22.05.1985
Efri deild: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5571 í B-deild Alþingistíðinda. (4801)

505. mál, sjóðir atvinnuveganna

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður en það er eiginlega ókurteisi við þessa hógværu deild ef ég segði ekki nokkur orð að lokum. Ég vil í fyrsta lagi segja að ég óttaðist aldrei að hv. þm. sem var að ganga í salinn, Helgi Seljan, ynni ekki sín heimaverk, hann hefur alltaf gert það og verið samviskusamur að því leyti a. m. k.

En mér þóttu satt að segja rök hans með og móti athyglisverð. Annars vegar að þarna væri raunar um engar breytingar að ræða en hins vegar að í þessu frv. gætu falist mjög alvarlegar breytingar fyrir Búnaðarsjóðinn. Í raun og veru held ég að hv. þm. hafi með þessu hitt naglann á höfuðið. Staðreyndin er nefnilega sú að það er háð stjórn sjóðsins hvaða breytingar verða. Það er einmitt tilgangurinn með þessu að opna lög um sjóðina svo að stjórnir sjóðanna gætu ákveðið hvort breyta skuli ýmsu sem nú er bundið í lögum. Stjórn Búnaðarsjóðsins getur að sjálfsögðu ákveðið að halda áfram sínum viðskiptum við Búnaðarbankann. En vel kann að vera að hún fái betra boð frá Landsbankanum sem lánar íslenska landbúnaðinum álíka mikið og Búnaðarbankinn. Vel kann að vera að bændur fái enn þá betri fyrirgreiðslu ef sjóðurinn flyst yfir til Landsbankans, þó veit ég ekkert um það að sjálfsögðu. En það opnar slíka möguleika fyrir atvinnuveginn sjálfan að ákveða og ég heyri að hv. þm. gerir sér miklar vonir um að komast þarna í gegn til áhrifa eða hans flokkur. Þetta opnar mikla möguleika fyrir viðkomandi atvinnuveg til að ráða málefnum sinna mikilvægu stofnsjóða á þann máta sem fulltrúar atvinnuvegarins dæma bestan. Þetta er einn megintilgangurinn með frv.

Ég ber svo mikið traust til fulltrúa atvinnuveganna og til atvinnuveganna sjálfra að ég vil að þeir ráði sem allra mestu um fyrirkomulag í þessum málum, t. d. við hvaða banka þeir vilja semja eða hvort þeir vilja sjá um þessa hluti sjálfir innan sjóðsins o. s. frv. eins og fram kemur í fjölmörgum greinum, hvaða trygginga þeir vilja krefjast, hvort þeir vilja krefjast bankatrygginga í einstökum tilfellum, og þannig gæti ég áfram talið. Ég tel að kjarninn sé þessi: Þetta þarf ekki að leiða til mikilla breytinga en það getur leitt til róttækra breytinga ef fulltrúaráð viðkomandi atvinnugreinar, sem kemur saman einu sinni á ári, telur það æskilegt.

Út af því sem hér kom fram um nafnið vil ég taka það fram að það er mér ekkert kappsmál að breyta því og mega sjóðirnir þess vegna heita sínum gömlu nöfnum.

Starfsfólkið hefur einnig verið nefnt. Nú er það svo að sjóðirnir eru í samningi við ákveðinn banka og starfslið sjóðanna er raunar starfslið viðkomandi banka. Þá væri þarna fyrst og fremst um breytingu gagnvart starfsliði að ræða ef stjórn einhvers sjóðs ákveður að flytja sína starfsemi yfir í annan banka.

Ég held samt að ekki sé mikið að óttast í þessu sambandi. Vitanlega stendur hver starfsmaður frammi fyrir því að það getur orðið breyting á starfsvettvangi og ég held að bæði sjóðsstjórnum og viðkomandi bönkum sé fullkomlega treystandi til þess að gæta hagsmuna starfsliðsins. Ég vil a. m. k. treysta því. Ég held að það verði varla girt fyrir það að breytingar geti orðið á svona starfsemi með lögum.

Ég vil svo að lokum þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið um þetta mál. Mér hefur heyrst einnig hjá hæstv. stjórnarandstæðingum að þeir vilji ekki standa í vegi fyrir því að þessi skrautumgjörð, sem þeir nefna svo, fáist samþykkt enda skilst mér á þeim að hún skipti ekki miklu máli. Ég vona því að málið fái skjótan framgang hér í hinni hv. deild.