22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5567 í B-deild Alþingistíðinda. (4798)

505. mál, sjóðir atvinnuveganna

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi herra forseti. Ég skal ekki tefja málið mikið, enda ekki vanur því.

Þetta mál er búið að vera lengi í fæðingu í þinginu í vetur, eins og sjálfsagt allir hafa orðið meira og minna varir við. Málin eru þrjú eins og augljóst er og mismunandi aths. við hvert þeirra.

Andstaða hefur mér virst einna mest gagnvart búnaðarsjóðsgreininni eða hlutanum í þessu frv. Um þá andstöðu hef ég ekki mjög margt að segja. Hún er af mismunandi toga. Þó virðist mér að víða gæti nokkurrar hræðslu við það hvernig fulltrúar veljast í stjórn sjóðsins.

Það er auðvitað umdeilanlegt hvernig menn velja sjóðsstjórnir yfirleitt. Það sem hér hefur orðið fyrir valinu er það að bankafulltrúar eru felldir út, en eingöngu þeir sem borga í sjóðina eru nú teknir gildir sem fulltrúar í stjórnina. Ég reikna frekar með að það sé til bóta. Þó er það ekki víst. Það er ekki víst að það sé til góðs fyrir það annað aðalmarkmið með þessari breytingu á sjóðnum að hætta eyrnamerkingu lána, heldur gera mögulegt að lána í allt sem vænlegt er til arðgjafar í atvinnuvegunum.

Mér leiðist það að nafni Fiskveiðasjóðs skuli breytt. Fiskveiðasjóður er nú einu sinni 80 ára gömul stofnun. Ég sé ekki að það beri neina sérstaka nauðsyn til þess að breyta þessu nafni. Þessi sjóður getur lánað út á hvað sem er og ég skil ekki að hann þurfi endilega að heita Sjávarútvegssjóður neitt frekar en Fiskveiðasjóður.

Enn fremur er það hin sérstaka deild, sbr. 39. gr., sem er að því er mér virðist eins konar leifar af Fiskimálasjóði, sem hafi það hlutverk að styðja nýsköpun og umbætur í sjávarútvegi eða öðrum atvinnuvegum. Þessari deild eru ætluð sérstök hlutverk. Án þess að það sé takmarkað í greininni er líklegt að menn miði við það að hið gamla hlutfall milli Fiskveiðasjóðs og Fiskimálasjóðs, hlutföllin voru nánast einn á móti tíu eða einn á móti tuttugu að fjármagni til, gæti orðið til þess að takmarka frekar fjármagn til þeirra atriða sem þarna eru upp talin.

Eitt hefur mér fundist vanta í þessu frv., vera má að það hafi komið fram í umr. og framsögu hæstv. forsrh. um daginn, en það er um réttindi núverandi starfsfólks Fiskveiðasjóðs. Í þeim sjóði þekki ég nokkuð til og reikna ekki með að það verði nein sérstök breyting, en trygging er þar ekki fyrir, að því er ég get fundið í frv. eða grg., réttindum þess starfsfólks.

Til að ljúka þessu tel ég að kostir þessara breytinga, sem hér liggja fyrir í frumvarpsformi, yfirgnæfi galla og veit þó að þó nokkuð umtal og þó nokkrar deilur standa þar um ýmsa þætti.