23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5621 í B-deild Alþingistíðinda. (4869)

496. mál, stefna Íslendinga í afvopnunarmálum

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi gerðist ég meðflm. að till. til þál. sem fjallaði um afvopnunarmál. Í þeirri tillögu fólst einkum tvennt.

Annars vegar það að staðfesta þá stefnu Íslendinga að hér skyldu aldrei staðsett kjarnorkuvopn og hins vegar að Íslendingar könnuðu hvort ekki væri rétt af þeirra hálfu að taka þátt í umræðum um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Þessi tillaga var umdeild og mætti nokkurri tortryggni, eins og reyndar ýmsar fleiri tillögur sem gengið hafa ýmist lengra eða skemmra varðandi afvopnunarmál.

Í þeirri tillögu sem hér er lögð fram af hálfu utanrmn. er tekið undir og raunar samþykki það sem var innihald þeirrar tillögu sem ég gat um áðan og ég var meðflm. að, þ. e. að Alþingi áréttaði þá stefnu Íslendinga að hér skyldu ekki staðsett kjarnorkuvopn og enn fremur að könnuð yrði í samráði við utanrrh. hugsanleg þátttaka Íslands í frekari umræðum um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.

Að þessu leyti hefur hæstv. utanrmn. haft forgöngu um það að staðfesta og taka undir þau sjónarmið sem fram komu í þeirri tillögu sem ég hef verið að skýra frá og fagna ég því að sjálfsögðu. Ég lít svo á að sú tillaga hafi átt þátt í því og stuðlað að því að samkomulag hefur orðið í utanrmn., enda þótt ég ætli mér ekki það hlutverk að hafa ráðið úrslitum í því samkomulagi. Og vitaskuld skiptir minnstu máli hvað mér finnst um það eða hvort mínar hugmyndir eða skoðanir hafi náð fram að ganga eða ekki. Aðalatriðið er auðvitað að Alþingi hefur sameinast um gagnmerka tillögu.

Það er þrennt sem þessi tillaga felur í sér og skiptir máli. Það er í fyrsta lagi að árétta þá stefnu að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn. Í öðru lagi er undirstrikað að brýna nauðsyn beri til að þjóðir heims geri með sér samning um gagnkvæma alhliða afvopnun. Og í þriðja lagi er lagt til að samþykki verði að Íslendingar verði þátttakendur í umræðum annarra þjóða um kjarnorkuvopnalaus svæði.

Sannleikurinn er sá að í allt of langan tíma hafa Íslendingar deilt um afstöðuna til afvopnunar og utanríkismála. Það sannast með flutningi þessarar tillögu að það er stutt flokka í milli í ágreiningsmálum þegar allt kemur til alls. Ég hef stundum hér á þinginu í vetur verið að skammast út í þingflokkana fyrir hrossakaup og samtryggingu og baktjaldamakk sem ég hef litið svo á að hefði að mörgu leyti neikvæðar afleiðingar og væri til skaða í pólitíkinni. En ég verð þá um leið að taka það fram núna að samráð milli þingflokka getur stundum leitt til góðs. Þessi tillaga hefur vissulega leitt til samkomulags sem er afar jákvætt í hinni stjórnmálalegu umræðu hér á landi. Ég fagna þeirri niðurstöðu.

Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri til að þakka utanrmn. og formanni hennar fyrir tillöguna og ég óska þingflokkunum til hamingju með að hafa náð saman í þessu máli. Það getur vel verið að það hafi ekki mikla þýðingu í þróun afvopnunarmála á alþjóðavettvangi hvað Íslendingar segja eða samþykkja, en það hefur vissulega ómetanlega þýðingu að við sjálfir sameinumst um stefnu og skoðanir og leggjum þannig okkar litla lóð á vogarskálarnar til að stuðla að friði og afvopnun í heiminum.