22.05.1985
Neðri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5590 í B-deild Alþingistíðinda. (4835)

86. mál, áfengislög

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Það er dálítið erfitt að tala í þessari umr. um bjórinn af þeirri ástæðu að stuðningsmenn hans vilja stöðugt nánast láta að því liggja, ef menn hafa þar eitthvað að segja, að verið sé að halda uppi málþófi.

Ég vil byrja á að geta þess að í fyrravetur var frv. til l. um bjórinn í allshn. Nd. og ég lagði eindregið til að það frv. yrði afgreitt úr n. og kæmi til atkvæða hér í þinginu. Það frv., sem nú er til afgreiðslu hér, hefur haft meiri hl. í allan vetur. Flm. og nm. var því í lófa lagið að koma málinu út úr n. mjög tímanlega ef áhugi hefði verið á því. Í þriðja lagi: Meiri hl. n. var mjög seinn til að skila nál. eftir að n. var búin að afgreiða málið út. Engu að síður er stöðugt látið í það skína, þegar menn taka hér til máls um þetta mál, að verið sé að halda uppi málþófi.

Ég hefði, herra forseti, viljað óska eftir því að hv. 5. þm. Reykv. væri hér viðstaddur. (Forseti: Forseti verður við þeim óskum að reyna að hafa samband við hv. þm. en hins vegar neyðir forseti engan þm. til að vera hér í salnum.) Ég vil þakka forseta, bæði fyrir það að vera reiðubúinn að hafa samband og eins hitt að neyða engan þm. til að vera í salnum — ekki síður fyrir það síðarnefnda. Hins vegar getur það verið dálítið erfitt að halda hér áfram umr. án þess að hann sé til staðar.

Ég mun víkja næst að brtt. sem borin hefur verið fram af 5. þm. Austurl. Þessi brtt. er að því leyti sérstæð að flm. hennar telur að vissulega sé auðveldara að verja illt málefni ef tryggt er að tekjurnar sem verði af því fari í gott málefni. Ég sé hv. 5. þm. Austurl. fyrir mér á fundum eystra þegar hann útskýrir það fyrir kjósendum sínum að hann hafi bjargað því sem bjargað varð í þessu blessaða bjórmáli, hann hafi viljað hafa áhrif á það að tekjur rynnu í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þarna er verið að spila á tilfinningar manna. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ef ég ætti að meta það hvort hv. 5. þm. Reykn. eða hv. 5. þm. Austurl. ættu að sjá um ráðstöfun á almannafé, þá mundi ég ekki hika við eitt augnablik að mæla fremur með því að það yrði hv. 5. þm. Reykn. Ég tel að það sé ekki viðeigandi að blanda saman hlutum sem þessum.

Ég þori varla að nefna dæmi um hliðstæður því að það er hætt við að menn yrðu þá úthrópaðir sem öfgamenn. Segjum nú að ég og fleiri bærum fram till. um að leyfa innflutning á hassi, það er talið með því meinlausasta sem búið er að smygla inn í landið í þó nokkrum mæli — upplýsingar m. a. Dagblaðið — en legðum til að gróðinn sem kæmi — því að þetta yrði selt með verulegri álagningu í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins — færi til öryrkja. Væri þetta heiðarlega að verki staðið? Ég segi: Nei. Þarna eru menn að reyna að blekkja, þarna eru menn að reyna að koma mönnum til að samþykkja hluti sem þeir vita að menn eru á móti með því að bæta öðru góðu málefni við.

Ég vil aftur á móti vekja athygli á því að ég hygg að fyrri partur þessarar greinar, þar sem hann vill halda inni einkarétti ríkisins til bruggunar á áfengi, sé settur fram af fullum heiðarleika. Ég tel að honum sé þar fúlasta alvara, hann telur að þannig eigi skynsamlega að standa að málum. Þannig hefur þetta verið hér á landi að ríkið hefur eitt séð um bruggun á víni.

Mér finnst að það sé aftur á móti eðlilegt að maður spyrji hv. 5. þm. Austurl. eins og hann spurði á sínum tíma hv. 5. þm. Reykv.: Hvaða alvara er honum með þessum tillöguflutningi? Ef þessar brtt., sem hann ber hér fram, eru felldar, ætlar hann eftir sem áður að styðja frv.? Eru þetta þá bara algjör aukaatriði sem hann er að berjast hér fyrir þannig að hann er reiðubúinn eftir sem áður að styðja frv.? Mér finnst að hv. 5. þm. Austurl. geti illa komist undan því að gera grein fyrir því hér í ræðustól hvort honum er alvara, hvort hann ættar sér að styðja frv. ef þessar breytingar eru felldar. Hann stóð hér í pontunni fyrir nokkrum dögum og spurði hv. 5. þm. Reykv. varðandi útvarpslögin: Er honum alvara, eru þetta skilyrði fyrir stuðningi? Hann hlýtur að verða að gera dæmið upp við sig á nákvæmlega sama hátt. Eru þetta till. sem hann vill standa og falla með varðandi stuðning við málið?

Herra forseti. Ég hafði nú hugsað mér að víkja máli mínu frá hv. 5. þm. Austurl. og hefði gjarnan viljað eiga orðastað við 5. þm. Reykv. og vil nú spyrja forseta hvort hann sé væntanlegur á fundinn. (Forseti: Forseti hefur gert rek að því að náð verði til hv. 5. þm. Reykv. en ég hef ekki fengið svar við því endanlega hvort hann verður hér. — Hv. 5. þm. Reykv. er á leiðinni til þinghússins.)

Hv. 5. þm. Reykv. hefur mikið verið í sviðsljósinu í vetur. Hann hefur flutt ógrynni af ræðum, hann hefur skrifað mikið í blöð, það hafa verið viðtöl við hann í sjónvarpi og útvarpi. En hann hefur fallið í þá gryfju — (Gripið fram í: Hann er kominn.) — að gleyma því hvað hann hefur sagt á hinum ýmsu stöðum. Það hafa verið dálítið óþægileg augnablik hjá hv. 5. þm. Reykv. þegar hann hefur verið að þræta fyrir það sem hann hefur sagt eða það sem hann hefur skrifað. Eitt af hinum frægu efnum var hin svokallaða Finnlandsering sem hann kom á framfæri og leiddi til þess að jafnaðarmenn í Finnlandi töldu manninn vart hæfan í hópi jafnaðarmanna á Norðurlöndum. Ekki veit ég hvort það átti að bannfæra hann eins og kaþólska kirkjan beitti stundum við menn sem brutu mikið af sér, en þeim fannst dálítið skrýtin kenningin og þeir tóku fram að þeir létu ekki bjóða sér svona hluti. En hv. 5. þm. Reykv. sat fastur í netinu, töluð orð verða ekki aftur tekin.

Hv. 5. þm. Reykv. átti í viðtali við útvarpið kost á því að veita þeim, sem nú stendur hér í ræðustól, vissa aðför vegna orða sem hann hafði látið falla um hugsanlega mútustarfsemi. Og það var ekki verið að skafa utan af hlutunum hvað væri farið fram á. Jú, hann skyldi sko standa við það að draga mennina fram í dagsljósið eða verða minni maður ella. En hvað hafði hent þennan ágæta hv. 5. þm. Reykv.? Hann hafði í viðtali við Helgarpóstinn fimmtudaginn 31. jan. 1985, 5. tbl., með leyfi forseta, komið á framfæri sínum skoðunum varðandi mútur. Með leyfi forseta vil ég lesa upp það sem víkur að þessu efni:

„Jón vék að sölufyrirkomulagi á áfengum drykkjum hérlendis og sagði skipan á sölu í gengum áfengiseinkasölu ríkisins fáránlega í heild sinni. Vitað væri hvernig og hvaða leiðir umboðsmaður áfengis færi til þess að auglýsa sína vöru, koma henni fyrir á réttum stað í hillunum og fá rétta aðila til að veita vörunni hæfilegan forgang. Þetta er m. ö. o. alræmd mútustarfsemi.“ (Gripið fram í: Hann er farinn úr salnum.) Það var ekki verið að draga af hlutunum. Það var ekkert „hugsanlegt“ í þeim efnum. Hvar eru vitnin? Það er ekki efnilegt ástand, herra forseti — (Gripið fram í: Jón er farinn.) — því sakborningurinn er jafnframt horfinn úr salnum ásamt vitnunum. (HBl: Þm. treysta sér ekki til að sitja undir þessu.)

Ég hygg að á flóttanum hér í ræðustól undan útskýringum hafi hv. 5. þm. Reykv. komist rétt að orði þegar hann sagði: Það getur orðið erfitt að leiða fram vitni. Samt er það svo að það er eitt og annað sem tíðkast fyrir augunum á öllum. Eitt af því er það að áfengisumboðin íslensku bjóða starfsfólki Fríhafnarinnar í Keflavík hingað inn í Reykjavík í veislur. Nú vil ég gjarnan spyrja hv. 5. þm. Reykv.: Eru þessi boð til þess að þeir raði rétt í hillurnar þegar þeir mæta til starfa næst í Fríhöfninni?

En það er erfitt að spyrja fjarstaddan mann, herra forseti, og ég verð allra náðarsamlegast að fara fram á það við hæstv. forseta að hann geri enn eina tilraun til að tryggja nærveru 5. þm. Reykv. Ég hef mikla samúð með hæstv. forseta hvað það snertir að þurfa að hafa aga á 5. þm. Reykv. og halda honum í salnum. Ég hef fulla trú á því að hann geri sitt besta í þeim efnum. (Forseti KP: Það er rétt að gera hv. þm. grein fyrir því að núv. forseti hefur ekki áður gert tilraun til þess að hafa hv. 5. þm. Reykv. í salnum en nú hefur hann gert sína fyrstu tilraun til þess að koma boðum til hv. þm. að hann verði hér viðstaddur.)

Með leyfi forseta vil ég enn vitna til umræddrar greinar Helgarpóstsins og vitna hér í undirfyrirsögn þar sem stendur fullum fetum: „Það tíðkast alræmd mútustarfsemi vegna áfengissölu“. Það hlýtur að vera spurning þegar slík fullyrðing er sett fram í blaði, sem alþjóð veit að er vinveitt hv. 5. þm. Reykv., hvort hann er að blekkja þjóðina með því að koma þessu á framfæri eða hvort hann er að segja meiningu sína. Hvers vegna lesa íslenskir fréttamenn ekki þessar upplýsingar upp í útvarpi til að koma boðskapnum á framfæri við þjóðina? Hvers vegna? Eru þeir kannske hræddir við að það reynist meiri sannleikur í ásökunum 5. þm. Reykv. en svo að þeir hafi áhuga á því að koma því á framfæri?

Herra forseti. Það eru önnur atriði sem fréttamenn hafa talið meira virði þegar þeir hafa talið sig þurfa að kynna bjórfrv. í ríkisfjölmiðlum. Ég hygg að hver sem hlustar á þau orð sem ég læt hér falla og hefur lesið þetta blað geri sér grein fyrir því að hv. 5. þm. Reykv. undanskilur ekki einn einasta Íslending þegar hann talar um mútustarfsemina.

En hitt skyldu menn hugleiða hvaða þjóðfélagshópar það eru sem þarf að múta ef áfengisauðmagnið þarf að koma sínum málum áfram. Eru það mennirnir hjá Dagsbrún? Ætli það? Ætli það ráði úrslitum? Mér er til efs að halda að það ráði stóru. Skyldi það hafa áhrif til að auðvelda áfengisauðmagninu að koma sínum málum áfram ef fréttamenn í umfjöllun um þessi mál í ríkisfjölmiðlunum draga aðeins upp bjartari hliðina af þessu máli og misnota þannig sína aðstöðu?

Hv. 5. þm. Reykv. er genginn í salinn og gluggar nú í bláum blöðum, hvort það eru fluttar ræður sem hann er búinn að gleyma eins og var með Finnlandseringuna eða hvort hann er að leita eftir því að það sé eitthvað sem andstæðingar bjórsins hafa sagt hér sem hann gæti notað og komið sér undan að svara þeim spurningum sem til hans hefur verið bent, eins og hann gerði seinast. Þá talaði hann um vindhögg. Hvar er vindbelgurinn sem þarf að stinga á, herra forseti?

Ég hygg að það geti farið svo að hv. 5. þm. Reykv. hafi bjórinn sem minnisvarða sinnar hagfræðibaráttu í sölum þingsins stimplaðan í bak og fyrir á stjórnmálaferlinum. Ég hygg að það gæti farið svo að íslensk æska og íslenskur almenningur tengdi saman tvo hluti óaðskiljanlega í minningunni í framtíðinni, hagfræðingurinn, formaður Alþfl., 5. þm. Reykv. og barátta hans hetjuleg á þingi Íslendinga fyrir bjórnum. Spurningin er aðeins þessi: Er komið að þeirri stundu hjá formanni Alþfl. að vinsældirnar séu komnar á toppinn og komið sé að því að nú fari að klofna í sundur það fylgi sem búið er að ná saman? Það er eins og mig minni að sögulega séð hafi það hent hjá Alþfl. áður og kannske er ekki svo langt á milli.

En hitt er ég ekki viss um að þeir bindindismenn sem styðja Alþfl. muni nokkurn tíma fyrirgefa formanni sínum það verk sem hann hefur talið brýnast hér í vetur. Það getur verið að innan Alþfl. rísi sú alda sem honum verði hættulegust í þessum efnum. Hann krafðist hugrekkis í útvarpsviðtalinu, hann krafðist hetjudáða. Hvaða formaður í þessu landi hefur neitað að taka einvígisáskorun við samflokksmann sinn í málefni sem er til umræðu hér í þinginu? Þó munu allir sanngjarnir menn fullyrða að formaður flokksins er vígfimari í ræðustól en sá sem skoraði hann á hólm. Hvað brast? Var það hugrekkið sem skorti? Var það hugrekkið sem ekki var til staðar? En sá sem ekki þorði var hv. 5. þm. Reykv. Hann þorði ekki í kappræðurnar. Hann hætti ekki á það.

En það er ekki víst að á öllum vígstöðvum Alþfl. komist þessi maður undan því að svara fyrir sína stefnu í þessum málum. Hann hefur látið í það skína að það þurfi kjark til að láta ekki undan þrýstihópunum. En hver og einn, sem veit að skoðanakannanir hafa sagt að bjórinn hefði meirihlutastuðning hjá þjóðinni, veit að formaður Alþfl., hv. 5. þm. Reykv., er fyrst og fremst á gruggugum atkvæðaveiðum í voninni um ráðherrastól. Draumurinn blundar og það er barist. Honum er sama hvaða verði hann kaupir stólinn, hvort sem það tvöfaldar drykkju Íslendinga eða ekki, nái hann þeim áfanga að komast í hann. Ég tel að hv. 5. þm. Reykv. sé þegar orðinn alvarlega hræddur um að hann sé búinn að stíga þau feilspor sem tryggi að undanhaldið sé það næsta sem blasi við.

Það er athyglisvert hve margir Alþýðuflokksmenn hafa sagt við mig seinustu dagana: Ég stend með þér í þessu máli. (GHelg: Þú ættir að vita um alla Alþýðubandalagsmennina.) Þeim hefur nú farið mjög fækkandi undanfarið. En ekki fjölgar þeim vegna þeirrar baráttu sem háð hefur verið af hendi hv. 10. landsk. þm. í þessu máli.

Ég verð að segja það eins og er að þegar þetta mál var til umr. og hv. 6. þm. Reykv. reyndi eftir mætti að veita lið 5. þm. Reykv., að sá tvíleikur sem þá var notaður og sá stuðningur, sem Dagblaðið veitti í þeim tvíleik, segir dálítið mikið um þau spil sem hv. 5. þm. Reykv. telur sig hafa á hendinni. Það er eins og hann hafi visst öryggi, visst landgönguleyfi inn í Sjálfstfl. eftir ákveðnum línum ef hann hefur þörf fyrir það.

En ræða 6. þm. Reykv. var ömurleg þar sem hann tók það fram sem rök fyrir því að leyfa bjórinn að ekki ætti að stjórna með boðum og bönnum. Bjórinn væri kominn inn í landið og menn neyttu hans o. s. frv. Öll þessi rök geta dugað eftir fimm ár í grg. með frv. þar sem lagt er til að leyft verði að flytja hass inn í landið — og gætu dugað nú þegar. Hafa menn lesið forsíðufréttina hjá Dagblaðinu? Hún fjallar ekki um bjór, hún fjallar um önnur fíkniefni miklu hættulegri, vissulega. Það má vafalaust um það deila, hvaða maður það er sem borið hefur jafnaðarhugsjónina hæst hér í landi og beittast talað fyrir henni. En mér hefur löngum fundist að það hafi gert Þorsteinn Erlingsson. Það er óvíst að hann hafi í annað sinn ort beittara en þegar hann orti kvæðið Skilmálarnir og bað menn „að lesa ekki allt gegnum annarra gler“. Hv. 5. þm. Reykv. hefur fallið í þá gryfju að lesa gagnrýnislaust áróður, gleypt við honum hráum og tekið afstöðu í þessu máli á þann veg að það mun seint gleymast.

Hefði það ekki verið eðlilegt, herra forseti, að hagfræðingur og stjórnmálamaður sem er að ryðja sér völl og vill gera góða hluti fyrir land og þjóð sneri sér fyrst og fremst að því að tala um efnahagsmál, legði fram frv. sem tækju á málum eins og viðskiptahalla Íslands eða einhverju slíku? Óneitanlega hefði hann staðið hærra í sögunni, herra forseti, ef eitthvert slíkt mál hefði orðið minnisvarði en ekki bjórdós, hvort sem það nú verður einnota eða bara venjulegt gler sem fer á leiðið.

Það hlýtur að verða að skoða hvern mann í ljósi þess hvað hann setur upp sem sín stóru markmið. Hitt getur aldrei verið atriðið að týna sjálfum sér í smámálunum. Hv. 5. þm. Reykv. ætlar sér stóra hluti. Hann talar meira að segja með fyrirlitningu um þá sem ekki þoli nema litla bita og lítil skref. Með leyfi forseta vil ég lesa hér neðst í greininni:

„Ég er fylgjandi því að bjór verði seldur í verslunum en ég held bara að það yrði of stór biti fyrir þm. að kyngja. Þeir verða alltaf að vera í smáu skrefunum.“ Það lið, sem virðist ætla að duga hv. 5. þm. Reykv., notar smáu skrefin og það kyngir litlu bitunum. Það er athyglisvert, herra forseti, hversu 1. flm. þessa frv. hæðir miskunnarlaust það lið sem þó virðist ætla að veita málinu brautargengi með stuðningi við frv. Svo logandi háð til að afla fylgis meðal þm. veit ég ekki til að áður hafi verið notað. En kannske er þetta líka hinn nýi stíll í tjáningu. Ég vænti þess að hv. 5. þm. Reykv. svari því tæpitungulaust hér á eftir hvort hann telur að þegar áfengisumboð bjóða starfsmönnum fríhafnarinnar í veislur inn í Reykjavík, hvort þá sé verið að tryggja að rétt sé raðað í hillurnar, hvort það sé það sem hann hafi átt við þegar hann talar um mútustarfsemina og að þurfi að hafa áhrif á þessa hluti.

En ég frábið mér því meðan hv. 5. þm. Reykv. þorir ekki að mæta á kappræðufundi við samflokksmann sinn um þessi mál, að hann vogi sér að tala um kjark annarra. Það þarf að vera eitthvert samræmi á milli þess sem menn eru að segja stundum.

Ég hef hlustað á fréttir að undanförnu í fjölmiðlum og það hefur vakið athygli mína að stöðugt hafa verið að koma fram nýjar og nýjar fréttir af þeirri erfiðu stöðu sem Íslendingar eru komnir í varðandi fíkniefni og hversu óhugnanlegt það mannfall virðist ætla að verða í röðum æskumanna þessa lands sem fellur fyrir eiturlyfjum.

Það er eins og við sofum í þessum efnum og vöknum af og til við þegar okkur berast nýjar og nýjar fréttir. Samt er það svo að það skiptir máli hvort menn vilja skipa sér í þann hóp að reyna að hafa áhrif til þess að draga úr því böli sem áfengið veldur eða hvort menn ætla að fylkja sér með þeim sem telja að syngjandi fólk og bjórkrúsir sýni söguna alla þegar talað er um áfengi. Þeir menn hafa í það minnsta aldrei lesið kvæðið Einn sit ég yfir drykkju.