23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5614 í B-deild Alþingistíðinda. (4862)

496. mál, stefna Íslendinga í afvopnunarmálum

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi voru lagðar fram fimm tillögur til þál. um afvopnunarmál. Tillögurnar voru nokkuð mismunandi og tóku á ýmsum ólíkum þáttum þessa yfirgripsmikla málaflokks. Allar endurspegluðu þær þó þá víðtæku og vaxandi umhugsun og umr. sem orðið hefur um þessi mál hérlendis og erlendis. Utanrmn. ákvað að skipa undirnefnd á sínum vegum þar sem fulltrúar allra flokka og samtaka ættu sæti og hefðu það verkefni að reyna að samræma þessar tillögur og taka tillit til meginefnisþátta þeirra þannig að úr yrði ein tillaga. Voru bundnar vonir við það að nefndarmenn mættu þrátt fyrir ólík sjónarmið finna sameiginlegan meðalveg þannig að Alþingi mætti lýsa yfir eindreginni stefnu í afvopnunarmálum. Þrátt fyrir góða viðleitni og drjúgar fundarsetur tókst mönnum ekki að rata á sameiginlega lausn málsins enda tilraun þessi gerð í þinglok og því naumur tími og mikið annríki. Má segja að einungis hafi vantað herslumuninn að samstaða næðist fyrir þinglok.

Á þessu þingi sem nú lifir hafa svo verið lagðar fram fjórar till. til þál. um afvopnunarmál, þ. e. um frystingu kjarnorkuvopna frá þm. Kvennalista, brtt. við þá till. frá þm. Alþb., till. til þá1. um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar frá þm. Sjálfstfl. og till. til þál. um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum frá þm. allra flokka og síðan till. til þál. um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði frá þm. fjögurra flokka þar sem 1. flm. er Guðrún Helgadóttir.

Þarna er bæði um endurflutning að ræða á áður fluttum tillögum og líka nýjar tillögur. Það varð úr að undirnefnd á vegum utanrmn. tók að sér sama hlutverk og á síðasta þingi, þ. e. að halda áfram að leita samstöðu í þessum efnum. Eftir nokkra fundi, mikla viðleitni og góðan vilja tókst að ná samstöðu um málið og er árangur hennar sú till. til þál., um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum, sem hér er lögð fram til umr. frá hv. utanrmn.

Um leið og ég fagna þessum árangri vil ég þakka samnm. mínum í undirnefnd, þeim Kjartani Jóhannssyni og í forföllum hans Karli Steinari Guðnasyni, Hjörleifi Guttormssyni, Haraldi Ólafssyni, Birgi Ísl. Gunnarssyni, Kristínu S. Kvaran og í forföllum hennar Guðmundi Einarssyni fyrir gott samstarf. Sá áfangi, sem náðst hefur með flutningi slíkrar sameiginlegrar till., er umtalsverður og mun sannarlega þykja eftirbreytni verður. Till. er að sjálfsögðu málamiðlun og væntanlega ekki óskaniðurstaða neins, en það var auðsætt frá upphafi vega að allir yrðu að láta nokkuð af sínum hlut. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með þann góða vilja sem nm. sýndu í viðleitni sinni til að reyna að ná saman og má með sanni segja að menn hafi teygt sig hver í átt til annars. Það ber að leggja áherslu á það sem sameinar fremur en það sem sundrar.

Það er mönnum vanalega fagnaðarefni að eiga blæbrigðaríkt tungumál. Þó getur slíkt vafist fyrir við samningagerð þar sem túlkun á gildi og þýðingu orða skiptir meginmáli og miklu varðar að velja orðalag sem allir sætta sig við. Það hefur tekist í þetta sinn og því ber að fagna því að orð eru til alls fyrst.

Ég vil ekki eyða tíma fundarins í að reifa efnisatriði þessarar þáltill. því að það hefur þegar verið gert ítarlega af báðum ræðumönnum sem á undan mér hafa talað. En að sjálfsögðu má búast við því að fulltrúar hinna ýmsu sjónarmiða, sem að till. standa, muni túlka þessa till. nokkuð misjafnlega. En væntanlega sjá menn sóma sinn í því að gæta hófs í þessum efnum og virða það samkomulag sem gert hefur verið.

Þáltill., þó samþykkt verði, er að sjálfsögðu ekki lög. Hins vegar hefur slík þáltill. siðferðilegt gildi og getur þannig orðið þeim utanrrh. og þeim stjórnvöldum sem sitja á hverjum tíma mikill stuðningur og jafnframt aðhald. Það yrði afdrifaríkt skref fyrir annaðhvort utanrrh. eða stjórnvöld að brjóta gegn yfirlýstum vilja Alþingis og þar með Íslendinga, t. d. með því að leyfa staðsetningu kjarnorkuvopna í íslenskri lögsögu.

Sá áfangi, sem hér hefur náðst, ber vitni um það að hugskot manna eru nú opnari en áður og menn eru að verða sér æ meira meðvitaðir um það að velferð okkar allra byggist á því að farsæl lausn fáist sem fyrst í afvopnunarmálum. Þessi áfangi er skref og aðeins skref á leið okkar Íslendinga til þess að sýna að lítil þjóð getur með eindrægni og hugrekki gefið öðrum þjóðum gott fordæmi. Við getum ekki síður en aðrar þjóðir vísað veginn út úr villum vígbúnaðar og hernaðarhyggju. Því á rödd Íslands ævinlega að hljóma í þágu friðar, frelsis og lífs.

Ég vil að lokum hvetja alla hv. þm. til að samþykkja þessa till.