22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5576 í B-deild Alþingistíðinda. (4823)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þeir aðilar, sem komið hafa inn fulltrúum og styrinn stendur um, eru frá rækju- og skelfiskstöðvum. Auðvitað finnst mönnum þetta skrýtið að það skuli vera áhugi hjá aðilum m. a. vestur við Ísafjarðardjúp að hafa einhver áhrif á þessa verðlagningu. Þessir aðilar hafa verið fyrir utan samtökin, Sölumiðstöðina og Sambandið, og þeir hafa viljað fá að vera þarna inni. Þetta með skötuselinn og steinbítinn er náttúrlega mál sem tekið verður til athugunar, hvort það þurfi að hafa sérstakan fulltrúa fyrir skötuselinn og steinbítinn. Mér er ekki kunnugt um að krafa hafi komið frá neinum sérstökum samtökum um slíkt. Hugsanlegt væri að hún ætti eftir að koma fram.

En það hefur ekki farið fram hjá Vestfirðingum í það minnsta að greiðslur til karfans úr sjóðum sjávarútvegsins hafa verið ákaflega miklar. Það verð sem fæst fyrir karfann hefur ekki bara verið sótt til fiskkaupenda. Þar hafa menn róið á kerfið. Þegar farið er að skoða hvar karfinn sé veiddur, hverjir veiða hann og hverjir vinna hann þá leiðir það hugann að því að það er ekki hægt að komast hjá því að minnast þess að það er talað um sérstakan BÚR-karfa. Það er mikil spurning hvort þarna hefur verið sótt í sameiginlega sjóði sjávarútvegsins til þess að bjarga bæjarútgerð eða borgarútgerð og ærið umhugsunarefni fyrir einkaframtakið í landinu hvort það sé sanngjarnt að skattleggja einkaframtakið á þann veg sem gert hefur verið til að borga með BÚR, gegnum BÚR-karfann.

Menn verða að hugleiða í þessu sambandi að það skiptir máli fyrir hinar einstöku vinnslustöðvar og hin einstöku vinnslusvæði hvaða hækkanir verða á hinum ýmsu fisktegundum. Það er ekki sama aflasamsetning alls staðar. Ef farið er að spila á þetta kerfi innbyrðis vilja menn gjarnan fá að sitja yfir taflinu og fylgjast með. Ég græt það þess vegna ekki þó að fleiri aðilar en sjávarafurðadeildin og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna komi inn í verðlagningu á rækju og skel. Það verða aðrir að bera sorgirnar af slíku.

Það má vel vera að það sé verið að stíga eitthvert merkilegt skref hér í 6. gr. eins og hv. 1. þm. Vestf. komst að orði þar sem gefið er í skyn í 6. gr.: „Verðlagsráði er heimilt að gefa verðlagningu á tilteknum fisktegundum frjálsa ef sérstaklega stendur á að mati ráðsins, enda sé um það einróma samkomulag í ráðinu.“ Ég treysti mér ekki til að meta það hvort í samþykkt sem þessari er falinn einhver möguleiki á því að verðmyndun verði frjáls á ákveðnum fisktegundum. Mér sýnist það frekar ólíklegt. Mér sýnist það meira upp á punt. Hv. 1. þm. Vestf. var nú eiginlega á því að þetta væri upp á punt, þetta dygði ekki ef menn ætluðu að fara að stíga slík skref.

Það er líka rétt að gera sér grein fyrir því að frjáls verðlagning á fiski gæti kannske einna helst átt sér stað hér á Suðurnesjum með markaði. Eitt og annað, m. a. samgöngur, hefur afgerandi áhrif yfir vetrartímann til að koma í veg fyrir að hún sé gjörleg á stórum svæðum landsins og síðast en ekki síst sú staðreynd að á mörgum stöðum eru það sömu aðilarnir sem eiga skipin og frystihúsið. Hv. 1. þm. Vestf. á nú að vera nokkuð kunnugur slíkum aðstæðum. (Gripið fram í.) Það er því spurning hvernig ætti að standa að samningum við þær kringumstæður. Mér sýnist þess vegna að það sé ekki einfalt mál að komast frá því kerfi sem við erum með í þessum efnum. Ég er ekki búinn að sjá að þetta kerfi hefði haldið velli svona lengi ef það væri alvitlaust eins og sumir vilja gefa í skyn. Hitt er svo hárrétt hjá þeim ágæta manni, 4. þm. Suðurl., að þeim mun verr gefast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. En við verðum bara að vona að þarna sé skynsöm fylking á ferðinni og það komi ekki að sök þó að ráðið búi við það fjölmenni sem hér er lagt til.