28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5673 í B-deild Alþingistíðinda. (4947)

393. mál, niðurfelling söluskatts af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég sagði áðan, að meðan undanþágu: viðgangast frá söluskatti er óeðlilegt að dagblöðin t. d. borgi engan söluskatt af auglýsingum. Ríkisútvarpið er stofnun allrar þjóðarinnar, menningarstofnun sem hefur ákveðnar skyldur gagnvart þjóðinni sem taldar eru upp í lögum. Það er algerlega óeðlilegt að þessir aðilar fái ekki að keppa á jafnréttisgrundvelli. Það er ekki hægt að tala um jafnréttisgrundvöll varðandi auglýsingarnar þegar Ríkisútvarpinu er gert skylt og þeim sem auglýsa þar að greiða söluskatt af þeim auglýsingum, en auglýsi menn hins vegar í dagblöðum borgi menn engan söluskatt.

Ég hef hér langan lista yfir blöð og tímarit sem eru söluskattsfrjáls. Sá listi er mjög ítarlegur og langur. Ég hef vissar efasemdir um að ekki séu mörg af þessum tímaritum, sem hér eru upp talin, gefin út í ágóðaskyni. Ég er sannfærður um að svo er. Önnur eru það ekki, það er alveg ljóst, svo sem fréttabréf ýmissa félagasamtaka. Það mætti nefna hér ýmis — ég ætla ekki að gera það að vísu — blöð og tímarit sem eru undanþegin söluskatti, en sem eru auðvitað gefin út í hagnaðarskyni. Þetta er óeðlilegt fyrirkomulag eins og er.

Ég held að þm. ættu að standa saman um að auka veg og vanda og virðingu Ríkisútvarpsins á þessum misserum þegar verið er að leggja drög að því að gera breytingar á útvarpsrekstri í landinu sem að sumra mati munu höggva býsna nærri fjárhagsgrundvelli Ríkisútvarpsins. Þá held ég að sé nauðsynlegt að gera Ríkisútvarpinu kleift að keppa við aðra fjölmiðla á jafnréttisgrundvelli varðandi auglýsingar. Það er fyrst og fremst tilgangur þessa tillöguflutnings.