24.05.1985
Efri deild: 81. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5667 í B-deild Alþingistíðinda. (4933)

86. mál, áfengislög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég vil við 1. umr. þessa máls hér lýsa yfir algjörri andstöðu minni við þetta frv. en skal ekki fara um það mörgum orðum nú. Ég get tekið undir flest af því sem hv. 2. þm. Austurl. sagði. Vil þó aðeins árétta það, sem við vitum öll, að þetta frv. er ekki frá ríkisstj. komið eins og e. t. v. hefði mátt skilja á upphafsorðum hans heldur er 1. flm. þess einn af oddvitum stjórnarandstöðu. En um þetta mál hafa menn ekki skipst í hv. Nd. eftir stjórn og stjórnarandstöðu heldur eru það önnur viðhorf sem þar ráða.

E. t. v. gildir það sama um mig og hv. 2. þm. Austurl. að ég sé varla talinn fær um að ræða þessi mál vegna reynsluleysis að sumu leyti. En samt verð ég í því starfi sem ég gegni á hverjum degi að fjalla um ýmsar hliðar þess og verða vitni að sárri reynslu vegna slæmra afleiðinga af áfengisneyslu. Ég held að í umr. um þetta mál sé ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd að það hlyti að auka áfengisneyslu ef bjór væri leyfður hér t landi. Allt annað er í svo algjöru ósamræmi við öll rök að því er ekki hægt að halda fram af neinum.

Ég ætla ekki að tíunda mörg atriði í sambandi við það sem ég hef kynnst um þau mál, en langar aðeins að geta um tvennt af því að fyrr á þessum degi var þetta m. a. til umræðu við mig. Annað var það að rætt var um hvernig ætti að gæta eins af okkar fegurstu blettum á landinu fyrir örtröð og átroðningi fólks sem kemur þangað að því er virðist til þess eins að svipta sig ráði og rænu með áfengisneyslu og umgengnin fer þá eftir því. Hitt atriðið er að ég kom til Rannsóknarlögreglu ríkisins og ræddi þar við starfsmenn. Spurði þá m. a. eftir því hvað stór hluti af þeirra starfi væri vegna afleiðinga af áfengisneyslu fólks. Þeir drógu ekki úr því að sá hluti væri stór, mikill meiri hluti væri af þess völdum og ætti það ekki síst við t. d. um unglinga sem lenda þar á villigötum. En þar væri ekki við unglingana að sakast heldur væri það vegna þess umhverfis sem þeir ælust upp í, bæði vegna þess að upplausn ríkti á heimilum og illindi milli foreldra af völdum áfengisneyslu sem oft leiddi til skilnaðar og einnig vegna þess umhverfis sem þjóðfélagið skapar þessum börnum og unglingum á annan hátt.

Rannsóknarlögregla ríkisins er aðeins hluti af löggæslukerfinu um allt land sem glímir við þetta vandamál. En það er ekki aðeins löggæslan sem að miklu leyti er að glíma við afleiðingar áfengis, það gerir einnig heilbrigðisþjónustan. Þar eru nú þegar talin vera um 400 sjúkrarúm fyrir þá sem hafa lotið í lægra haldi fyrir áfengi og reynt er að bjarga eða verða af þeim sökum að dvelja viðvarandi á sjúkrastofnunum. Það segir sig sjálft að þetta er orðinn dýr baggi fyrir þjóðfélagið og miklu dýrari en þjóðfélagið hefur ráð á. En verst er þó það böl sem þetta veldur þessum einstaklingum og ekki verður mælt í krónum og aurum eingöngu. Það er átakanlegt að hitta það fólk sem lýsir sínum óviðráðanlegu erfiðleikum og hefur brotið margar brýr að baki sér til þess að komast áfram í lífinu.

Eitt atriði er það sem veldur mörgum erfiðleikum. Það er missir ökuleyfis vegna þess að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Það fullyrða allir sem þar koma nálægt að bjórdrykkja mundi þar auka við í stórum stíl og er þó þessi hópur nægilega stór fyrir. Þetta minnir okkur á hvað það er andstætt okkar nútímaþjóðfélagi að svipta sig ráði og rænu vegna neyslu vímuefna. Í öllum þeim hraða og þeirri tækni sem við búum við þurfum við á fullri skynsemi og meðvitund að halda.

Ég skal ekki tefja tíma þessarar hv. deildar lengur að þessu sinni í umr. um þetta mál. Ég get sagt eins og hv. 2. þm. Austurl. að það mundi ekki endast vanalegur fundartími að telja upp öll þau rök sem mér finnst mæla á móti þessu frv. En það er sjálfsagt árangursríkara að reyna að flytja þau á annan hátt en að standa hér lengi dags. Ég skal því láta máli mínu lokið en ítreka aftur andstöðu mína við þetta frv. vegna þeirra geigvænlegu afleiðinga sem það hefði fyrir okkar þjóðfélag.