24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5660 í B-deild Alþingistíðinda. (4932)

86. mál, áfengislög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég reikna með því að hv. 1. flm. frv. þessa í Nd. hafi ekki óskað eftir því að neinn skoðanabróðir sinn mælti fyrir þessu máli hér heldur færi það sem skjótast til nefndar. Ekki skal ég tefja þann vilja hv. bjórgoða Nd. að það fari hér til nefndar hið skjótasta. Það er ekkert á móti því að það gerist.

Við erum á býsna óvenjulegri tíð að ræða þetta mál hér. Fólkið í landinu er áreiðanlega undrandi þegar það virðir fyrir sér helstu áhugamál Alþingis á þessu yfirstandandi þingi, að ég ekki segi hneykslað. Ég veit ekki um öllu málefnasnauðara þing af hálfu þeirra sem málum stjórna. Þó lýsir hæstv. forsrh. því yfir hér í þessum ræðustól að þyngstu áhyggjur hans séu af þjóðarbúinu sjálfu og afkomu þess, erlendri skuldasöfnun og vaxandi viðskiptahalla. Stjórnarandstaðan lýsir neyð hinna fjölmörgu sem nú eru að sligast undan oki vaxta og verðtryggingar. Aldraðir og öryrkjar í landinu basla við að ná saman endum fyrir brýnustu þörfum sínum. Láglaunafólkið erfiðar án afláts en sér aðeins sortann fram undan í afkomu sinni og öryggi. Landsbyggðarfólk sér fram á yfirvofandi byggðahrun sem þegar sjást ótalin merki um. Grunngreinar okkar berjast í bökkum og þar ymur uppboðshamarinn í eyrum. Vandamálin hrannast upp undir ráðlausri ríkisstj. sem hefur látið frjálshyggjuna um fararstjórn hjá sér. Hvað hentar þá slíkri stjórn betur en einmitt það að hér á þingi og í fjölmiðlaljósinu úti í þjóðfélaginu líka snúist öll umræðan um frjálst útvarp og frjálsan bjór meðan fólkið í landinu er leitt undir ok frjálshyggjunnar sem færir fjötra fátæktarinnar yfir það á meðan auðsöfnun gróðaaflanna stendur yfir í algleymingi?

Það er hins vegar samræmi í þessu öllu saman því að gróðaöflin eiga að fitna á frjálsu útvarpi ómenningarinnar og ekki síður á ógæfu þeirri sem af auknum áfengisvanda stafar. Þetta er allt í stíl hjá stjórnvöldum. En ömurleg er mynd þessara maídaga af æðstu löggjafarsamkundu þjóðarinnar þegar þessi tvö mál hafa verið gerð að málum málanna m. a. til þess að drepa á dreif þarfamálum þjóðfélagsins, m. a. til þess að snúa huga manna frá vaxandi fátækt æ fleiri þjóðfélagsþegna. Hvílík reisn yfir okkur sem hér erum að störfum eða eigum við að vera það. Hvílíkur skilningur á meginmálum íslensks þjóðfélags sem hverfa í skuggann fyrir óþurftarverkum sem allir eru uppteknir af meira og minna. Þvílík framtíðarmúsík á ári æskunnar sem hljómar úr sölum Alþingis. Var einhvern tíma verið að tala um virðingu þessarar stofnunar? Einhvern veginn minnir mig það.

Þó að ég gæti haldið hér ræðu með ærnum tilvitnunum um þessi mál, áfengismálin í heild sinni, sem ættu að vera hér til umr. í stað þessa eina viðbótarþáttar, ræðu sem tæki nokkra venjulega fundartíma þessarar hv. deildar, þá mun ég ekki láta undan þeirri löngun minni einungis vegna þess hversu mér ofbýður allt þetta ástand, öll þessi umræða þó að virkileiki vandamálanna blasi við — og þó. Hér er verið að ræða mál sem vissulega snertir kviku þjóðlífsins, aðeins með hinum neikvæðu formerkjum, þar sem á að láta skeika að sköpuðu um afleiðingar í ábyrgðarleysi þeirra sem vilja ekki vita af staðreyndum, vilja ekki viðurkenna ógnina sem af getur leitt, æpa aðeins um hið óskilgreinda frelsi um leið og hvarvetna má finna fjötra og þræla Bakkusar. Því hlýt ég að hafa mitt mál í þessari umr. alllangt mót venju þó að ég vildi heldur eyða tíma mínum í jákvæða úrbótaumfjöllun í þjóðmálum almennt þar sem þetta mál í víðustu merkingu skipar vissulega sinn sess.

Mál það sem hér kemur nú til umr. er kannske allrar íhugunar vert þegar það er komið í þennan farveg. Ég hygg að mál þetta beri að skoða í samhengi við fjölmarga þætti okkar þjóðlífs, í samhengi við almenna stefnumörkun okkar í vímuefnamálum í víðustu merkingu. Vissulega hefur hver sína skoðun, sína sannfæringu að byggja á, rök með og móti því að leyfa áfengan bjór hér. Vissulega er rétt að hver reifi þau rök sem efst eru í huga hvers og eins hvaða afstöðu sem fólk hefur. En málið er stórt, vissulega svo alvarlegt að engir útúrsnúningar eða hálfgildings kjaftháttur, hálfkæringur eða blaður hæfir í þessum máli, heldur ekki gífuryrði þó að mönnum sé heitt í hamsi út af málinu sakir staðfastrar sannfæringar.

Af sumum mun sá er hér stendur ekki talinn marktækur í umr. sakir ókunnugleika og reynsluleysis af vímuefnaneyslu auk þess að hafa um langt árabil verið í framvarðarsveit bindindisfólks og draga enga dul á ákveðna afstöðu. Persónuleg skoðun mín er heldur ekki aðalatriðið þó að hún sé bjargföst og byggð á sæmilegri notkun augna og eyrna því að vímuefnavandamálið getur enginn flúið ósjáandi og óheyrandi. Afleiðingar eru alls staðar í augsýn, afleiðingar sem allir viðurkenna þótt deilt sé um orsakir.

Ég hlýt að horfa til þessa máls í ljósi þess hvert ástand ríkir í áfengismálum okkar, hvert meðferðarmagnið af völdum áfengissýki er, hverjar skuggahliðar það geymir hvarvetna. Samviskuspurningin hljóðar einmitt upp á það, hvort hér sé til heilla og bóta horft eða hvort af muni verða aukning þeirrar ógæfu, þeirrar sýki, sem hrjáir allt of marga. samviskuspurningin nú á ári æskunnar kallar líka á svör um hæfilega gjöf henni til handa, gjöf sem gerir ævibrautina bjartari eða skyggða frekari skuggum. Samviskuspurningin nú er einnig um aðgerðir til að sporna gegn afleiðingum, hún snýr að forvarnarstarfi í þessum þætti heilbrigðismála og hvernig þar er á verði vakað eða hvort sofandi er flotið að feigðarósi.

Þó að ég eigi hér mín svör á mörgu byggð, m. a. á kennslustarfi mínu og náinni umgengni við börn og æskufólk, á áratuga félagsmálavafstri og miklum samskiptum við fólk á öllum aldri við hinar ólíkustu aðstæður, á fjöldamörgum reynslusögum sem ég hef komist í snertingu við og átt virkan hlut í að reyna að leysa úr á einn eða annan veg, þó að ég gæti gefið mín svör og rakið býsna fjölþætta reynslu mína, mér ærið nærtæka og nálæga á stundum, þá vil ég heldur líta til annarra átta til að undirbyggja afstöðu mína og endanlegt nei við þessu máli. Ég leita til hlutlægra aðila með þekkingu og lærdóm samfara reynslu af þeirri kviku mannlífsins sem hér er komið að. Ég vil kanna viðhorf þeirra sem hafa víða yfirsýn, jafnvel til alls heimsins, svo sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar sameinuðu þjóðanna sem hefur veitt álit sitt á þessum efnum um margan vanda, margar hliðar þessara mála, heildarsýnar og álits henni tengdri sem okkur er skylt að horfa til.

Þegar till. hv. þm. Árna Gunnarssonar o. fl. var til umr. hér á Alþingi fyrir nokkru síðan var mjög vitnað til þessarar virtu stofnunar og engin vefenging kom þar fram sem marktæk mætti teljast enda hygg ég að örðugt sé að hafa þar í frammi mótrök sem marktæk séu. Ef draga ætti stutta en hnitmiðaða ályktun af þeirri víðtæku og óvefengjanlegu niðurstöðu, sem gengur þó sem rauður þráður í gegnum allar skýrslur og athuganir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, mætti orða hana svo: Meira framboð, betra aðgengi að áfengi í ýmsum myndum, þess meira er neytt, þeim mun verri eru afleiðingarnar, því fleiri sjúkrarúm bundin þessari vá.

Það er ekki ætlan mín að tefja þessar umr. úr hófi svo að ég ætla ekki að vitna mjög í þessa skýrslu, þessar ályktanir sem okkur er skylt að virða vel fyrir okkur, nema þar af lærdóm hvaða afstöðu sem við annars höfum, en einhvern veginn finnst mér að þessi orð, meira framboð, betra aðgengi = verri vá sem afleiðing, eigi að skoðast vel þegar við erum að ræða mál sem miðar að þessu tvennu umfram allt annað, meira framboði, betra aðgengi í kjölfarið, hversu svo sem menn vilja loka augunum fyrir þróuninni í framtíðinni um aðgengið sem yrði áreiðanlega hvarvetna innan mjög skamms tíma — eða trúa menn því að einangrun við fáar útsölur ÁTVR ráði aðgengi að bjórnum til langs tíma? Látum svo vera. En mikil er trú þeirra þá og meiri en ég hélt að væri til. Það hversu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur mikla áherslu á framboðið, fjölbreytnina og auðveldun aðgengis sem meginhættur, að viðbættri rangri stefnu í verðlagningarmálum ætti að verða til þess að við stöldrum ögn við mitt í þeim öskurkór „frelsissinna“ sem glumið hefur hvarvetna nú um nokkurn tíma og verið gælt við af ótrúlegustu aðilum sem eiga að gæta hlutleysis í hvívetna.

Menn tala gjarnan um tvískinnung, skinhelgi, tvöfalt siðgæði og fleira í þeim dúr. Af minni hálfu er þetta einfalt varðandi áfengismálastefnu í heild. Ég vil einfaldlega gera allt til að draga úr og minnka sem allra mest neysluna, beita öllum tiltækum ráðum til þess. Það má vissulega miklu til kosta í fyrirbyggjandi aðgerðum þegar horft er til þess gífurlega fjármunataps sem þjóðfélagið verður fyrir af völdum þessarar neyslu, að öllu því mannlega slepptu sem engin leið er að meta til fjármuna.

Af minni hálfu hefur ævinlega verið lögð á það áhersla að alhliða aðgerðir þyrfti — alvöruaðgerðir — til að fyrirbyggja, komast fyrir orsakirnar, verja fólk í stað þeirrar höfuðáherslu sem lögð hefur verið á lækningu alvarlegra afleiðinga þessa þjóðarböls þó að það sé góðra gjalda vert að milda meinin og græða sárin.

Frumatriði allrar heilsugæslulöggjafar okkar, forvarnarstarfið, á hér við engu síður en annars staðar. Og því ekki? spyr ég. Í því felst tvískinnungur, tvöfalt siðgæði að neita þessu frumatriði í áfengisvörnum en stuðla að slíku starfi í öllum öðrum þáttum heilsugæslu okkar. Svo einfalt er þetta mál því miður ekki að við getum vonað að það leysi vanda í nokkru tilliti. Við getum einfaldlega ekki sagt: Leyfum bjórnum að taka við af brennivíninu, leyfum bjórnum að útrýma smygli, leyfum bjórnum að útrýma brugginu, leyfum bjórnum að bæta drykkjusiðina, hvað þá að við getum borið okkur orð tengd menningu í munn. Einfaldlega er þetta ekki rétt og rökleysurnar hlaðast upp í ljósi þeirrar reynslu sem við megum hvarvetna nema af öðrum þjóðum. Við megum ekki blekkja okkur með þessu. Ekki heldur því að óviðunandi ástand er nú í þessum efnum, m. a. með tilkomu bjórlíkhúsanna. Þá er uppgjöfin ein með í för og menn velja þennan kost í stað þess að snúa sér að vandanum og vinna bug á honum, breyta óviðunandi ástandi í bærilegt horf — eða trúir einhver því í einlægni að bjórinn muni ekki verða aukning, ekki verða viðbót við það sem flestir telja fullnóg af?

Það er talað af fjálgleik um ályktanir Alþingis, eftir þeim skuli farið, og flm. þessa frv. standa þar sumir fremstir í flokki. Hvað um ályktunina um stefnumörkun í áfengismálum? Var hún ekki nógu skýr og afdráttarlaus? Lágu ekki ljós rökin að baki, vandinn sem knúði á löggjafarsamkomuna að finna leið út úr vanda og vá, út úr ótrúlega mikilli neyð allt of margra? Var hún bara upp á punt? Var engin meining að baki? Væri til of mikils mælst að dokað yrði við meðan menn leituðu leiða í anda þeirrar ályktunar? Væri til of mikils mælst að menn reyndu að huga að orsakavöldum í stað þeirrar baráttu sem utan enda er háð við afleiðingarnar? Enginn er sannfærðari en ég um það að erfitt er að finna þær leiðir. En það er skylda okkar að vinna þar að alefli og láta einskis ófreistað.

Ömurlegasta skinhelgin og tvískinnungurinn felast hins vegar í því þegar sömu aðilar og heimta bjór heimta meiri möguleika til neyslu áfengis, aukið frjálsræði í öllum greinum, berja sér á brjóst og fyllast heilagri vandlætingu og fordæmingu á fíkniefnum öðrum en áfengum drykkjum, vilja herða viðurlög, herða eftirlit, heimta löggæslu, boð og bönn sem allra mest til að hindra vá sem allir viðurkenna að er í órofa tengslum við áfengisneyslu, tengist henni án alls efa í ríkum mæli. Ég undirstrika þessa staðreynd sem studd er ríkulega rökum og reynslu og þekkingu þeirra sem hér þurfa að fjalla um frá læknisfræðilegu hliðinni alveg sér í lagi, þeim sem þurfa að kljást við illar afleiðingar vímuefnaneyslu í heild. Órofa tengsl segja þeir að þarna séu á milli og mætti tilfæra hér og tíunda rök þeirra mörgu er greint hafa frá þessum tengslum svo erfitt er sundur að greina hvað er hvað, hvar frumorsökina sé að finna í slíkri neyslu.

Eitt vita allir sem vilja vita. Við erum hér að ræða eina frumorsökina og hvort við eigum að leyfa henni að blómstra hér með hinum sem fyrir eru, hvort við getum verið með því að framkalla fleiri fórnardýr þessarar ofneyslu í ýmsu formi fíkniefna. Um þetta eigum við að hugsa. Okkur er skylt að gera það og hlýða á raddir þess fólks sem gleggst fær að kynnast alvöru afleiðinganna og hefur til þess þekkingu og reynslu að segja okkur til umfram þann öskurapakór sem fær nú sitt bergmál ríkulega inn á Alþingi, svo ríkulega að maður spyr sig stundum að því hverjar hvatir liggja að baki, hversu þau tengsl og tök eru sem virðast hvíla sem álög á fólkinu sem hæst lætur, heimta þetta í nafni frelsis og mannréttinda þó vitað sé að sá sem lýtur í lægra haldi undan ofurþunga vímuefnaneyslu, hann eða hún á ekkert frelsi lengur, mannréttindi eru orðin að algeru spurningarmerki þessa fólks.

Mér ofbýður oft alvöruleysið í kringum öll þessi mál, gyllingu gleðinnar í kringum áfengisneysluna, kröfuna um frelsið fagra, mannréttindin miklu án þess að svo mikið sem auga sé rennt til allra þeirra skuggahliða sem í kjölfarið fylgja, án þess að líta til þess mannlega harmleiks sem er svo allt of víða og þeirra aumkunarverðu leikara sem þar eru í aðalhlutverkum. Hvílík kaldhæðni, hvílík fyrirlitning á mannlegri reisn, hvílíkt meðaumkunarleysi í sjálfelsku þeirra sem halda sig hafa í fullu tré við afleiðingar þessarar neyslu.

Ég skil þá vel sem hafa hér af gróða og góðan arð, sjá í nýrri öldu ótal tækifæri til að græða sem mest á mannlegri eymd, þjóna áfengisauðvaldsins, umboðssala og aðra þá er sópa til sín fúlgum fjár fengna af annarra ógæfu, tárum og blóði. Ég skil þá sem Mammon hafa að æðstum guði og varðar ekki um annað, hafa blindast með glýju gróðans í glyrnum sér, sjáandi ekkert nema rauða málminn sem rennur um greipar þeirra. Ég vorkenni þeim en veit hversu langt gróðafíknin getur leitt annars bestu menn.

Ég skal ekki hafa mínar persónulegu hugleiðingar öllu lengri í bili. Þær bíða 2. umr. og í nefnd fæ ég tækifæri til að fjalla um málið. En áður en ég sný mér að ýmsum tilvitnunum, sem ég vildi gjarnan flytja hér en sé ekki ástæðu til að gera nú við þetta tækifæri, vil ég fara örfáum orðum um málið að öðru leyti.

Bjórinn er kominn í ýmiss konar myndum, segja menn. Því þá ekki að leyfa hann og létta af hömlum? Þetta eru ein rökin, smygl, bruggun, heimildir sæfarenda og ferðalanga og síðast en ekki síst eru bjórlíkhúsin nefnd. Allt er þetta rétt svo langt sem það nær. En halda menn í alvöru að þetta sé nema brot þeirrar neyslu sem annars yrði ef bjórinn yrði leyfður?

Ég harma sannarlega að ekki skuli hafa verið gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir bjórlíkhúsin, breyta þá lögum ef einhverjir meinbugir voru á því að stöðva þessa óheillaþróun, þennan ófögnuð, þar sem gróðafýsninni er þjónað á lágkúrulegasta hátt. Það hefði átt að stöðva þetta þegar í upphafi því að hér er eingöngu verið að búa til rök fyrir óheftum bjór svo að enn fremur megi græða og gera út á ungmennin alveg sér í lagi, gera þau rækilega háð þessari neyslu. Klær áfengisauðvaldsins gægjast hér hvarvetna fram undan sauðargæru þeirra sem þarna standa að rekstri. En svo illt og óviðunandi sem mönnum þykir ástandið nú hljóta menn að hug að því hvað við tekur ef allar flóðgáttir eru opnaðar í stað róttækra aðgerða gegn ófögnuðinum.

Varðandi smyglið þá er það örugglega eitthvað. En úr því er allt of mikið gert og undraverðar þær gífuryrtu ásakanir í garð sjómanna og farmanna okkar sem bornar eru á borð, jafnvel talað um sérfræðilega sönnun á drykkju af völdum ósannaðs smygls. Hér rekur sig eitt á annars horn og vægast sagt svo langt gengið í fullyrðingum gagnvart ákveðnum stéttum að liggur við hinn versta róg þar sem allir verða fyrir högginu, jafnt sekir sem saklausir. Aðalatriði þessa máls er það að auðvitað verður stórfelld og afdrifarík aukning hvað sem öllu þessu líður sem nú viðgengst. Hér megum við ekki beita sjálf okkur né aðra neinum blekkingum. Þeir sem það á sig taka að leyfa bjórinn óheftan verða að taka afleiðingunum hversu beiskar og bitrar sem þær kunna að verða.

Á þessu stigi málsins ætla ég að minna aðeins á nokkuð af því sem áfengisvarnaráð hefur látið frá sér fara, það ráð sem á að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um áfengismál og við höfum sérstaklega kjörið til þess. Það safnar saman hlutlausum upplýsingum víða frá og þær eru vel marktækar og hafa reynst það þegar rífa hefur átt niður álit þessa ráðs áður um ýmis málefni þessu tengd. En ég mun geyma mér það efni til upplestrar á síðari stigum þegar kannske þarf enn frekar að verjast þessari vá en nú í dag.

Einhver virtasti starfsmaður heilbrigðiskerfis okkar fyrr og síðar, Vilmundur heitinn Jónsson landlæknir, hefur sett fram skoðun sína á þessu máli á fræðilegan hátt og ákveðinn. 1932 sat hann á Alþingi þegar fyrsta ölfrv. var flutt. Sú þingræða, sem hann flutti þá, var svo mögnuð og rökviss að talið er að hún hafi gert út af við frv. þá. Ég skal aðeins vitna í lokaorð hans eftir að hann er búinn að flytja mótrök sín, m. a. og alveg sér í lagi vegna reynslu annarra þjóða. Hann segir svo í lokaorðum sínum eftir að hafa rakið þetta nákvæmlega, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég vona að hv. þdm. hafi orðið það ljóst af því sem ég hef nú látið þá heyra að það er engin firra þó að því sé haldið fram að öll undanþágan muni leiða til aukins drykkjuskapar með þjóðinni og þá fyrst og fremst með þeim stéttum og aldursflokkum þjóðfélagsins sem enn eru lausir við áfengið að mestu leyti sem betur fer.

En við Íslendingar höfum einnig okkar eigin reynslu í þessum efnum sem við getum dregið lærdóm af. Við höfum á stuttu tímabili búið við ýmiss konar ástand í áfengismálum. Hér var engin gullöld í þeim efnum áður en bannið kom til sögunnar þó að þeirri fjarstæðu sé stundum á lofti haldið af andbanningum. Með banninu varð á þessu mikil breyting til batnaðar þó að sumir hefðu e. t. v. getað gert sér vonir um enn betri árangur. Við munum allir hvernig farið hefur við hverja tilslökun sem gerð hefur verið. Við munum hve mjög ástandið versnaði með læknabrennivíninu og síðan leyfður var innflutningur á hinum „hollu“ Spánarvínum hefur öllu enn stórum hrakað í þessum efnum. Ég verð því að segja það að þegar verið er að brigsla um blindni í áfengismálunum getur það ekki átt við aðra en þá sem eru svo blindir á þá reynslu, sem við höfum fengið með öllum tilslökunum, að þeir ætla sér að bæta ástandið með því að gera eina tilslökunina enn.“

Þetta voru lokaorð Vilmundar heitins Jónssonar landlæknis, en vissulega mætti úr þessari ræðu hans tilfæra fjöldamargt sem á beint við daginn í dag.

Í beinu framhaldi hér af vil ég leyfa mér að vitna orðrétt í grein séra Heimis Steinssonar prests og þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum á fyrirbænadegi sunnudaginn 12. maí s. l. Þá hafði biskup Íslands beðið presta landsins að helga þennan dag fyrirbæn fyrir æskufólki, börnum þessa lands. Heimir segir svo í lokin, með leyfi virðulegs forseta:

„Ætla Íslendingar að fagna ári æskunnar með því að lögleiða sterkan bjór? Margt bendir til að svo geti farið jafnvel á næstunni, núna á þessu bjarta vori meðan hrossagaukurinn hneggjar og spóinn vellir sinn graut. Tæpast verður hjá því komist að nefna mál þetta á bænadegi sem helgaður er börnum. Reynsla annarra þjóða bendir til að áfengisneysla barna og unglinga vaxi til muna þegar áfengt öl er innan seilingar. Engin dæmi eru um það að bjórinn stuðli að bindindissemi meðal æskufólks fremur en annarra. Máli þessu er löngum drepið á dreif með orðskrúði um aukaatriði. Hér er í raun aðeins um eitt að ræða: Er tímabært að veita landsmönnum aðgang að fjölbreyttari vímugjöfum en tíðkast hafa, já eða nei?

Önnur efni eru á lofti höfð. Þýðingarlaust er að reyna að stöðva þróunina segja sumir. Krárnar eru komnar, að ógleymdri fríhöfninni, heimabrugginu og smyglinu. Kránum væri unnt að loka með lagasetningu ef ekki vill betur til og fríhöfnin, heimabruggið og smyglið eru smámál í samanburði við þá ölgerð og dreifingu sem nú er á döfinni. Er ekki svo, kæru viti bornu menn? Við biðjum fyrir æsku þessa lands á almennum bænadegi og fyrir þeim er með völdin fara að þeir a. m. k. beri gæfu til að slá þessu fáfengilega óheillamáli á frest og felli það helst með öllu.“

Sá sem þekkir Heimi Steinsson veit að þarna eru ekki öfgar á ferð í þessum málum. Svo vel þekki ég þennan vin minn einnig að ég veit að þessi orð eru mælt af yfirvegun og til umhugsunar öllum. Þetta er honum einmitt efst í huga þegar hann hugsar til fyrirbænar vegna æsku landsins. Skyldi það vera tilviljun? Skyldi hann vera að hugsa um frelsisskerðinguna, mannréttindabrotið mikla? Skyldi hann hafa horft viljandi fram hjá þessum hlutum á fyrirbænadegi fyrir æsku landsins? Eða skyldi það vera einlæg umhyggjusemi hugsandi manns fyrir æsku þeirri sem hann ætlar að biðja fyrir og árna góðra óska í framtíðinni? Hér verður hver og einn að dæma eftir hugarfari og skilningi. Ég læt ykkur eftir að leggja frekar út af þessum orðum séra Heimis Steinssonar sem nú mun hvað virtastur manna í klerkastétt.

Ég gæti vissulega lesið hér í allan dag álit þeirra sem við eigum að hlusta á. Ég nefni það sem dæmi að sveitarstjórnir þær, sem um málið hafa fjallað á Austurlandi, hafa skorað á Alþingi að fella þetta frv., sveitarstjórnir Breiðdalshrepps, á Djúpavogi og bæjarstjórn Neskaupstaðar. Síðar gefst tækifæri til að lesa þær, en engin tæpitunga er töluð þar. Kvenfélög og kennarasamtök á þessu svæði hafa gert sínar ákveðnu ályktanir.

Ég hefði gjarnan viljað biðja menn að hugleiða skrif þeirra tveggja manna sem ég met hvað mest í máli þessu vegna þess að þeir fást við afleiðingarnar. Þeir hafa þekkinguna og reynsluna að bakhjarli og hafa báðir nú í febrúar s. l. skrifað skorinorðar greinar í Morgunblaðið. Þetta eru Tómas Helgason prófessor í geðlæknisfræði og forstöðumaður geðdeildar Landspítalans og Jóhannes Bergsveinsson yfirlæknir meðferðardeildar ríkisins fyrir áfengissjúklinga. Ég hitti þessa tvo heiðursmenn á ráðstefnu nýlega og þeir kváðu fast að orði í ræðum sínum þar um það óheillaspor sem þeir óttuðust að Alþingi stigi. Ég skal einnig hér og nú geyma mér tilvitnun í orð þeirra sem hafa verið mönnum aðgengileg. En ég flyt heita hvatningu þessara manna beggja hér inn í þessa deild því að von beggja var bundin því að einmitt hér yrði unnt að stemma stigu við því sem þeir báðir kölluðu skelfileg mistök. Mætti ég biðja um að þessir aðilar væru kallaðir til þingnefndar. Ef nauðsyn krefst mun ég á síðara stigi óspart vitna í orð þeirra hér.

Mál er að linni því langar ræður eru undantekning hjá mér. En efnið í mótrökin eru óþrjótandi og það gefst tækifæri til þess síðar að tíunda það efni ef menn ætla að knýja þetta í gegn. Aðeins bendi ég á það að í Nd. í gær var ólíkt mjórra á munum en við 2. umr. Hvað sem skoðanakannanir segja er ljóst að mikill andbyr hugsandi fólks með reynslu og þekkingu er úti í þjóðfélaginu. Sómi þessarar deildar væri sá að fella þetta frv., vísa fjanda þessum á dyr. Ég hef á því ríka trú að svo verði.