23.05.1985
Efri deild: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5630 í B-deild Alþingistíðinda. (4884)

437. mál, almenn hegningarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Frv. það til breytinga á almennum hegningarlögum sem hér kemur til hv. Ed. fjallar að meginefni til um úttekt refsingar, en einnig um ýmsa aðra þætti hegningarlaga, svo sem hámark fésekta.

Um einstakar greinar frv. skal þetta tekið fram:

2. gr. geymir nýmæli sem kveður á um hvernig staðið skuli að handtöku á mann sem á að fara í afplánun refsivistar. Er lagt til að þetta ákvæði verði sett til að taka af tvímæli um handtökuheimildina.

Í 3. gr. eru tvö nýmæli. Lagt er til að rýmkaðar verði heimildir til að senda fanga til vinnu og náms utan fangelsis og einnig er lagt til að heimilað verði að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis til að hann geti haldið sambandi sínu við fjölskyldu og umhverfi sitt. Er slíkt leyfi ætlað til þess að fanginn eigi auðveldara með að aðlagast samfélaginu að nýju að lokinni úttekt refsingarinnar.

4. gr. fjallar um reglur varðandi reynslulausn úr fangelsi. Eru þar lagðar til nokkrar breytingar á núgildandi reglum. Lagt er til að ekki verði veitt reynslulausn á styttri dómum en tveggja mánaða refsivist og eftirstöðvar verði aldrei skemmri en 30 dagar.

Í 6. gr. er lagt til að orðalag 47. gr. hegningarlaganna verði skýrara um hvaða agaviðurlögum megi beita í fangelsum, án þess að um meginbreytingu sé að ræða.

Í 7. gr. er lagt til að hámark fésektar verði nú hækkað úr 1 millj. kr. í 4 millj. Er óþarft að fjölyrða um nauðsyn þess að sektir fylgi verðlagsþróun.

Ákvæði 8. gr. eru sama eðlis. Lagt er til að fjárhæð varðandi fyrningarákvæði verði breytt vegna verðlagsþróunar.

Í 9. gr. er lagt til að refsilágmark verði fellt niður þannig að unnt sé að dæma í skemmri refsivist en sex mánuði ef fangar sammælast um að strjúka.

Í 10. gr. er lagt til að felld verði úr gildi 180. gr. hegningarlaganna sem geymir ákvæði sem telja verður að ekki samrýmist nútíma þjóðfélagsaðstæðum, en í greininni segir að fangelsa megi þann sem ekki sinnir framfærsluskyldu sinni gagnvart fjölskyldu eða sjálfum sér og neitar vinnu sem honum er vísað á.

Í 11. gr. eru lagðar til tvær breytingar á 2. málsgr. 256. gr. Í fyrsta lagi verði greinin gerð virk með því að hækka viðmiðun úr 30 kr. í 7 þús. kr. og í öðru lagi er lagt til að málshöfðunarreglum greinarinnar verði breytt þannig að almennir hagsmunir ráði um ákæru en ekki krafa þess sem misgert var við.

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn. og vænti þess að það fái greiða afgreiðslu, en hv. Nd. hefur þegar afgreitt málið óbreytt eins og það var lagt fram.