28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5682 í B-deild Alþingistíðinda. (4958)

417. mál, sjónvarpsefni frá fjarskiptahnöttum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Í fyrsta lagi minntist hæstv. menntmrh. á það að óskað hefði verið eftir því að menntmn. störfuðu saman. Nú er formaður menntmn. Ed. ekki staddur hér. (Menntmrh.: Ekki formaður neðrideildarnefndarinnar heldur.) Nei, en ég ræddi þetta mál við formann menntmn. Ed. og hann kannaðist ekki við að sér hefðu borist nein tilmæli frá formanni neðrideildarnefndarinnar um slíkt samstarf. Hins vegar var haft eftir hv. þm. Halldóri Blöndal. formanni menntmn. Nd., að þm. Eiður Guðnason hefði hafnað slíku samstarfi af hálfu Alþfl. Því er auðvitað við það að bæta að einstakur þm. í menntmn. getur ekki hafnað slíku samstarfi. Það er formanns og nefndarinnar sem heildar að ákveða það. Þeim ummælum hef ég þegar vísað á bug í aths. sem birt hefur verið í blaði.

En aðeins að lokum, herra forseti. Hæstv. menntmrh. gerði mikið úr því að það hefði verið reynt að leita samkomulags og þetta frv. væri málamiðlun og niðurstaða samkomulags. Segir það ekki sína sögu um málamiðlun og samkomulag að aðeins 16 þm. af 40 í Nd. treysta sér til að ljá þessu máll jáyrði — aðeins 16 þm. af 40 treysta sér til að segja já við útvarpslagafrumvarpi? Það sýnir nú ekki að þar hafi verið um mikla málamiðlun að ræða þegar tólf þm. eru á móti og ellefu sitja hjá. Þetta eru sorglegar tölur og það væri til svívirðingar og háðungar fyrir Alþingi ef þetta mál fer hér í gegnum þingið með þeim endemum sem það fór í gegnum hv. Nd.