24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5654 í B-deild Alþingistíðinda. (4915)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið rætt allítarlega í hv. iðnn. og menn eru sammála um að samþykkja þetta. Ég hef þó skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og gerði reyndar ekki ráð fyrir því að þetta mál yrði tekið hér til umr. á þessum fundi, hafði ekki búið mig undir það að ræða um þann þátt mála sem ég hefði ætlað mér að benda á, m. a. vegna þess að gögn, sem send voru hingað í þingið, hafa ekki komið enn þá til n. Stjórnarformaður Þörungavinnslunnar, Vilhjálmur Lúðvíksson, sagði mér að hann hefði sent hingað skýrslu þá er flutt var á aðalfundi fyrirtækisins. Ég hafði hug á því að áður en þetta mál yrði afgreitt hér að fullnustu hefði maður aðstöðu til að líta á hana. Að öðru leyti lýsi ég yfir samþykki mínu við málið, en ég mundi óska eftir því að það yrði ekki gengið frá því að fullu við þessa umr.