23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5620 í B-deild Alþingistíðinda. (4867)

496. mál, stefna Íslendinga í afvopnunarmálum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég þakka utanrmn. starf hennar og ekki síst formanni hennar sem lagt hefur kapp á að afgreiða þessar tillögur úr nefndinni. Það hafa verið samræmdar fjórar tillögur, soðnar fjórar í eina, og þar sem ég var fyrirsvarsmaður einnar þessara tillagna, sem ég flutti ásamt fulltrúum úr öllum öðrum stjórnmálaflokkum, sé ég ástæðu til að taka hér til máls.

Flest það sem var í okkar till. er komið hér inn í tillgr. Ég hefði reyndar gjarnan viljað sjá öll atriði úr okkar till. endurborin. Eitt þeirra, nokkuð mikilvægt, vantar, en tvö þau mikilvægustu eru hér og þeim ber að fagna.

Ég nefni fyrst könnun á hugsanlegri þátttöku Íslands í umræðum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Utanrmn. tekur að sér að kanna hugsanlega þátttöku okkar í umræðum um þetta kjarnorkuvopnalausa svæði. Í okkar till. var að vísu lagt til að kosin yrði sérstök nefnd, en ég treysti utanrmn. vel til þess að vinna þetta verkefni og ég fagna því að vissu leyti að hún skuli taka þetta að sér. Ég hygg að utanrmn. okkar ætti að taka upp miklu nánara samstarf við utanrmn. hinna Norðurlandanna, hef reyndar hreyft því á a. m. k. tveimur þingum Norðurlandaráðs að svo yrði gert. Utanrmn. Norðurlanda ættu að hafa með sér nánara samstarf en nú er. Skv. samþykktum Norðurlandaráðs ræða menn ekki svo mjög utanríkis- eða varnarmál, enda fylgja þjóðirnar ólíkum stefnum að vissu leyti. Sumar eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu, sumar fylgjandi hlutleysi og búa við ólík skilyrði. En ég hygg að einmitt samvinna utanríkismálanefndanna gæti verið mjög mikilvæg. Og ég er reyndar einnig meðflm. að till. í Norðurlandaráði sem fyrrv. utanrrh. Finnlands, Pär Stenbäck er 1. flm. að og er til meðferðar í Norðurlandaráði núna um að gera úttekt á því hvernig Norðurlönd geti öflugast komið fram gagnvart umheiminum og látið sem best af sér leiða.

Þessi könnun utanrmn. getur verið upphaf að útvíkkun á norrænu samstarfi og því ber að fagna. Raunar hygg ég að aðrar þingnefndir gætu líka ýmislegt af grönnum okkar lært og ættu gjarnan að hafa sjálfstæðara samband við hliðstæðar nefndir í þjóðþingum annarra Norðurlanda.

Ég tel þó mikilvægast í þessari till. að hér er komin formleg árétting Alþingis á stefnu Íslendinga að hér séu ekki staðsett kjarnorkuvopn. Ég hygg að Alþingi hafi aldrei gert formlega samþykkt um að framfylgja þessari stefnu þó að hún hafi verið opinber stefna stjórnvalda á Íslandi í langan tíma og þess vegna held ég að þetta sé mjög mikilvæg samþykkt og gleðilegt og ánægjulegt spor sem við stígum hér.

Ég er einnig samþykkur öðrum atriðum sem fram koma í till. utanrmn. og ég árétta þakkir mínar til formanns n. og þeirra nm. annarra sem unnu þetta góða verk að koma hér samkomulagstillögu til samþykktar.