28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5674 í B-deild Alþingistíðinda. (4949)

393. mál, niðurfelling söluskatts af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mér þykir ákaflega fyrir því að hæstv. fjmrh. skuli ekki skilja um hvað þetta mál snýst — eða ekki vilja skilja. En það er auðvitað ekkert við því að gera.

Hann heldur því Fram, og sýnir nú glögglega hverri vitneskju hann býr yfir um þessi mál, að með tilkomu Rásar 2 hafi auglýsingar í Ríkisútvarpinu tvöfaldast. Því fer auðvitað víðs fjarri. Um það bil 60–65% af tekjum Ríkisútvarpsins/hljóðvarps koma af auglýsingum. Ef Ríkisútvarpinu væri gert kleift að keppa á jafnréttisgrundvelli við aðra fjölmiðla, þá er það eðlilegt sanngirnismál og það er það sem hæstv. fjmrh. virðist ekki skilja að er megininntak þessa máls. Hitt er svo það, að ef auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins minnka eru bara tveir kostir til, þ. e. að draga úr dagskránni, minnka hana, kosta minna til hennar eða að hækka afnotagjöldin. Þetta eru tveir kostir sem blasa beint við.

En hæstv. ráðh. virðist telja það fullkomlega eðlilegt að dagblöðin geti keppt án þess að þeir sem greiða auglýsingarnar þurfi að borga söluskatt. Auðvitað segir það til sín í auglýsingamagni hvort menn þurfa að borga tæp 25% ofan á verð auglýsingarinnar eða hvort menn sleppa við það.

En þar sem hæstv. fjmrh. virðist vera gjörsamlega fyrirmunað að skilja um hvað þetta mál snýst, þetta snýst um jafnrétti í samkeppni, ætla ég ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð að sinni. Mér sýnist að það sé alveg borin von að hæstv. ráðh. geti öðlast á þessu réttan skilning.