28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5677 í B-deild Alþingistíðinda. (4953)

417. mál, sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er svo sem góðra gjalda vert að vekja athygli á þeirri tæknibyltingu sem átt hefur sér stað að undanförnu að því er varðar sjónvarp um fjarskiptahnetti, hvort sem það er frá stöð til stöðvar eða beint til notenda. Hins vegar sýnist mér að því er þessa till. varðar að þar séu nokkrir gallar á gjöf Njarðar. Eigi eitthvert vit að vera í svona sjónvarpsmóttöku frá sjónarmiði neytenda verða að vera til staðar boðveitur eða kapalkerfi. Skal ég rökstyðja það nokkru nánar hér á eftir.

Í þessari till. er talað um að undirbúa útsendingu erlends efnis um fjarskiptahnetti með dreifikerfi íslenska sjónvarpsins. Dreifikerfi íslenska sjónvarpsins getur ekki sent út nema eina dagskrá í senn og sú íslenska sjónvarpsdagskrá sem þegar er út send gengur þá fyrir. Það er þá hætt við að það yrði lítið, eitthvað þó, afþreyingarefni að degi til sem yrði þarna afgangs. En þá er mér spurn: Hver á að velja frá hvaða hnetti er tekið hverju sinni? Á Ríkisútvarpið að velja það? Þar hafa neytendur ekkert val. Þess vegna þótti mér skjóta svolítið skökku við þegar hv. 1. flm. talaði um dreifingu um kapalkerfi.

Það eru engin ákvæði í íslenskum lögum um kapalkerfi. Við þm. Alþfl. höfum verið að reyna að koma þeim ákvæðum inn í útvarpslög. Það hefur verið fellt. Nú er mér kunnugt um að a. m. k. tvö bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru með þessi mál í athugun og hafa áhuga á boðveitum sem er eðlilegt að sveitarfélög reki. Menn segja hér: Þessi ákvæði eiga ekki heima í útvarpslögunum. Þau eiga heima í fjarskiptalögum. Það má færa rök að því, en það má líka færa rök að því að þessi ákvæði eigi alveg jafnvel heima í útvarpslögum og engu síður. Við getum ekki gert ráðstafanir til að nýta hér og nota kapalkerfi meðan engar reglur eru um slík kerfi. Ég segi það aftur og enn: Það verður að setja og má ekki dragast skynsamlegar reglur um notkun á svona boðveitum.

Ég átti þess kost í síðustu viku að heimsækja sænskan bæ, Lund í Suður-Svíþjóð, þar sem stendur yfir umfangsmikil tilraun með svona boðveitukerfi. Eiga íbúar Lundar kost á að velja þar um 13 sjónvarpsdagskrár. Það kostar hverja fjölskyldu 50 kr. sænskar á mánuði og stofngjaldið fyrir lítinn svartan kassa, sem veitir þeim aðgang að þessu kerfi, er 100 kr. sænskar á mánuði. Þeir geta valið um franskt, þýskt og danskt sjónvarp, rússneskt m. a. s., staðarsjónvarp og allt mögulegt.

Forsendan fyrir því að eitthvað gerist af viti í þessum efnum og valkostum almennings fjölgi er sú að svona boðveitukerfi sé komið á fót. Nú er tæknin slík að það þarf ekki að grafa kapla í jörð. Það er hægt að hafa svona lokað boðveitukerfi í ljósvakanum með a. m. k. 8 eða 9 rásum og ég hygg að kostnaður við loftnet t. d. fyrir fjölbýlishús — þetta eru kanadískar tölur, frá Winnipeg, frá fyrirtæki sem er að gera tilraunir með þetta og hefur kynnt sína starfsemi hér — sé u. þ. b. 250 Kanadadalir á fjölbýlishús, þ. e. kostnaðurinn við móttökuloftnet. En á meðan loka menn hér augunum fyrir þessum möguleika og hvað snertir útvarpslagafrv., sem á ýmsan hátt er búið að limlesta og var þó ekki gott í upphafi, er bara hugsað um það eitt að keyra það breytingalaust í gegn. Þar erum við ekki á góðri leið. Það var samþykkt úr hv. Nd. með 16 já-atkvæðum. Hver verður niðurstaðan í Ed.? Það veit enginn. Ætla menn að standa fyrir umfangsmiklum breytingum á þessum lögum þannig að minni hluti Alþingis standi að því? Það væri reginhneyksli.

Við höfum enn tækifæri til að laga þetta mál og reyna að skapa breiða og víðtæka samstöðu um það sem ég held að sé þjóðarnauðsyn, fá frið um það. Það gerum við m. a. með því að skapa möguleika á því að taka á móti margvíslegu erlendu efni frá fjarskiptalinöttum og miðla því efni í boðveitum. Það er tómt mál að tala um að miðla því um dreifingarkerfi íslenska sjónvarpsins eins og það er núna. Þetta verður að gerast á hverjum stað um boðveitukerfi eða kapalkerfi, hvernig sem menn vilja hafa það hvort sem það er grafið í jörð eða leiðir þess liggja á öldum ljósvakans. Þessi mál hafa aldrei verið rædd hér til hlítar, aldrei könnuð gaumgæfilega og mér stendur uggur af því ef á að ana hér áfram fyrirhyggjulaust, en með ákveðnum fordómum. Ég held að það sé verulega hættulegt og öllu þessu máli til hinnar mestu bölvunar og væri glapræði hið mesta ef gert yrði.

En hugmyndin sem býr að baki þessari till. er góð. Ég lýsi fyllsta stuðningi við hana. en minni á að forsenda þess að þetta sé unnt er sú að boðveitukerfi séu til staðar. Þm. og Alþingi geta ekki lengur lokað augunum fyrir þeirri staðreynd. Það er meginatriði að ákvæði um slík kerfi komist í lög. Það á vel heima í útvarpslögum. Það getur líka átt heima í fjarskiptalögum. Aðalatriðið er að reglur verði settar. Þær eru for,enda þess að almenningur geti notið kosta þessarar nýju tækni.