24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5655 í B-deild Alþingistíðinda. (4916)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Eins og þegar hefur komið fram var þetta mál til allnokkurrar umfjöllunar í iðnn. Á okkar fund kom Vilhjálmur Lúðvíksson og veitti okkur ágætar upplýsingar í þessu máli. Það er alveg ljóst að þessi málsmeðferð sem hér er viðhöfð er ekki beinlínis fyrir frumkvæði og á grundvelli frumkvæðisóska heimamanna. Hins vegar er það laukrétt, sem fram hefur komið, að fyrirtækið er í raun gjaldþrota. Til þess að bjarga atvinnumálum heima fyrir með tilliti til þess að þarna vinna milli 20 og 30 manns sjá heimamenn sér þann kost vænstan og raunar óumflýjanlegan að leitast við að halda þessu fyrirtæki gangandi áfram.

Það er alveg ljóst að það verður tap, eftir því sem spár herma, á fyrirtækinu um nokkur næstu ár þrátt fyrir það að ekki þurfi að standa undir endurgjaldi af fjármagni. Ég segi þetta alls ekki vegna þess að ég hræðist svo mjög að heimamenn standi sig ekki í þessum rekstri. Hins vegar kom það fram á fundi iðnn. ekki síst af hálfu formanns stjórnarinnar, þ. e. Vilhjálms Lúðvíkssonar, að hann óttaðist að fyrir hvoru tveggja, vöruþróunar- og markaðsmálum, yrði ekki nógu vendilega séð. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að að þessu verði hugað þegar til samninga kemur. Ekki svo að skilja að ég ætlist til þess að það verði haldið í höndina — ef ég má svo að orði komast — á heimamönnum of lengi varðandi þennan rekstur. Auðvitað koma þeir til fullrar ábyrgðar um hann.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Það varð samstaða um þetta mál í iðnn. Rekstur fyrirtækisins hefur gengið vægast sagt mjög illa undanfarin ár. Ég vil að lokum segja þetta: Ég vona satt að segja að heimamönnum takist betur upp en þeim aðilum sem hingað til hafa rekið þessa verksmiðju. Ég ætla að vonast til þess að fyrirtækið verði rekið áfram af myndarskap og þegar tímar líða fari það að skila einhverjum arði.