23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5601 í B-deild Alþingistíðinda. (4856)

507. mál, þróunaraðstoð Íslands

Frsm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Í vetur hafa málefni þróunarsamvinnu og þróunaraðstoðar Íslands verið til umræðu og umfjöllunar í hv. utanrmn. Hafa menn í þeim efnum horft til þess að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarlöndum eru nú langt fyrir neðan eða nær nífalt lægri en það mark sem velmegunarríki Sameinuðu þjóðanna hafa sett sér í þessum efnum. Á meðan svo er háttað um opinbera þróunaraðstoð einnar af ríkari þjóðum heimsins horfa menn til þess að stór hluti heimsins barna býr við sárustu örbirgð, að fátækt og eymd fer víða vaxandi og að sums staðar hefur skapast neyðarástand eins og á stórum landsvæðum Austur-Afríku. Við vitum einnig að framlög okkar til þróunarmála geta markað skilin milli lífs og dauða, milli örbirgðar og sjálfshjálpar fyrir þá sem í hlut eiga. Því hefur hv. utanrmn. sameinast um að láta ekki lengur við svo búið standa og lagt fram þá till. til þál. um þróunaraðstoð Íslands sem ég mæli hér fyrir. Að þessari till. standa allir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi Íslendinga og má því ljóst vera að með þessari till. er mörkuð stefna Íslendinga í nánustu framtíð hvað varðar opinber framlög til þróunaraðstoðar og einnig, eins og fram kemur í grg. með till., hvernig aðstoðinni skuli hagað sem er ekki síður mikilvægt. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að á næstu sjö árum skuli með reglubundinni aukningu framlaga náð því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjum verði 0.7% af þjóðarframleiðslu.“

Till. fylgir allítarleg grg. sem ég ætla að fara yfir, með leyfi forseta, því að í henni er að finna þann grundvöll sem hv. utanrmn. hefur orðið sammála um að byggja þessa till. á. Í grg. segir, með leyfi forseta:

„Það er sem kunnugt er markmið velmegunarríkja að leggja fram 1% þjóðarframleiðslu til þróunarstarfsemi í fátækari ríkjum heims, þ. e. 0.7% af opinberu fé og 0.3% á vegum samtaka og einkaaðila. Árið 1984 voru ríkisframlög Íslands til þróunaraðstoðar rúmar 72 millj. kr. eða 0.107% af áætlaðri þjóðarframleiðslu. Á árinu 1985 lækkar fjárhæðin um 3.2 millj. kr. í 68.9 millj. kr eða í 0.08% af áætlaðri þjóðarframleiðslu nema taldar séu með 8.3 millj. kr. niðurgreiðslur á mjólkurdufti er fór til neyðarhjálpar í Eþíópíu, sem er þó hæpið, en við það mundu heildarframlög opinberrar þróunaraðstoðar á árinu hækka í 77.2 millj. kr. eða 0.087% af þjóðarframleiðslu.“

Síðan kemur í grg. með till. hv. utanrmn. tafla sem sýnir það hlutfall af þjóðarframleiðslu sem varið hefur verið til þróunaraðstoðar af Íslands hálfu á tímabilinu 1974–1985. Eins og þar kemur fram hafa framlögin til þróunaraðstoðar lengst af verið innan við 0.1% af þjóðarframleiðslu með tveimur undantekningum. Fyrir árið í ár eru framlögin aðeins 0.8% eins og þarna kemur fram. Síðan segir í grg., með leyfi forseta:

„Þannig eru framlög hins opinbera í heild á þessu ári nær nífalt lægri en 0.7%-markið sem velmegunarríki innan vébanda Sameinuðu þjóðanna hafa sett sér að ná og það væri samkv. núverandi áætlun um þjóðarframleiðslu nálega 620 millj. kr.

Utanrmn. er eindregið þeirrar skoðunar að Ísland sem velmegunarríki eigi að taka vaxandi þátt í stuðningi við þróunarríki, en framlög Íslands hafa lítið aukist síðustu ár, sbr. framangreint yfirlit, þótt þm. úr röðum allra stjórnmálaflokka hafi lagt áherslu á að hækka framlög verulega.

Mikið skortir á að opinber framlög af Íslands hálfu séu sambærileg við framlög annarra norrænna þjóða. Danmörk, Noregur og Svíþjóð hafa fyrir mörgum árum náð áðurnefndu marki og Finnland stefnir að því að ná því á þessum áratug.“

Þessu fylgir tafla um framlög þessara ríkja til þróunarmála, en því næst er gerð grein fyrir því í grg. með till. hv. utanrmn. hvernig opinber framlög til þróunarsamvinnu skiptast á milli tvíhliða og fjölþjóðlegrar aðstoðar.

Þá kemur yfirlit yfir framlög landa innan OECD til þróunaraðstoðar og hafa menn þetta væntanlega fyrir framan sig. Síðan segir í grg ., með leyfi forseta:

„Þjóðartekjur á íbúa á Íslandi árið 1983 voru 9000 dollarar, en til samanburðar má nefna að árið 1982 voru árlegar þjóðartekjur á mann t. d. á Grænhöfðaeyjum 350 dollarar og í fjölda þróunarríkja svipaðar því.

Síðan fyrstu lög um þróunaraðstoð voru sett hér á landi árið 1971 hefur smám saman skapast traustari grundvöllur undir tvíhliða þróunaraðstoð. Nú gilda á þessu sviði lög nr. 43/1981. Samkvæmt þeim fer þróunarsamvinnustofnun Íslands með framkvæmd íslenskrar þróunarsamvinnu og starfar í tengslum við utanrrn. og er stjórn hennar kjörin af Alþingi. Aðalverkefni stofnunarinnar er þróunaraðstoð við Grænhöfðaeyjar í þeim tilgangi að efla fiskveiðar þar. Ekki hefur verið unnt að ráðast í nein ný verkefni um skeið vegna fjárskorts. Er mjög mikilvægt að Alþingi og ríkisstj. marki stefnu um vöxt þróunarframlaga næstu ár, svo að fyrir fram fáist um það nokkur vitneskja hvers vænta má og eðlilegur tími gefist til undirbúnings fyrir ný verkefni. Þess vegna hefur utanrmn. í kjölfar ítarlegra umræðna um þróunarsamvinnumál orðið ásátt um að leggja fram þáltill. þessa.“

Í hv. utanrmn. var nokkuð rætt um tilhögun þeirrar aukningar á framlögum sem hér um ræðir og eru þær hugmyndir sem fram komu þar reifaðar í síðasta kafla grg. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að því er varðar tilhögun þeirrar aukningar opinberra fjárframlaga til þróunarsamvinnu, sem hér er fjallað um, hefur einkum verið rætt um tvær aðferðir. Annars vegar að aukningin verði látin nema jafnri fjárhæð ár hvert á umræddu sjö ára tímabili, þ. e. um 77.4 millj. kr. árlega á föstu verðlagi miðað við óbreytta þjóðarframleiðslu. Hins vegar kemur til greina hækkun um jafnt hlutfall árlega sem þá þyrfti að vera 341/2 35% hækkun ár hvert fram til 1992. Síðari aðferðin felur í sér að hækkunin næmi lægri fjárhæðum fyrstu árin, þ. e. um 27 millj. kr. árið 1986 og rúmlega 36 millj. kr. árið 1987, miðað við núverandi áætlaða þjóðarframleiðslu og fast verðlag, en upphæðirnar færu hækkandi að krónutölu ár frá ári. Ef um alvarlegan samdrátt þjóðarframleiðslu yrði að ræða einhvern tíma á umræddu tímabili væri eðlilegt að taka tillit til þess.“

Einnig er í grg. fjallað um meginstefnu varðandi tilhögun aðstoðarinnar og um það segir hér, með leyfi forseta:

„Í sambandi við fyrirhuguð aukin framlög til þróunaraðstoðar þykir rétt að árétta þá meginstefnu að einkum skuli hafa hliðsjón af því þegar framlögum verður ráðstafað hvar neyð er mest og hvar tryggast má telja að aðstoð skili árangri, jafnframt því að aðstoðinni verði ekki dreift um of og kappkostað við framkvæmd aðstoðarverkefna að taka jafnan tillit til aðstæðna íbúa á hverjum stað.

Þá er það skoðun utanrmn. að beina beri auknum framlögum einkum að tvíhliða þróunarsamvinnu eða verkefnum sem Íslendingar geta séð um sjálfir. Sú reynsla, sem fengist hefur af rannsókna- og fiskiskipinu „Feng“, sérhönnuðu og smíðuðu hérlendis, á Grænhöfðaeyjum, er ný hvatning í þessa átt. Einnig hafa haslað sér völl íslensk ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki sem ráða nú þegar yfir umtalsverðri þekkingu og reynslu og leita sér nýrra verkefna, en vaxandi fjöldi Íslendinga hefur á síðari árum unnið í þróunarlöndum við margvísleg verkefni, þ. á m. eflingu fiskveiða og nýtingu jarðhita.

Þegar aðstoð er veitt tvíhliða er ríkið, sem hana lætur í té, miklu virkari aðili að allri framkvæmd. Það ræður því hvaða land skuli njóta aðstoðar, semur sjálft um efni og fyrirkomulag, leggur til mannafla, tækjabúnað og framleiðsluvörur eftir því sem heppilegast þykir o. s. frv. Með þessu móti er, jafnframt því að veita þurfandi þjóðum þróunaraðstoð, hægt að hlynna að eigin atvinnulífi, sérfræði- og ráðgjafarþjónustu og margs konar framleiðslustarfsemi, enda sé gætt þeirra sjónarmiða sem gilda þurfa um þróunarsamvinnu og fullt samráð haft við þá aðila er henni stjórna. Þetta auðveldar löndum oft að láta aðstoð í té og leiðir til þess að aðstoðin getur orðið meiri en ella.

Þá skapar þetta form aðstoðar margs konar grundvöll fyrir gagnkvæm kynni og víðtækara samstarf við þau þróunarríki sem aðstoðar njóta. Er nefndin þeirrar skoðunar að nánari samvinna sé æskileg og geti orðið til góðs á margan hátt.“

Herra forseti. Með þessum rökum leggur hv. utanrmn. þessa till. fyrir Alþingi Íslendinga og með þessum rökum leggur hún til að hún verði samþykkt. Verði till. samþykkt og henni framfylgt, sem vitaskuld skiptir öllu máli og sem tryggt verður að skoðast þar sem allir stjórnmálaflokkar á hv. Alþingi standa að henni, er hér um að ræða tímamót í aðstoð Íslendinga við fátækar og hjálparþurfi þjóðir heimsins. Með samþykkt og framkvæmd þessarar till. tækjum við stórt skref fram á við í þessum málum, skref sem orðið gæti þúsundum kvenna, karla og barna til lífsbjargar.

Það fer ekki á milli mála að neyð heimsins barna er mikil og það fer ekki heldur á milli mála að í þeim efnum hafa Íslendingar sínum skyldum að gegna sem þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Því er þessi till. hér fram borin og því er hér lagt til að hún verði samþykkt.