22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5584 í B-deild Alþingistíðinda. (4833)

86. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á því að ræða þá brtt. sem hv. síðasti ræðumaður var hér að tala fyrir. Ég hefði tekið þessari till. fegins hendi ef 1. málsliður hefði aðeins verið, með leyfi forseta: „Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins einni skal heimil framleiðsla áfengra drykkja og bannað er öðrum að gera drykkjarhæft það áfengi sem er, eða gert hefur verið, óhæft til drykkjar.“ Þar með búið. Þ. e. að það hefði verið ríkið eitt sem hefði leyfi til þess að framleiða áfengt öl ef það spor verður stigið sem ég vona enn að ekki verði.

Mig langar til að segja nokkur orð til hv. þm. Ellerts Schram út af þeirri ræðu sem hann flutti hér við 2. umr. málsins. Hann sagði að löggjöfin væri ekki góð. Ég get raunar tekið undir það að löggjöfin er ekki góð. En hann heldur áfram: það þýðir ekki að setja boð og bönn. Hvað erum við að gera hér á Alþingi flesta daga? Ef við værum nógu fullkomnir þyrfti engin lög, ef siðferðisvitund okkar væri það sterk. En það er nú þannig að því miður er því ekki þannig varið. Við erum alltaf að setja boð og bönn. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Ellert Schram muni ekki leggja það til t. d. að hér sé frjálst að flytja inn ýmiss konar fíkniefni. En dómgreind manna virðist vera svo brengluð — ég verð að segja það — að átta sig ekki á því að þetta er eitt af þessum eiturefnum sem kannske er það alvarlegasta sem við höfum við að glíma. Ég ætla ekki að ræða meira um þetta atriði því að ég ætla ekki að tala mjög langt mál hér, ég sé enga ástæðu til þess.

Ég óska eftir því að hv. 2. þm. Reykn. verði hér við því að ég ætla aðeins að tala til hans hér á eftir. Það kemur fram í skýrslu að af þeim sem framleiða áfenga drykki hafi verið varið sem svarar 60 milljörðum íslenskra króna á s. l. ári til áróðurs og auglýsinga. Menn geta hugleitt hvort þeir haldi að Íslendingum hafi verið boðið eitthvað af þessu til áróðurs eða auglýsinga. Ég er ekki að segja að þeir hafi tekið við því en ég held að það væri afskaplega einkennilegt að slá því föstu að það sé a. m. k. ekki hætt við því að þeir, sem eru að auglýsa og reyna að koma áfenginu á markað, hafi reynt að fá sér umboðsmenn og auðvitað þeir sem hafa umboð fyrir áfengi og ef það er í ríflegra lagi, hvað er það?

Ég sagði það við 2. umr. að eitt það merkilegasta sem fyrir mig hefur komið hér á Alþingi var sú ræða sem formaður nefndarinnar, hv. 2. þm. Reykn. Gunnar Schram, flutti hér. Ef ég hefði ekki verið búinn að lesa nál. og séð með eigin augum að hann skrifaði undir með fyrirvara hefði ég talið allt til hins síðasta að þarna væri flutt áhrifamikil ræða gegn bjórnum og afleiðingin af þeim flutningi hlyti að vera sú að hann væri á móti þessu frv. Ég ætla að fara ofan í nokkur atriði. Mér finnst nauðsynlegt að ræða þau því að þan eru mjög athyglisverð. Hann segir hér: „Skv. opinberum skýrslum voru seldir 600 þús. lítrar öls í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli árið 1984.“ Ég efa ekki að þetta er rétt, þetta er sjálfsagt í opinberum skýrslum. Ég ætla að beina orðum mínum fyrst og fremst til forseta sem situr hér í forsetastól. Það var einmitt Sighvatur Björgvinsson fyrrv. alþm. sem kom því í gegn að Íslendingar, sem komu til landsins og raunar allir sem komu í gegnum flugvöllinn, gátu haft með sér áfengt öl inn í landið. Ég vil að þetta liggi alveg á hreinu.

Síðan segir hv. 2. þm. Reykn.: „Í fyrra voru seldir um 600 þús. lítrar til veitingahúsa til gerðar hins svonefnda bjórlíkis. Samtals er hér um að ræða um 8 lítra af áfengu öli á mann 20 ára og eldri.“ Síðan talar hann um það að með brugginu sé þetta svona og svona mikið. Ég vil draga mjög í efa þessar upplýsingar. Mér sýnist að verið sé að reyna að koma því inn hjá þjóðinni að þessi tala hafi verið svona. Ég fer stundum á samkomuhús og veitingahús. Aldrei kaupi ég annað en bara malt og pilsner o. s. frv. Það er hæpið að fullyrða nokkuð um það sem samkomuhús og veitingahús önnur kaupa og þessar bjórstofur, hvað hefur verið notað í bjórlíki og hvað ekki. En auðvitað er þetta allt það magn sem þessi hús hafa fengið og á að vera afsökun síðar meir fyrir því að svona hafi það nú verið áður, það hafi verið notað svona og svona mikið af áfengu öli, farið út og suður til þess að sýna fram á að aukningin hafi ekki verið mjög mikil. Nú veit ég það að hv. þm. hefur fengið þetta hjá einhverjum, sem mættu hjá nefndinni, og mér dettur ekki í hug, hef enga ástæðu til þess að rengja það út af fyrir sig. En þessar upplýsingar. hvaðan sem þær koma, stangast á við heilbrigða skynsemi blátt áfram, hvorki meira né minna. Ég vil vekja athygli á þessu atriði alveg sérstaklega.

Hv. þm. segir náttúrlega margt um þetta, en ég ætla ekki að fara að lesa hans ræðu alta hér upp þó ég vilji endurtaka það að hún var að mörgu leyti mjög merkileg. Hv. þm. segir að ef af því yrði að slík sala yrði leyfð. þ. e. á áfengu öli eins og frv. og brtt. gerir ráð fyrir. megi búast við nokkurri aukningu á heildarmagni selds áfengis í landinu þrátt fyrir að um allmikla sölu á áfengu öli sé að ræða þegar í dag eins og ég gat um.

Ég vildi leiða hugann að því hvað þetta atriði er mikilvægt í umræðum á næstunni, næstu árum. þangað til þessi mál verða tekin upp ef þetta frv. verður samþykkt. Hv. þm. hefur áhyggjur af því að ef þetta verður að lögum, þá verði nokkur aukning, og leggur til að reynt verði með einhverjum hætti að draga úr neyslu áfengra drykkja yfirleitt. Ég vil taka undir það að það væri nauðsyn, en ég held að það geti ekki verið ráðið til að minnka áfengisneyslu að hafa á boðstólum enn þá meira áfengi heldur en nú er. Ég vil í því sambandi vekja athygli á því að það er mjög hætt við því að ýmsum þyki bjórinn góður og þeir kaupi hann í kössum, þannig er það annars staðar a. m. k., og síðan hafa þeir hann í kæliskápum þar sem börn og unglingar geta náð þessum áfenga bjór. Og menn geta bara hugleitt hvað af því getur hlotist.

Hv. 2. þm. Reykn. segir okkur frá því í sambandi við þá nefnd sem ríkisstj. skipaði 19. maí 1983 til þess að marka opinbera stefnu í áfengismálum, að honum hefði fundist að það hefði átt að bíða eftir niðurstöðu þeirrar nefndar og hann hafi komið með þá tillögu að beðið yrði eftir niðurstöðu nefndarinnar. Ég vil taka sterklega undir þau rök sem hv. þm. bar hér fram, að það sé ákaflega óeðlilegt að skipa nefnd til þess að marka stefnu í áfengismálum en bíða ekki eftir niðurstöðum hennar. En samt sem áður, þrátt fyrir þau vonbrigði sem við urðum vitni að í ræðu hv. þm.. þá verður hans afstaða að fylgja þessu frv.

Hann getur einnig um það sem meiri hl. nefndarinnar gerir, þ. e. brtt. við 2. gr., sem er í raun og veru þess eðlis að dómsmrh. sé heimilað að leyfa innlendum einstaklingum og fyrirtækjum bruggun. framleiðslu hvers konar áfengis nema öls utan styrkleika 4–5%. Hér er um mjög alvarlegan hlut að ræða að mínu mati. sem hefði átt að verka þannig á meiri hl. hv. deildar að ekki kæmi til nokkurra mála að samþykkja þessa brtt. hvað sem er um þennan bjór. Ég ætla ekki að ræða ræðu hv. 2. þm. Reykn., formanns allshn. þessarar deildar, frekar.

Ég sakna þess mjög að 1. flm. þessa frv. skuli ekki vera hér í salnum því að ég á við hann nokkurt erindi. Ég er hér með fyrir framan mig nokkra punkta, sem ég ætla þá að nota tækifærið til að lesa upp á meðan ég bíð eftir hv. flm. þó að ég hafi ekki áður ætlað að gera það.

Í blaði sem templarar gefa út og nefnist Reginn segir svo:

„Um allan heim stendur ofdrykkja og áfengisböl í föstu hlutfalli við almenna áfengisdrykkju. Því almennari áfengisneysla, því meira áfengisböl. Því almennari bindindisstarfsemi, því minna áfengisvandamál. Sterk bindindishreyfing dregur úr hættunni. Það er ekkert einkamál neins hvernig ástatt er um bindindisstarfsemi frekar en aðrar slysavarnir og heilsugæslu. Við vinnum að veröld án vímu. Bindindi þýðir betra þjóðfélag. Áfengið er orsök bæði hins bráða og langvinna drykkjuskapar, því að enginn verður áfengissjúklingur sem ekki neytir áfengis. Áfengið svæfir heilann, deyfir fyrst varkárni, dómgreind og ökuhæfni mannsins. Áfengið er vanabindandi eiturlyf. Það er mikilvægara að koma í veg fyrir sjúkdóminn en að lækna hann.“ (Forseti: Nú gengur hv. 5. þm. Reykv. í salinn.) Já. ég fagna komu hans hingað.

Ég varð fyrir nokkuð merkilegri reynslu undir ræðu hv. þm. við 2. umr. þessa máls. En áður en ég segi frá þeirri reynslu vil ég endurtaka það sem ég sagði þá og hafði eftir einum nm. í allshn. hv. deildar og er náttúrlega athyglisverður dómur um það frv. sem hér er til umr. eins og það var lagt fram. Hann sagði að það eina sem nefndin hefði verið sammála um hefði verið það að frv. væri ónothæft. Ég vil biðja menn að festa sér þetta sérstaklega í minni. Það voru a. m. k. tveir lögfræðingar meðflm. að frv. en þó var þetta sá dómur sem frv. fékk hjá nefndinni.

Þegar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var að flytja sína ræðu sótti ákaft á huga minn kvæði sem ég lærði fyrir rúmlega 50 árum. Og það vilt svo til að það mun vera um öld síðan sá maður fæddist sem gerði þetta kvæði. Ég hélt að ég væri fyrir löngu búinn að gleyma þessu kvæði. Þetta var ort sennilega í kringum 1930 og tilefnið var það að mikið var talað um það að bruggað væri á nokkrum stöðum í mínu nágrenni. Þetta kvæði varð m. a. til þess að breyta afstöðu margra manna á þeim tíma til áfengis og bruggs. Og það merkilega var að eftir því sem hv. þm. talaði lengur, eftir því komu fleiri vísur upp í huga minn og þó eru orðin 40–45 ár síðan ég hef lesið eða heyrt þetta kvæði. Ekki er ég öruggur um að ég hafi það allt, en að lokum tókst mér að rifja upp níu vísur sem mig minnir að hafi verið svona:

Hann krýpur við hlóðirnar hálfboginn,

hugsandi starir í eldinn.

Hann veit hann er sekur, en verður um sinn

að vaka er líður á kveldin.

Eitrið í katlinum sýður og sogar,

það seytlar um pípur, það logar, það logar.

Bruggarinn hlær þegar blossar og sýður,

af brennandi girnd er sál hans full.

Hann telur dropana er tíminn líður,

hann tælir hið skínandi gull.

Hann veit að eitrið er örlagavaldur,

en ágirndin ræður, því er hann kaldur.

Hann telur á fingrum sér tugi króna

og tendrar hið skínandi bál.

Hann veit að nú eignast hann auðlegð og þjóna

og allt sem girnist hans sál.

Því lætur hann eitrið í flöskurnar flæða

þótt fylgi því harmur, örbirgð og mæða.

Hann veit að þeir koma og kaupa landann

sem kvarta og vantar brauð.

Feður á eitrinu fjörga andann

þótt fjölskyldan líði nauð.

Dansandi æskan um dimmar nætur

fyrir dropana síðasta eyrinn lætur.

Lágnættið kemur og bruggarinn blundar

Það blikar á flöskurnar allt í kring.

Ofan frá himnunum skínandi skundar

Skuld með dísir á örlagaþing.

Það hafði borist til bjartari heima

bölið sem flöskurnar geyma.

Það hafði borist bænamál

frá börnum og hungruðum konum,

frá góðum mönnum sem glötuðu sál

og grétu yfir brostnum vonum,

frá blíðlyndri móður sem beið í ranni,

barin af vitskertum manni.

Það hafði flogið um byggðir og borg

bruggarans alkunna saga:

um bardaga mannanna, áflog og org,

illindi nætur og daga,

um harmþrungnu meyjanna hinstu stundir

sem hurfu bylgjurnar undir.

Dísirnar hefja sitt harmamál

um heimsku mannanna og syndir.

Það liðu um bruggarans bannfærðu sál

að bólinu óljósar myndir.

Svo heyrðist eitt hljóð úr húmi nætur.

Hann hrekkur skjálfandi á fætur.

Bruggarinn tautar: Flaskan er full.

Að fela er mestur vandinn.

Mig dreymdi víst áðan demanta og gull.

Það er daufur í flöskunni landinn.

Svo læðist hann burtu lúmskur sem refur

um lágnættið, grefur og grefur.