01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

22. mál, Fiskifélag Íslands

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ekki við hæstv. forseta að sakast þótt hæstv. ráðherrar hafi ekki áhuga á stjórnmálum. Það er ekki við hæstv. forseta að sakast þótt hér séu hæstv. ráðherrar sem telja það smámál þótt lögð sé fram og rædd á Alþingi tillaga um að lögð sé niður ríkisstofnun sem heyrir undir embætti viðkomandi ráðh. Það er ekkert við forseta að sakast þótt hv. þm., utan fulltrúar tveggja þingflokka, hafi ekki áhuga á stjórnmálum, ekki á undirstöðuatriðum stjórnmála, ekki á aðalatriðum stjórnmála og nenni ekki að sitja á þingi að sínum skyldustörfum þegar slíkar umr. fara fram. Það er alls ekki við hæstv. forseta að sakast, heldur við hlutaðeigandi aðila.

Hv. flm., 8. þm. Reykv., sá ástæðu til þess að biðjast afsökunar á einu í sambandi við þetta mál. Það var á kansellístílnum og málfarinu. Eftir að hafa talað í annað skipti finnst mér endilega að hann hafi ástæðu til þess að koma aftur hingað upp í ræðustól og biðjast aftur afsökunar. Í þetta skipti fyrir ósannindi og rætni. Hann lauk nefnilega máli sínu með því að fara með þau ósannindi að það hafi einhvern tíma verið í lögum flokks íslenskra jafnaðarmanna að forustumenn flokksins skyldu ráða flokksmenn eða veita flokksmönnum forgöngu til starfa. Það eru ósannindi að slíkt hafi nokkru sinni verið í lögum Alþfl. á Íslandi.

Um rætnina er það að segja, að þar sem vitað er að hv. þm. var í mörg ár flokksbundinn Alþfl.-maður og þar sem hv. þm. var m.a. frambjóðandi á vegum Alþfl. til skamms tíma, sat m.a. í nefndum og ráðum á vegum flokksins, þá væri það ámóta mikil rætni af minni hálfu að gera honum upp þær hvatir að hann hafi sagt sig úr flokknum vegna þess að þessum lögum kynni að hafa verið breytt. Hann sæi á eftir einhverju sem þessi svokallaði gamli kerfisflokkur ætti að geta veitt honum. Ég þarf ekki að taka það fram, herra forseti og hv. þm., að ekkert slíkt hvarflar að mér. En ég legg það svona að jöfnu, þessi ósannindi og þessa rætni, eins og ef ég gerði honum upp slíkar hvatir.

Hv. þm. fann að því og reyndar hv. 4. landsk. líka, að ég hefði ekki tekið skilmerkilega afstöðu til málsins. Ég hefði ekki lýst því yfir afdráttarlaust hvort ég væri fylgjandi því að umrædd stofnun yrði lögð niður, þ.e. í þessu tilviki Fiskifélagið. Þá er ekki um að ræða að leggja niður ríkisstofnun, heldur um að hætta þátttöku af hálfu ríkisins, skattgreiðenda, við að halda Fiskiþing. Það er sem sé undan því kvartað að ég hafi ekki tekið skilmerkilega afstöðu til þess. Það er þá fremur af vangá að ég hafi ekki gert það í þessu tilviki. Það er svo sjálfsagður hlutur að því er varðar samkomuhald hagsmunaaðila í þjóðfélaginu, hvort heldur er í sjávarútvegi, landbúnaði eða öðrum atvinnuvegum, að viðkomandi fyrirtæki og stofnanir í þeim atvinnuvegi eru að sjálfsögðu fullkomlega bærar til þess að hafa kostnað af sínu þinghaldi sjálfar. Það er út af fyrir sig ákaflega einfalt mál. Ég tek eindregið undir það sjónarmið að ef ríkið drægi til baka framlög sín í þessu efni, þá kæmi einmitt á daginn hvort þessir hagsmunaaðilar teldu þá þjónustu sem þessar stofnanir veita vera þess virði fyrir sína starfsemi, fyrir atvinnuveginn, að þeir vilji kosta nokkru til. Og það er besti mælikvarðinn á þjónustuna, hvort menn vilja borga fyrir hana. Það er einfalt mál.

Hins vegar tók ég ekki afstöðu til allra hinna málanna. Það er reyndar ekki vegna þess að þau eru ekki hér formlega á dagskrá, þó að það sé eðlilegt, herra forseti, að ræða þessi mál í samhengi — það er einfaldlega vegna þess að ég átaldi vinnubrögð hv. þm. Ég hefði talið eðlilegt, sjálfsagt reyndar, að gera þá kröfu til hans sem löggjafaraðila að leggja þessi mál fram með ítarlegri upplýsingum, ítarlegri greinargerðum um það með hvaða hætti þetta ætti að gerast, innan hvaða aðlögunartíma þetta ætti að gerast, hvernig ráðstafa ætti eignum ríkisins, hvaða skilyrði ætti að setja fyrir því, með hvaða hætti ástæða væri til í sumum tilvikum að leysa það atvinnuleysisspursmál sem af kynni að hljótast o.s.frv. Ef hv. flm. telur gagnrýnisvert að ég taki ekki afstöðu til þessara mála, þá er svarið ósköp einfaldlega þetta: Þáltill. er of billeg; hún er of illa unnin. Hv. flm. hefur ekki lagt nægilega vinnu í málið. Hv. flm. hefur ekki gert þá kröfu til sjálfs sín að upplýsa þá, sem taka eiga afstöðu til málsins, nægilega um það hvað í slíkri ákvörðun felst. Það er fjarri því.

Ég tek undir allt sem fram hefur komið hjá hv. þm. Stefáni Benediktssyni og Guðmundi Einarssyni í ávítunartón í garð hæstv. ráðh. og þm., sem leitt hafa þessar umr. hjá sér. Það er nefnilega ekki oft sem umr. úr þessum ræðustól snertir grundvallaratriði. Ég tel að þessi umr. geri það. Og sem slík er hún bæði þörf og gagnleg. Hún er kannske upphafið að fjárlagaumr. Já, það er ein af stærstu spurningunum, sem liggja fyrir alþm., að taka afstöðu til útgjalda ríkissjóðs, kostnaðar ríkissjóðs. Það er að taka afstöðu til þess með hvaða hætti þm. telja rétt að leysa vandamál á kostnað skattgreiðenda. Og hvernig þeir sem ábyrgir aðilar telja sig best geta forsvarað það hvernig fjármunum almennings er ráðstafað. Það er kannske hægt að líta á þessi einstöku mál, án nokkurrar tilvísunar til hugmyndafræði út af fyrir sig, það er mikið rétt. Það er hægt að segja sem svo: Hér er verið að setja fram praktísk sjónarmið, eingöngu hagkvæmnissjónarmið lið fyrir lið, stofnun fyrir stofnun, fyrirtæki fyrir fyrirtæki og spyrja einfaldra spurninga. Er sú starfsemi, sem þarna fer fram, þörf? Og ef hún er það ekki, ef það er mat manna að hún sé bara óþörf, þarna sé um að ræða einhver fyrirtæki eða stofnanir, sem hefur dagað uppi og eru til af því bara, og engan varðar um, atvinnubótavinna, að leggja hana niður. Það þarf ekki mikinn rökstuðning fyrir því. En ég held að að því er varðar sumar af þessum stofnunum og sum af þessum fyrirtækjum, þá verði nú að krefjast ítarlegri rökstuðnings.

Það hefði verið ákaflega fróðlegt að fá að heyra betur og rækilegar sjónarmið ýmissa talsmanna Alþb. í þessu máli. Forsmekkur af því kom fram í máli hv. 4. þm. Vesturl. Hann var talsvert hneykslaður, hneykslaður á þeirri hugmynd að ríkið ætti að láta ógert að styrkja samtök atvinnurekenda til þinghalds. Hann kallaði samtök atvinnurekenda, árlega samráðsstofnun þeirra, „félagslega stofnun“. Hann taldi að þeim peningum almennings væri ekki illa varið sem væri varið til þess að styrkja samkundur hagsmunasamtaka atvinnurekenda. Mér kemur þetta ekkert á óvart. Ég þekkti dálítið til hvernig þeir þenkja slík mál, Alþb.-menn Ég kannast við tvíhyggjuna, rökleysurnar í afstöðu þeirra til þessara hluta, þó þeir klæði hana í einhvern hugmyndafræðibúning svona á tyllidögum á safnaðarfundum. Það er alveg stórmerkilegt að Alþb. hefur, eins og við höfum reynslu af því í ríkisstjórnum árum saman, rekið atvinnurekendapólitík sem oft gengur lengra í misnotkun á almannafé í þágu atvinnurekenda en jafnvel flestir aðrir flokkar-kannske að Framsfl. undanskildum. Ég man ákaflega vel þegar Alþfl. hóf baráttu sína fyrir því að hætt yrði þeirri geigvænlegu tekju- og eignatilfærslu frá launþegum, öldruðu fólki, sem kallast sparifjáreigendur, yfir til atvinnurekenda, skuldakónga, skjólstæðinga bankakerfisins, þeirra sem fengu lán sem voru hreinir styrkir. Og notuðu það til þess að færa skuldir og vaxtakostnað frá tekjum sínum, sluppu þannig við tekjuskatta, en notuðu styrkina til fjárfestingar, oft gersamlega óþarfrar fjárfestingar, óskynsamlegrar fjárfestingar. Og uppskáru að sjálfsögðu verulega eignaaukningu. Þetta er það sem hv. fyrrv. þm. Magnús Kjartansson kallaði „gróðamyndunaraðferð verðbólgunnar“. Og fáir stjórnmálaflokkar hafa gengið jafn langt í því efni. (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann hvort það muni vera langt í að hann ljúki ræðu sinni. Þessa er ekki spurt til þess að leggja neinar hömlur á það hvað hv. ræðumaður talar lengi.)

Herra forseti. Þar sem ég sé ekki fram á að með neinu móti verði beitt forsetavaldi til þess að hér fjölgi áheyrendum eða ráðherrar megi heyra þetta mál, þá sé ég ekki ástæðu til þess að svo stöddu að lengja þetta mál. En ræðu minni er ekki lokið.