05.11.1984
Efri deild: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

129. mál, umferðarlög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins hvetja til þess að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu í þessari deild. Það fer væntanlega til hv. allshn. og þykist ég vita að menn muni þar ekki liggja á liði sínu að koma málinu fram svo sem var á síðasta þingi. Því miður báru þeir félagar okkar í hv. Nd. ekki gæfu til að koma þessu máli fram. Það dagaði uppi. Ég held að það sé alveg tilgangslaust að koma hér í ræðustól og rekja dæmi um slys og óhöpp þar sem menn halda að bílbelti hefðu e.t.v. valdið limlestingu eða dauða. Mín niðurstaða er sú, eftir að hafa lesið mjög mikið um þessi mál, að í nær öllum tilvikum þar sem þessu er haldið fram, reynist það við nánari athugun ekki hafa við rök að styðjast. Sjálfsagt eru einhver slík tilvik þó til, en þetta er niðurstaða ýmissa erlendra sérfræðinga og ég held að akstursmáti, ökulag og ökuaðstæður séu ekkert öðruvísi hér og geri þetta ekkert á annan veg.

Ég bendi á það að rannsóknir í nágrannalöndum okkar, bæði rannsóknir lækna og annarra sérfræðinga, svo sem sérfræðinga á sviði umferðarmála, hafa leitt til þess að þar hefur verið sett löggjöf þar sem menn eru skyldaðir til þess að nota bílbelti. Ég hygg að það sé nú orðið í öllum löndunum hér í kringum okkur. Það er hreint ekki að ástæðulausu. Það er bara vegna þess að beltin bjarga mannslífum og það er heldur ekki að ástæðulausu að það er nú í undirbúningi í sumum þessara landa að skylda menn einnig að nota öryggisbelti er þeir sitja í aftursætum bifreiða, eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, minntist á hér áðan. Og ég er alveg sannfærður um að það kemur að því hér líka, að um það verða settar reglur. Við virðumst bara vera svolítið íhaldssamir, svolítið seinir að taka við okkur í þessum efnum, því miður.

Ég ætla ekki að fara að rekja hér dæmi um slys eða óhöpp, nýlega eða löngu liðin. En ég vara við því að menn séu að tína til hér mikið af dæmum þar sem menn halda að beltin hefðu gert skaða, vegna þess, og ég ítreka það, að sérfræðingar hafa komist að því að slíkar ályktanir, sem menn draga af svona umferðaróhöppum, eru yfirleitt rangar þó að þess megi e.t.v. finna dæmi að menn telji sig geta fullyrt það með nokkurri vissu. En slík dæmi eru örugglega sárafá og hér er um svo sjálfsagt atriði að ræða að mér finnst það satt best að segja til háðungar fyrir hið háa Alþingi hversu lengi þetta mál hefur verið hér að velkjast. Það er reynsla allra annarra þjóða að þessum ákvæðum er ekki fylgt eftir nema við þeim séu viðurlög eins og eðlilegt sé og ég held að það sé mjög brýnt að taka þetta upp.

Hér hefur verið vikið nokkuð að endurskoðun umferðarlaga í þessum umr. Ég verð að harma það að hún hafi dregist á langinn og nú veit ég að það er ekki við hæstv. dómsmrh. að sakast. Fyrir því eru engin rök að hún skuli hafa þurft að taka svo langan tíma og fyrir því eru heldur, að ég hygg, engar afsakanir. Þarna hefur bara ekki verið unnið af nægilegu kappi. Ég vona að þess verði ekki langt að bíða að þessi lög verði endurskoðuð fyrir Alþingi og raunar mátti ráða það af máli hæstv. ráðh. að þess yrði ekki langt að bíða. En að endingu vil ég bara hvetja menn til að hafa snarar hendur um að afgreiða þetta mál sem við afgreiddum raunar einnig í fyrra. Þetta frv. var flutt óbreytt og ætti því ekki að þurfa svo ýkja langa athugun í nefnd.