ekki að fara að taka Stofnlánadeild landbúnaðarins í forsvar eða gerðir okkar stjórnarmanna þar. Síður en svo eru þær ákvarðanir og samþykktir, sem þar hafa verið gerðar, yfir gagnrýni hafnar. En ég lít samt í eigin barm og spyr: Hvaða hagkvæmni liggur að baki Búnaðarsjóði umfram það að sameina hjá Stofnlánadeild, eins og hún er nú, aðra þá sjóði sem ætlað er að hverfi inn í Búnaðarsjóð? Ég spyr: Er Stofnlánadeildin máske svo illa rekin, er rekstrarstaða hennar svo veik, lausafjárstaðan svo afleit, að sérstakar ráðstafanir þurfi að gera þess vegna? Ég bendi á nýlegar blaðafregnir um stöðu Iðnlánasjóðs á síðasta ári sem tekinn hefur verið mjög til fyrirmyndar og talinn hefur verið mjög til fyrirmyndar. Hvernig hefur sá sjóður verið rekinn? Ég man ekki betur en að þar hafi verið á rekstrarreikningi nokkurra tuga milljóna króna tap. Það þætti slæm útkoma hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins sem sýndi jákvæða rekstrarútkomu upp á um 61 millj. á s. l. ári. Varla er sú ástæða fyrir þessari uppstokkun að verið sé að rétta þennan sjóð af með þessum hætti.

Eins og hv. 11. landsk. þm. — sem gengur nú rösklega til verks í hv. Ed. eins og venjulega og formyrkvar sitt svið — kom glögglega inn á s. l. mánudag er ástæðan ekki heldur sú að verið sé að breyta megintekjustofnum til þessa lánasjóðs. Hann minnti einmitt á það og þá sérstaklega varðandi Stofnlánadeildargjaldið sjálft. Ég tek undir það sem hann sagði þar, en hann orðaði það einhvern veginn á þann veg að þessi mál sneru á haus fyrir sér. (EgJ: Þetta er rétt eftir haft.) Já. Ég er ekkert hissa á þessum orðum. Ekki er nú að furða þó að okkur stjórnarandstæðingum, sem vorum rétt að sjá þetta frv., hafi blöskrað málsmeðferðin þegar svo gjörkunnugur maður þessum málaflokki sem hv. 11. landsk. þm. fór að kynna sér einn meginþátt þeirra og það sneri allt á haus. Það er sem sagt hvorki verið að auka né draga úr þeim tekjustofnum, sem helstir eru í dag sem undirstaða Stofnlánadeildar, varðandi þennan nýja Búnaðarsjóð. Eina breytingin sem mér sýnist þarna á er að hlutur ríkisins er þurrkaður út með öllu. Það er eina breytingin, enda tekið fram í aths. með frv. Þarna er því ekki ástæðuna að finna, að verið sé að breyta um tekjustofna þessa nýja sjóðs.

Ég spyr sjálfan mig líka að því hvort til bóta sé að rjúfa tengslin milli fjárfestingarsjóðs landbúnaðarins og Búnaðarbankans, hvort það sé skynsamlegt. Um þetta geta vitanlega verið skiptar skoðanir. Ég bendi á að reynslan hefur sýnt ýmislegt annað. Og ég bendi á, og það er ekki þakkarvert, að Búnaðarbankinn hefur vissulega ærið oft fleytt Stofnlánadeildinni, m. a. á erfiðu árunum eftir 1977, yfir áramót með lánveitingar sem hefur mjög komið bændum til góða þegar þröngt hefur verið í búi hjá Stofnlánadeild og erfitt um lánveitingar fyrir áramótin.

Það væri kannske rétt, þegar við erum að ræða um nýjan Búnaðarsjóð ótengdan Búnaðarbankanum, að rifja upp sögu landbúnaðarsjóðanna annars vegar og Búnaðarbankans hins vegar, en ég bendi aðeins á þá sögulegu staðreynd að Búnaðarbankinn varð til vegna sjóða landbúnaðarins. Þeir eiga sögu, eins og menn þekkja, allt frá síðustu öld, en Búnaðarbankinn varð í raun til vegna sameiningar þessara sjóða og það var 1930 eða nær hálfri öld eftir að þessir sjóðir voru orðnir virkir. Við getum alveg sett dæmið upp þannig, að sjóðir landbúnaðarins urðu því stofn þess banka sem nú er annar stærsti bankinn hér á landi. Og ég fullyrði að bankinn hafi í tímans rás verið viss bakhjarl, viss stoð, fyrir fjárfestingarlánasjóðinn, — um þetta má eflaust deila og menn hafa þarna skiptar skoðanir, en ég hef komið það mikið nálægt þessum málum á undanförnum árum að ég hygg að það sé alveg óhætt að fullyrða það, — hafi m. a. verið stoð í útibúakerfi bankans og einnig má nefna þá stoð sem Stofnlánadeildin hefur haft vissulega í því að Stofnlánadeildin og Búnaðarbankinn hafa verið í það nánum tengslum hvort við annað að unnt hefur verið að leysa mál um áramót, sem annars hefðu trúlega verið óleysanleg með öllu sem snerta lánveitingar til bænda í landinu.

Ég er ekki hluttaus í þessu máli, en mig grunar þó að sú breyting að rjúfa þessi tengsl verði ekki til bóta. Ég kem stuttlega að því á eftir einnig að hér er ekki algjörlega þannig málum háttað. Og ég skal víkja stuttlega að þeim greinum frv. sem fjalla um stefnumörkun í lánveitingum. Mér sýnist að þar sé margt óljóst, en þó vona ég að peningasjónarmiðið sé ekki svo allsráðandi í raun sem mér sýnist að gæti orðið með þrengstu túlkun í þessum efnum. Að sjálfsögðu á hagkvæmni í lánveitingum ævinlega að vera með í för, en ég vona að meiningin sé ekki sú að lánveitingar ráðist af því einu hvort viðkomandi hafi næg efni og nægt fjármagn að baki sér í byrjun og nægilega góða aðstöðu og þeir einir eigi að sitja að lánum, sbr. bankaábyrgðirnar sem ég skal víkja að síðar. En ég tel, miðað við hvernig bankarnir almennt taka á þessum málum, ástæðu til að benda á þær aths. sem eru um 7. gr. Þar stendur, með leyfi virðulegs forseta: „Sjóðsstjórn metur það sjálf hvaða lánveitingar séu til þess fallnar að efla framleiðslu og framleiðni og styðja umbætur.“

Þetta eru út af fyrir sig mjög falleg orð, en það gæti vissulega þýtt, sem ég varaði við áðan, þrengstu hagkvæmnisjónarmið. Ég er t. d. hræddur um að ef ýtrustu hagkvæmnikröfur í þrengstu merkingu hefðu verið gerðar til bænda hefðu lánveitingar úr Stofnlándeild verið enn takmarkaðri á undangenginni tíð en þær hafa þó verið vegna þess að lánsfjármagn hefur oft og tíðum skort. Ég set a. m. k. spurningarmerki við þetta þó að ég mæli með eðlilegri hagkvæmni í hvívetna og það sé vitanlega hollt fyrir landbúnaðinn eins og aðrar atvinnugreinar að fullrar hagkvæmni sé gætt.

En enn stærra spurningarmerki set ég þó við það að þau lán sem bændur fá úr Búnaðarsjóði verði ævinlega eða geti orðið samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins á þann veg að þar verði fyrst að fá ábyrgð banka, skilyrði láns geti jafnvel orðið slíkt.

Svo segir í 8. gr. frv.:

„Sjóðsstjórn getur sett það sem skilyrði að lánað sé gegn sjálfskuldarábyrgð viðskiptabanka eða annarra lánastofnana.“

Þetta er út af fyrir sig saklaust skilyrði eins og það lítur út. Það gæti hins vegar orðið þannig að skilyrði láns yrði það að bankaábyrgð fengist fyrst, öfugt við það sem nú er, þegar menn komast inn í lánveitingar á eðlilegan hátt í skynsamlegri röð sem bændur eiga að eiga kost á nú, en ef ýtrustu skilyrði verða sett og allt bendir til að þau verði sett, það sé ég líka í aths., þá verði bændur að berjast fyrst við sinn viðskiptabanka og ef viðkomandi banki segir nei við þessa aðila yrði svarið að sjálfsögðu nei hjá sjóðnum einnig.

Viðskiptabankarnir eiga þarna að mínu viti, eða hafa möguleika á því ef stjórn sjóðsins ákveður svo, að ráða of miklu um þetta og ég óttast það og hef af því reynslu að erfiður verði róðurinn hjá æðimörgum bóndanum sem ekki hefur nægt fjármagn í upphafi, en það er engan veginn sá mælikvarði sem er einhlítur um hæfni bónda til að koma með dugnaði, hagsýni og elju upp blómlegu búi og reka það vel. Það veit ég að allir eru sammála um sem þekkja til íslenskrar bændastéttar, og það gera allir meira og minna hér inni, að fjármagnið í upphafi segir ekki til um hæfni bóndans til að reka bú sitt, en það er kannske einmitt það sem bankinn mundi fyrst og fremst líta á. Það skýtur því nokkuð skökku við og er viss þversögn í megintilgangi frv. að rjúfa tengsl sjóða og banka, eins og þar er farið inn á, en gefa svo möguleika á njörvun við bankaábyrgðir, að viðskiptabankar viðkomandi aðila ráði og stýri að miklu leyti hverjir fái lán og hverjir ekki út úr Búnaðarsjóði, en þannig er fullur möguleiki á að framkvæmdin verði. Ég vara við þeirri framkvæmd og geri það að fenginni reynslu gagnvart lánveitingum úr Stofnlánadeild landbúnaðarins.

Við þessa umr. skal ég ekki koma inn á fleiri atriði þó ég gæti vissulega rætt um breytta skipan stjórnar frá því sem nú er. Einhver gæti nú sagt að þarna væri gamla helmingaskiptareglan þeirra framsóknarmanna og sjálfstæðismanna komin endurnýjuð þó það hljómi út af fyrir sig fallega að Stéttarsambandið og Búnaðarfélagið tilnefni tvo menn hvort í stjórnina. En þetta kann að vera röng og illkvittnisleg hugsun hjá mér, sem er með öllu tilhæfulaus, því að ekki gruna menn þá um græsku sem setja þetta upp, að þeir hugsi sér gott til glóðarinnar í sambandi við skiptingu á stjórn þessa sjóðs og nokkra tryggingu þess að stjórnarandstaðan komi ekki nálægt því að skipta því fjármagni sem þar er til umráða. Við því er að sjálfsögðu ágætt ráð, sem ég veit að bændur munu taka í sínar hendur, og það er að virkja Stéttarsambandið á annan veg en þann að það sé eins konar tvíbýli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna og það finn ég á bændum núna, m. a. í þeim nýju hreyfingum sem þar eru upp að koma, að það er ekki meiningin að sú tvíbýlisaðstaða, sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa komið sér upp í Búnaðarfélaginu og Stéttarsambandinu, verði þar allsráðandi.

Í lokin vil ég geta þess varðandi það að hér er Búnaðarsjóðurinn fyrst og fremst að taka við hlutverki Stofnlánadeildar landbúnaðarins að árið 1977 blasti við alvarlegt ástand hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins. Það stefndi raunar þá í gjaldþrot. Ég veit að engum er þetta kunnara í raun en hæstv. núv. forsrh. Þá var einmitt sett á laggirnar stjórnskipuð nefnd sem vann að tillögugerð um endurskipulagningu deildarinnar til að forða henni frá hruni og forða henni frá því að hún yrði alls ófær um að aðstoða bændastéttina í landinu. Mér er sú tillögugerð í fersku minni, alveg sérstaklega kannske vegna þess að þá var uppi mikill efi hjá mörgum um að þessi tillögugerð skilaði árangri og gæti bjargað Stofnlánadeildinni. Ég tel rétt að það komi fram hér nú að sá efi hefur reynst ástæðulaus. Allt hefur gengið eftir sem betur fer og aðeins á skort, eins og ég gat um áðan, framlög ríkissjóðs. En þrátt fyrir að þar hafi orðið vanefndir á er hagur deildarinnar nú allur annar og betri og vissulega ber að fagna því. Hitt er svo annað mál, eins og ég kom inn á áðan, að ekki hefur nægilegt lánsfjármagn ævinlega verið fyrir hendi til bæði nýrra greina og endurnýjunar í hefðbundnum greinum. Ég sagði bæði nýrra greina og endurnýjunar því að ég held að menn megi ekki einblína þannig á landbúnaðinn að það sé hægt að einskorða lánveitingar úr t. d. væntanlegum Búnaðarsjóði við nýjar búgreinar eingöngu, en láta hefðbundnu búgreinarnar drabbast niður án þess að fá eðlilega endurnýjun. Því mega menn ekki gleyma.

Vegna þess að ég hef eingöngu fjallað hér um landbúnaðinn, þá vil ég aðeins geta þess út af gagnrýni á málsmeðferð um daginn að að sjálfsögðu taldi ég mér skylt að lesa allt frv., þetta segi ég til þess að hæstv. forsrh. haldi ekki að ég hafi svikist um það í tilefni af þeim orðum sem ég hafði hér um daginn. En við nánari lestur þessa frv. verð ég æ meira efins um bæði þennan þátt þess og þátt þessara sjóða í heild sinni og get því endurtekið, því miður, það sem ég sagði hér s. l. mánudag, að það skyldi nú ekki vera að hér væri um skrautlegar umbúðir að ræða utan um lítið efni og jafnvel að það efni, a. m. k. varðandi landbúnað og bændastétt og þá þjóðarheild um leið, væri ekki af hinu góða.