23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5621 í B-deild Alþingistíðinda. (4868)

496. mál, stefna Íslendinga í afvopnunarmálum

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti.

Ég sé ástæðu til að lýsa ánægju minni með þá samstöðu sem náðst hefur hér á hinu háa Alþingi um þetta mikilvæga mál. Það er að vísu rétt, sem hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði áðan, að margir líta svo á að smáþjóð eigi lítið erindi í þá umræðu sem fer fram um afvopnun, en svo er ekki. Smáþjóð á ekki aðeins erindi í þá umræðu, heldur ber jafnvel smæstu þjóð skylda til að leggja sitt af mörkum til þess að horfið verði frá því vígbúnaðarkapphlaupi sem því miður hefur átt sér stað lengi. Mér sýnist þessi till. ákaflega mikilvæg í þeim tilgangi. Með slíka till. og samþykkt að baki eiga fulltrúar Íslendinga, hvar sem þeir tala, hvort sem það er hæstv. utanrrh. eða aðrir á opinberum vettvangi, að geta talað sömu tungu. Þetta skapar okkur grundvöll til þess að hafa þó nokkur áhrif.

Ég get ekki heldur annað en fagnað því að menn eru sammála um að árétta þá stefnu sem hér hefur ríkt í þessum málum og satt að segja finnst mér vera deilt um keisarans skegg þegar um það er rætt, sem forustumenn hafa hygg ég ætíð sagt, að hér verði ekki staðsett kjarnorkuvopn án samþykkis íslenskra stjórnvalda. Ég vona að aldrei komi til þess svo að íslensk stjórnvöld finni sig knúin til að samþykkja slíkt og mér dettur aldrei í hug að íslensk stjórnvöld, hver sem þau eru, mundu samþykkja slíkt án þess að hafa meiri hl. Alþingis tryggan að baki. Þannig hlyti það vitanlega ætíð að koma til kasta Alþingis á einn eða annan máta ef slíka ákvörðun yrði að taka sem ég vona að verði aldrei. Hér er að sjálfsögðu áréttaður sjálfsákvörðunarréttur okkar Íslendinga í þessum málum.

Ég vil einnig fagna þeirri nýju hugmynd, sem hér kemur fram, að kjarnorkuvopnalaust svæði verði um Norður-Evrópu. Það er ákaflega merkileg hugmynd og reyndar kannske sú eina sem vit er í þegar menn tala um kjarnorkuvopnalaus svæði. Ég fylgi því sannarlega að kannað sé hvort rétt sé að koma upp kjarnorkuvopnalausu svæði um Norðurlönd, bæði á landi, lofti og í hafi og það er ákaflega mikilvægt að hafið sé með, en í raun og veru þarf slíkt svæði að vera miklu stærra. Ef þetta gæti orðið framlag til umræðu um afvopnun höfum við Íslendingar lagt þar töluvert af mörkum. Ég er sammála því, sem í þessu felst, að þetta þyrfti að vera stórum stærra svæði en menn hafa talað um. Reyndar hef ég ætíð sagt að smærri svæði þurfi að vera áfangi að öðru stærra.

En í raun og veru held ég að lykillinn að árangri í þessu öllu felist í þeirri setningu að leitað verði allra leiða til þess að draga úr spennu og tortryggni milli þjóða. Ég hygg að þetta sé það sem stendur í vegi fyrir árangri. Mér dettur satt að segja ekki í hug að stórveldi ætli sér að varpa kjarnorkusprengju á annað stórveldi. Ég tel að svo ljóst sé að það mundi leiða til tortímingar. Ég held að það sé fyrst og fremst tortryggnin sem veldur því að árangur næst ekki. Ef við getum stuðlað að því að dragi úr spennu og tortryggni þá er mjög mikilvægt skref stigið.

Ég stóð upp til að lýsa sérstakri ánægju minni með þá samstöðu sem felst í þessar till. í mjög mikilvægu máli, ekki síst fyrir smáþjóð.