23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5625 í B-deild Alþingistíðinda. (4871)

496. mál, stefna Íslendinga í afvopnunarmálum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs einvörðungu vegna eins atriðis í sambandi við þá umr. sem hér hefur farið fram og þá sérstaklega af hálfu hæstv. utanrrh. og raunar einnig með vísan til orða hæstv. forsrh. hér áðan, þ. e. það orðalag till. sem hér liggur fyrir þar sem Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn. Ég greindi frá því í máli mínu hér áðan að það væri engin tilviljun að þetta er orðalag till. og þar er ekki tekið inn í till. neitt orðalag sem áskilur leyfi stjórnvalda þar að lútandi. Ég tel nauðsynlegt, vegna þess sem hér hefur komið fram frá hæstv. utanrrh. að það liggi alveg fyrir að óskum um það að taka slíkt orðalag inn í till. var hafnað. Þess vegna er till. eins og hún liggur hér fyrir og á það var sæst.

Hér er að sjálfsögðu ekki um það að ræða að við afsölum okkur sjálfsákvörðunarrétti, síður en svo. Við hljótum að halda honum til haga í öllum greinum, en hér er það Alþingi sem er að álykta í mikilvægum málum og hér er það spurning um vilja þingsins. Framkvæmdavaldið verður samkv. okkar stjórnskipan að gera það upp við sig hverju sinni hvort það virði þann vilja. Þingið hlýtur að leggja á það áherslu af sinni hálfu að svo sé og það gildir ekki síst í stórum málum eins og þeim sem hér eru til umræðu.

Ég vil ekki trúa því að neinn íslenskur ráðh., neitt íslenskt stjórnvald, gangi nokkru sinni svo langt að fallast á það að til Íslands yrðu flutt kjarnavopn, nema það lægi þá alveg skýrt fyrir áður en ákvörðun væri tekin hver væri vilji Alþingis. Annað væri í ósamræmi við þá til1. sem hér liggur fyrir.