28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5672 í B-deild Alþingistíðinda. (4945)

393. mál, niðurfelling söluskatts af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég leyfi mér hér að mæla fyrir þáltill. á þskj. 634 sem er 393. mál þingsins, en flm. till. er Maríanna Friðjónsdóttir sem hér átti sæti á þinginu fyrr í vetur. Þessi till. hennar, sem hún þá flutti, komst ekki á dagskrá þá og því er fyrir henni mælt nú

Þessi till. er einföld og skýr. Með leyfi forseta hljóðar hún á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela fjmrh. að fella nú þegar niður söluskatt af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins.“ Í grg. með þessari till. segir svo að á síðasta ári hafi Ríkisútvarpinu verið gert skylt að greiða alls 46.6 millj. kr. í söluskatt af auglýsingum. Hins vegar ríkir það ástand að dagblöð og velflest tímarit eru undanþegin þessari skattlagningu. Það verður tvímælalaust að teljast óeðlilegt eins og nú er, meðan undanþágur frá söluskatti tíðkast, að gera stofnun á borð við Ríkisútvarpið, menningarstofnun vil ég segja, að greiða skatta sem aðrir aðilar með nánast hliðstæða starfsemi eru undanþegnir.

Það má í þessu sambandi á það benda að ýmis þau blöð og tímarit sem vart geta talist menningarleg tíðindi eða boðberar menningarlegs efnis, jafnvel þótt menn líti á það mjög velviljuðum augum, eru undanþegin söluskatti af auglýsingum.

Eins og ég sagði áðan var Ríkisútvarpinu á síðasta ári gert að greiða 46 millj. kr. til ríkisins í söluskatt af auglýsingum. Þessi upphæð er nánast um 1/5 af öllum auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins. Skv. lögum er Ríkisútvarpinu gert skylt að halda uppi ýmiss konar fræðslu og menningarstarfi og slíkt kostar vissulega mikið fjármagn. Þau skilyrði sem blöð og tímarit þurfa að uppfylla til þess að fá undanþágu frá þessu söluskattsákvæði eru að þau séu ekki gefin út með ágóða í huga. Það er fyllilega réttmætt og réttlætanlegt að benda á að Ríkisútvarpið er svo sem ekki starfrækt með sérstök ágóðasjónarmið í huga, heldur er þeim tekjuafgangi sem þar er á stundum — þó ekki nærri því alltaf — að sjálfsögðu beitt til þess að bæta dagskrárefni, bæta dreifikerfi og bæta dagskrána í heild.

Það er því sjálfsögð réttlætiskrafa að Ríkisútvarpið verði undanþegið söluskatti alveg á sama hátt og dagblöðin eru það nú, ella hlýtur að koma mjög sterklega til álita að söluskattur verði innheimtur af öllum auglýsingum undanþágu- og undantekningarlaust. Nú er í nýju útvarpslagafrv. gert ráð fyrir enn auknum álögum á auglýsingar, ef ég hef skilið það rétt, þar sem er menningarsjóðsgjald svonefnt sem greiða ber af auglýsingum í Ríkisútvarpinu sem öðrum útvarpsstöðvum. Þannig sýnist mér að það sé verið að seilast býsna langt til þess að rýra fjárhagslegt sjálfstæði þessarar mikilvægu menningarstofnunar.

Það er auðvitað tómt mál um að tala að Ríkisútvarpið geti með eðlilegum hætti keppt við dagblöðin um auglýsingar, meðan annar aðilinn borgar söluskatt og hinn ekki. Þess vegna sýnist mér að þetta sé sjálfsagt réttlætismál, og því hefur raunar verið hreyft hér á hinu háa Alþingi áður, en kjarni þess er að Ríkisútvarpið sitji við sama borð og aðrir fjölmiðlar í þessum efnum.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta mál fleiri orð að sinni, en legg til að þessari umr. verði frestað þegar þar að kemur og þessu máli vísað til hv. allshn. Sþ.