23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5616 í B-deild Alþingistíðinda. (4864)

496. mál, stefna Íslendinga í afvopnunarmálum

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Það er vissulega merkisviðburður að fram skuli koma till. frá fulltrúum allra stjórnmálaflokka um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum. Ég held að þessi till. marki vissulega tímamót og ekki bara að því leyti að samkomulag náðist milli flokkanna heldur einnig hve mikill vilji var hjá öllum að ná þessu samkomulagi.

Vissulega eru skiptar skoðanir um ýmis atriði. Það er einnig vafalaust hægt að deila um túlkun á einstökum atriðum sem hér koma fyrir. En meginatriðin eru þó skýr og þau markmið, sem stefnt er að, eru hin sömu, þ. e. hvernig Íslendingar geta að sínu leyti stuðlað að friði, stuðlað að afvopnun, stuðlað að betra samkomulagi meðal þjóða.

Það hefur þegar verið gerð svo ítarleg grein fyrir þessari þáltill. að ég ætla ekki að fara að ræða einstök atriði hennar eða hvernig hún varð til. Ég vil einungis þakka meðnm. mínum fyrir ágætt starf, skemmtilegt samstarf og þann bjartsýna vilja til samkomulags sem réði ferðinni.

Hér eru þó atriði sem ég held að við hljótum að verða að byggja talsvert á og ég vil sérstaklega taka undir það sem segir hér um frystingu kjarnavopna og alhliða afvopnun sem fari fram undir traustu eftirliti. Ég held að það sé meginatriði að þjóðir heims takmarki vígbúnað sinn á þann hátt að það sé gert með samkomulagi þar sem einhliða ákvarðanir geta aldrei leitt til þess að jafnvægi haldist. Síst af öllu getum við Íslendingar hvatt einn né neinn til einhliða afvopnunar. Við erum jú vopnlaus þjóð og við höfum engan rétt til að segja annarri þjóð hvernig hún eigi að hegða sér í þeim málum. Við getum einungis hvatt til þess að leitað verði samkomulags milli þjóða og helst þó á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að dregið verði úr vígbúnaði.

En það er eitt sem við getum gert. Við getum ráðið því hvaða vopnabúnaður er hér á landi. Um það eru ótvíræð ákvæði í varnarsamningi okkar við Bandaríkin. Það dregur enginn í efa að það sé Íslendinga sjálfra að ákveða hver viðbúnaður sé hér á landi í sambandi við varnir landsins og öryggi þess og hvaða búnað herliðið hér hefur. Það er því geysimikilvægt að það sé gert lýðum ljóst að það er vilji Alþingis Íslendinga að hér skuli ekki vera kjarnavopn. Það er ótvíræð yfirlýsing Íslendinga, ef þessi till. verður samþykkt, að hér skuli ekki vera staðsett kjarnavopn. En það efar enginn að utanrrh. hafi með alla framkvæmd varnarsamningsins að gera, en Alþingi hefur lokaorðið.

Eins og fram hefur komið er þál. ekki lög. En þál. er yfirlýsing um vilja þingsins, hún er yfirlýsing um vilja Íslendinga og hún hlýtur því að vera siðferðileg stoð fyrir ríkisstj. í samskiptum við önnur ríki.

Við viljum einnig með þessari yfirlýsingu vinna að því að samkomulag náist um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu. Það er að vísu kannske í óravíðri framtíð, en markmiðið hlýtur að vera að við af okkar hálfu vinnum að því að kjarnorkuvopnalaus svæði verði sem víðast á hnettinum og við hljótum að byrja í nágrenni okkar. Við byrjum á okkur sjálfum, síðan erum við tilbúnir að taka þátt í hugsanlegum viðræðum um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum og látum í ljós þá von að slíkar umr. geti verið liður í enn þá víðtækari umr. um kjarnorkuvopnalaus svæði.

Þessi ályktun ef samþykkt verður er ótvíræð viljayfirlýsing um að Íslendingar skuli vinna að málum á þennan hátt. Ég vil sérstaklega að lokum benda á síðustu mgr. till. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt ályktar Alþingi að fela öryggismálanefnd, í samráði við utanrrh., að taka saman skýrslu um þær hugmyndir sem nú eru uppi um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, einkum þær sem máli skipta fyrir Ísland með hliðsjón af legu landsins og aðild þjóðarinnar að alþjóðlegu samstarfi. Á grundvelli slíkrar skýrslu verði síðan leitað samstöðu meðal stjórnmálaflokkanna um frekari sameiginlega stefnumörkun í þessum málum.“

Hér er beinlínis hvatt til þess að stjórnmálaflokkarnir haldi áfram að leita samkomulags, leitist við að hafa samráð sín í milli um mörkun stefnu. Þetta er merkileg yfirlýsing og ég held að þetta sé ekki hvað síst það sem gerir þessa þáltill. mikilvæga. Það er von mín að Alþingi samþykki þessa till. og gefi þar með ríkisstj. og þjóðinni veganesti í viðræðum við aðrar þjóðir um þessi mál og sé jafnframt boð frá okkur Íslendingum um vilja okkar til afvopnunar, vilja okkar til að stuðla að því að dregið verði úr spennu í okkar heimshluta.