05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

129. mál, umferðarlög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ekki kem ég hér upp til að andmæla þessu frv., síður en svo. Ég kem hér aðeins upp vegna umhugsunar sem hefur á mig leitað varðandi þetta mál í heild, spurningar sem ég hef veli afar mikið fyrir mér í ljósi ýmissa atburða sem gerst hafa og ég þekki til í þessum efnum. Ég tek undir það að öll mál sem geta skapað aukið öryggi í umferðinni, allt sem getur forðað þeirri miklu vá sem þar er á ferðinni er af hinu góða. Ég er sannfærður um að þetta mál er eitt af þeim. Þetta er einn þáttur þess stóra máls sem stundum er kölluð umferðarmenning okkar, en ætti kannske frekar að kalla umferðarómenningu. Maður sér daglega dæmi um hana, nú síðast á leið minni niður í Alþingi, sorgleg dæmi um að enginn réttur var virtur og aðeins hrein mildi að ekki varð af stórslys. Þannig horfir maður á þessa hluti æ ofan í æ.

Þetta mál hefur ekki verið deilumál hér í Ed. eins og 1. flm. tók fram. Ég man að þegar það var fyrst til umr. hvort ætti að lögleiða bílbeltin þá voru aðeins tveir hv. dm. hér sem sátu hjá. Ég var annar þeirra og hitt var virðulegur forseti þessarar deildar. Ekki stafaði það af andstöðu okkar heldur ýmsu sem við létum koma fram í þeim umr. Ég lýsi því enn þá yfir að svo sannfærður sem ég er um gildi bílbeltanna í akstri hér í þéttbýlinu og svo sannfærður sem ég er um gildi þeirra einnig við árekstra úti á þjóðvegunum, ef þeir koma til, þá verð ég að játa að enn þá er í huga mér nokkur efi varðandi útafkeyrslur sem verða úti á landi. Ég er hins vegar sannfærður um að langoftast eru bilbeltin af hinu góða.

Ég tel hins vegar rétt og skylt að geta um tvö nýleg atvik úr mínu nánasta nágrenni, þar sem það bjargaði ótvírætt lifi bifreiðarstjórans að vera ekki í bílbelti. En þetta eru vitanlega einstök tilfelli. Ég gæti líka nefnt hin hörmulegri tilfelli þar sem bílbelti hafa ekki verið notuð og það hefur valdið banaslysum. Ég er því ekki að segja þetta til að gera lítið úr þessu máli, síður en svo. Ef við setjum lög um að bílbelti skuli vera í bílum, þá á vitanlega að setja viðurlög við því að brjóta þau lög. En ég nefndi bara eitt dæmi sem gerðist núna fyrir réttri viku síðan í næsta nágrenni mínu. Þar ók ungur drengur út af rétt upp í hamravegg og kastaðist út úr bílnum nokkrum augnablikum áður en bíllinn slóst upp að hamraveggnum. Hann slapp með handleggsbrotið eitt. Þeir sem sáu þennan bíl segja mér að það hefði verið gjörsamlega útilokað að hann hefði komist lífs af úr bílnum ef hann hefði verið í honum alveg á fararenda.

En ég get líka nefnt hörmulegt dæmi um það að drengur, sem kastaðist út úr bíl, varð undir bílnum og lést af þeim ástæðum hefði trúlega sloppið ef hann hefði verið í bílbelti miðað við ásigkomulag bílsins þegar að honum var komið.

Ég er þess vegna enn á þeirri skoðun að þó að við eigum að herða allan áróður fyrst og fremst fyrir bættri umferðarmenningu hjá okkur, þá eigum við að líta á þessi undantekningartilfelli varðandi landsbyggðarkeyrsluna alveg sérstaklega, útafkeyrsluna alveg sér í lagi. Enn þá vil ég sem sagt vara við því að hafa uppi allt of einhliða áróður fyrir því að bílbelti geti í öllum tilfellum bjargað. Ég veit að það verður aldrei fyrir öllu séð, en ég vildi aðeins koma þessari athugasemd enn á framfæri að gefnum tveimur tilefnum nýlega sem maður getur ekki annað en sagt frá hér þegar slík mál eru til umr.