23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5599 í B-deild Alþingistíðinda. (4851)

472. mál, hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Það mál, sem nú er hér á dagskrá í Sþ., er tvímælalaust eitt hið merkasta og mikilvægasta sem fyrir þetta Alþingi hefur komið. Það er ekki ofmælt þótt sagt sé að það sé söguleg stund þegar löggjafarsamkoma þjóðarinnar veitir heimild sína til fullgildingar hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Með þeirri gjörð er farsæll endir bundinn á erfiða og áhættusama baráttu sem staðið hefur áratugum saman, baráttu um yfirráðarétt íslensku þjóðarinnar yfir fiskimiðunum og auðlindunum þar. Sú barátta átti sér raunar stað bæði á miðunum umhverfis landið en einnig í ráðstefnusölum Sameinuðu þjóðanna víða um heim þar sem fulltrúar Íslands áttu sinn ríka þátt í því að móta hinn nýja þjóðarétt hafsins.

Á báðum vígstöðvum var sótt og varist af djörfung og kunnáttu, hygg ég að megi segja. Í upphafi leiksins var landhelgin aðeins þrjár mílur, árið 1950. En það ár var fært út fyrir Norðurlandi í fyrsta sinn í 4 mílur. En þegar upp var staðið og hafréttarsáttmálinn undirritaður 1982 hafði fengist alþjóðleg viðurkenning á því að við ættum einir fiskimiðin í allri 200 mílna efnahagslögsögunni. Allan þennan tíma var landhelgismálið stærsta utanríkismál þjóðarinnar og því máli fylgdi sú gæfa að um það var þjóðarsátt og eindrægni en ekki þær deilur sem svo mjög setja að öðru leyti mark sitt á íslenska þjóðmálabaráttu,

Hér var líka til mikils að vinna. Með rányrkju fiskistofnanna var lífsgrundvelli þjóðarinnar ógnað og annar hver fiskur samkvæmt hagtölum var veiddur í vörpur erlendra togara. Með útfærslunni í 200 sjómílur árið 1975 var loks endir bundinn á þessa óheillaþróun. Sú útfærsla fiskveiðilögsögunnar, eins og hún var þá nefnd, en ekki efnahagslögsögu, sótti rök sín og réttarmátt ekki síst í starf hafréttarráðstefnunnar sem þá var allvel á veg komið. Fátt sýnir betur hve mikilvægt það skref var en að með 200 sjómílna útfærslunni stækkaði yfirráðasvæði okkar á hafinu umhverfis landið upp í 750 þús. ferkílómetra og er þess vegna nú sjö sinnum stærra en landið sjálft. Það er af þessum sökum sem ótvírætt má fullyrða að sá sáttmáli, sem við ræðum hér í dag, sé mikilvægasti alþjóðasamningurinn sem íslenska þjóðin gerist aðili að og jafnframt sá samningur sem torkleifast var að fá endanlega samþykktan.

Margir lögðu þar hönd á plóginn. Sérstök ástæða er til þess að minnast hér hins mikla og ágæta starfs íslensku sendinefndarinnar á hafréttarráðstefnunni allt frá upphafi árið 1973. Ég átti því láni að fagna að fylgjast með því starfi og þori þess vegna að fullyrða að þau ákvæði sáttmálans, sem mestu máli skipta fyrir okkur Íslendinga, bera að ýmsu leyti svipmót þessa íslenska starfs og þessa íslenska framtaks. Hér á ég fyrst og fremst við fimmta hluta sáttmálans þar sem er að finna ákvæði um efnahagslögsöguna og fiskveiðirétt strandríkja. Eftir mikið þóf varð endirinn sá að innan 200 sjómílna markanna ræður strandríkið þar eitt yfir auðlindum hafsins, ákveður þar sjálft sitt aflamagn, en um það stóð mjög mikil deila, og ræður því að hve miklu leyti það veitir öðrum þjóðum þær fiskveiðiheimildir. Í dag sýnist þetta sjálfsagt mál en var víðs fjarri að svo væri í upphafi.

Í þessu efni mætti nefna nöfn margra góðra manna sem hér lögðu hönd á plóginn. en hér skal aðeins einn maður nefndur sérstaklega, sá maður sem frá upphafi var formaður íslensku sendinefndarinnar á hafréttarráðstefnunni, Hans G. Andersen sendiherra. Leiðsögn hans og giftudrjúg forusta átti ríkan þátt í því að sjónarmið Íslendinga í þessum málum öllum hlutu svo mikið brautargengi á ráðstefnunni sem raun bar vitni.

Ég sagði áðan að þau ákvæði hafréttarsáttmálans sem langmestu máli skipta fyrir okkur Íslendinga væru fiskveiðiákvæði efnahagslögsögunnar. En jafnframt skiptir það miklu máli að allt landgrunnið innan 200 mílnanna fylgir hér með í kaupunum. Við eigum mikið verk að vinna við að kanna auðlindir þess. Ég hef með sérstakri þáltill. í Sþ. lagt til að rannsóknum á landgrunninu verði hraðað í samvinnu við erlenda rannsóknaraðila svo úr skugga verði gengið um það hvort hér finnist verðmæt jarðefni svo sem gas og olía. Auk þess liggur það ljóst fyrir skv. landgrunnsákvæðum sáttmálans að Íslendingar eiga réttinn til 350 mílna út frá landinu á Reykjaneshrygg. Það hefur enginn dregið í efa og um það þarf engar frekari yfirlýsingar að gefa en þegar hefur verið gert.

Um svæðin í suðurátt er sjálfsagt að eiga friðsamlegar viðræður við nágrannaþjóðir okkar sem þar gera kröfur til hafsbotnsréttinda svo sem kunnugt er. Þar er réttarstaðan hins vegar öll mjög óljós. Alla vega koma þar engin réttindi yfir fiskimiðunum til greina heldur aðeins til botnsvæða sem að mestu eru enn órannsökuð. Því máli er þó sjálfsagt að halda vakandi áfram eins og nú hefur verið nýlega gert með sérstakri reglugerðarútgáfu.

Í ná1. utanrmn. er réttilega á það bent að nauðsynlegt sé að gera fyrirvara, þegar sáttmálinn er fullgiltur, um það að öllum deilum, sem upp kunna að koma milli Íslands og annarra landa um hafsbotn og landgrunnsmörk, skuli vísa til sáttagerðar skv. 298. gr. en lúti ekki bindandi dómsúrlausn. Ég vil benda hér á að þessi fyrirvari þarf að vera víðtækari en hér er nefnt, en ég var fjarverandi erlendis þegar þessi fundur nefndarinnar var haldinn. Fyrirvarinn þarf einnig að ná til deilna sem upp kunna að koma um mörk efnahagslögsögunnar milli Íslands og annarra ríkja, sbr. 74. gr. En slíkt er einnig heimilað skv. sáttmálanum. Slíkur fyrirvari er ekki síður mikilvægur og þarf það mál að takast til meðferðar í utanrmn.

Í þessu sambandi má einnig minna á að þegar við höfum fullgilt þennan sáttmála er orðið tímabært að huga að þeirri lagasetningu á grundvelli hans sem enn skortir hér á landi. Um fiskveiðar hafa þegar verið sett fullnægjandi lög. En hins vegar bíður enn það verk að sett verði sérstök löggjöf um íslenska mengunarvarnarlögsögu á grundvelli ákvæða sáttmálans. Á því er augljós nauðsyn að takmarka sóknina í fiskstofnana svo sem við á hverju sinni. En í framtíðinni verður hitt einnig mikilvægt að tryggja að mengun og önnur skaðleg umhverfisáhrif spilli ekki vexti þeirra og viðgangi. Í rauninni leggur hinn nýi hafréttarsáttmáli okkur sem öðrum strandríkjum þær skyldur á herðar að gæta að þessu hvoru tveggja, að vernda auðlindir hafsins jafnframt því að nýta þær á sem skynsamlegastan hátt.