28.05.1985
Sameinað þing: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5683 í B-deild Alþingistíðinda. (4960)

477. mál, jarðhiti í heilsubótarskyni

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 829 um nýtingu jarðhita í heilsubótarskyni, en tillögutextinn hljóðar svo:

„Alþingi skorar á ríkisstj. að láta gera áætlun um það á hvern hátt jarðhiti og hveravatn verði best nýtt hér á landi í heilsubótarskyni. Jafnframt verði kannað á hvaða stöðum helst komi til greina að reisa heilsubótarstöðvar er byggi starfsemi sína á jarðhita og hver sé rekstrargrundvöllur slíkra stöðva.“

Flm. þessarar þáltill. eru auk mín Eggert Haukdal, Friðjón Þórðarson og Birgir Ísl. Gunnarsson.

Hér er brotið upp á máli sem að dómi flm. þarfnast athugunar og meiri athygli en því hefur verið sýnd til þessa. Við höfum gefið einum þætti jarðhitans minni gaum en efni standa til. Það er nýting jarðhita, hveravatns og hveraleirs til heilsuræktar og baðlækninga. Víða um heim, eins og menn þekkja, hefur verið komið á fót heilsuræktar- og baðlækningastöðvum sem byggja starfsemi sína á jarðhita og hveravatni auk ölkelduvatns svo sem alkunna er. Hlutaðeigandi þjóðir hafa lengi haft verulegar tekjur af slíkum heilsubótarstöðvum. Má þar minnast m. a. á Þýskaland og Frakkland. Þær hafa átt sinn þátt í að laða að erlenda ferðamenn, enda eru hinir kunnu baðstaðir í Evrópu mjög fjölsóttir og þangað leita gestir úr öllum heimsálfum sér til heilsubótar, hressingar og afþreyingar.

Það fer ekki milli mála að á Íslandi eru miklir möguleikar fyrir hendi á þessu sviði þó svo að fram til þessa hafi þeir verið að miklu leyti ónýttir. Það má þess vegna segja að við stöndum á þröskuldi nýrrar aldar í þessum efnum. Þó hafa framsýnir menn séð að einboðið væri að nýta auðlindir jarðvarmans og hveravatnsins í miklu meira mæli til heilsubótar en gert hefur verið. Skal þar sérstaklega til sögunnar nefndur Gísli Sigurbjörnsson forstjóri Elliheimilisins Grundar sem byggt hefur hluta af elliheimili sínu í Hveragerði.

Fram til þessa hefur aðeins ein heilsubótarstöð risið á Íslandi sem sérstaklega byggir á nýtingu jarðvarmans, náttúrulækningahælið í Hveragerði, en önnur slík stöð mun vera í byggingu norður á Akureyri.

Að áliti okkar flm. er löngu orðið tímabært að hér á landi verði hafist handa um að nýta þessa miklu möguleika og hefjast handa um byggingu heilsubótarstöðva þar sem nýttur væri jarðvarmi, hveravatn, hveraleir og ölkelduvatn. Þar er um náttúrugæði að ræða sem óvíða er að finna í Evrópulöndum og skapa því hér á landi betri aðstöðu til framkvæmda á þessu sviði en annars staðar. Slíkar heilsubótarstöðvar mundu, eins og reynslan í Hveragerði sýnir, verða sóttar í verulegum mæli af Íslendingum, en eins og menn vita eru jafnan hundruð manna á biðlista í Hveragerði. Það má einnig telja líklegt að útlendingar sæki slíkar stöðvar í miklum mæli ef vel tekst til um uppbyggingu þeirra og framkvæmdina og kynningu á málinu erlendis. Gæti stofnun slíkra heilsuræktarstöðva hérlendis á þann hátt stuðlað mjög að því að ferðamenn sæki hingað til lands í auknum mæli og skapað á þann hátt aukna atvinnu á nýjum vettvangi og auknar gjaldeyristekjur. — Ferðamálin voru einmitt á dagskrá í Sþ. fyrir skömmu. Þetta er einn ekki ómerkur þáttur í því máli.

Í þessu sambandi má spyrja: Hvað hefur verið gert í þessum efnum? Ég hef þegar nefnt hæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, þar sem mjög vel hefur verið að þessum hlutum staðið, en það er líka eina dæmið. Hins vegar hefur verið gerð mjög merkileg úttekt í þessum efnum. Sú úttekt var þáttur í mikilli ferðamálakönnun sem framkvæmd var að beiðni Íslendinga af hálfu Sameinuðu þjóðanna fyrir 15 árum. Til verksins var fengið bandarískt ráðgjafarfyrirtæki, raunar alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki, og einn þáttur í lokaskýrslu þessa fyrirtækis um Ísland sem ferðamannaland í framtíðinni var einmitt möguleikarnir á því að koma hér upp baðlækninga- og heilsubótaraðstöðu sem byggði sérstaklega á heita vatninu, hveraleirnum og ölkelduvatninu.

Tveir Íslendingar tóku þátt í þessu verki með því að semja gagnmerkar skýrslur um málið. Annar þeirra, dr. Gunnar Böðvarsson prófessor í Bandaríkjunum, gerði yfirlit yfir jarðhitastöðvar á Íslandi, en Sigurður R. Guðmundsson efnafræðingur gerði könnun á efnainnihaldi íslenska hveravatnsins og lindarvatnsins.

Síðan var samin sérstök lokaskýrsla um þessi efni af heimsþekktum prófessor á þessu sviði, frönskum. Ég ætla ekki að rekja efni þeirrar skýrslu frekar, en aðeins geta þeirrar gagnmerku niðurstöðu sem hann kemst að eftir að hafa kannað skýrslur þeirra sérfræðinga sem ég nefndi og aðrar heimildir. Niðurstaða varð sú að heilsubótareiginleikar íslenska vatnsins séu jafngóðir a. m. k., bæði lindarvatnsins íslenska og hveravatnsins, og þess vatns sem notað er á helstu og þekktustu heilsubótarbaðstöðum Evrópu. Prófessorinn franski gerði í þessari skýrslu tillögur um að komið verði á fót hér á Íslandi baðlækningastöðvum sem ætla mætti að yrðu sóttar ekki síst frá öðrum löndum. Jafnframt rekur hann læknisfræðileg atriði sem lúta að meðferð við ýmsum sjúkdómum miðað við eiginleika íslenska lindarvatnsins, íslenska hveravatnsins og leirbaða.

Mér er ekki kunnugt um að neinar af þessum tillögum hafi leitt til sérstakra framkvæmda af hálfu hins opinbera eða einkaaðila, en það er ljóst að þar eru dregnar saman mjög gagnlegar rannsóknarniðurstöður um þessi efni sem að notum geta komið í framtíðinni.

Meginefni þessarar till. er að það ætti að vera hlutverk heilbrigðisyfirvalda að hafa forgöngu um að gerð verði áætlun um það, á hvern hátt jarðhiti og hveravatn verði sem best nýtt hér á landi í heilsubótarskyni. Hluti þeirrar könnunar ætti að mati flm. að leiða í ljós hvaða staðir á landinu eru vænlegastir í þessu efni. Auk Hveragerðis er ljóst að til greina kæmi að reisa slíka stöð í nágrenni Svartsengis á Reykjanesi þar sem margir hafa sótt böð í Bláa lóninu sér til heilsubótar. Fyrir dyrum stendur nú í sumar sérstök könnun heilbrigðisyfirvalda á lækningamætti jarðsjávarins þar. En ljóst er að ýmsir aðrir staðir á landinu hafa upp á landkosti og náttúrugæði að bjóða sem máli skipta í þessu efni.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að hluti af þessari könnun verði áætlun um rekstrargrundvöll heilsubótarstöðva. Þær upplýsingar verða að liggja fyrir áður en unnt er að leggja drög að framkvæmdum á þessu sviði, hvort sem er af hálfu einstaklinga og áhugafélaga þeirra eða hvort ríkið vill hér að einhverju leyti gerast aðili. Vitanlega er það þó ekkert skilyrði fyrir framgangi þessa máls. Hins vegar er eðlilegt að heilbrigðisyfirvöld annist þessa könnun.

Þegar á þetta mál, herra forseti, er litið í heild má segja að hér tvinnist saman tvær leiðir til nýrrar nýtingar jarðhitans hér á landi, stofnun nýrrar heilsubótaraðstöðu fyrir útlendinga jafnt sem Íslendinga og í öðru lagi efling ferðamannaþjónustunnar hér á landi sem tvímælalaust mundi fylgja hér í kjölfarið.

Við höfum þegar dæmi um það síðarnefnda. Það er Bláa lónið á Reykjanesi. Þangað hefur verið mjög sótt af sjúklingum með ýmsa húðsjúkdóma. Lítið gistihús hefur verið reist á bakka lónsins. Það er að mjög miklu leyti bókað nú í sumar af erlendum ferðamönnum, þ. e. útlendingum sem hingað koma til að leita sér bata við böð í Bláa lóninu. Þetta er lítið dæmi sem eiginlega hefur sprottið af sjálfu sér. Málið hefur ekki verið sérstaklega kynnt erlendis, heldur hafa af því einfaldlega borist fregnir hvað hér væri um að vera og þá koma hingað útlendingar í verulegum mæli til þess að njóta góðs af þeim lækningamætti sem þeir telja að felist í vatninu í Bláa lóninu.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað, herra forseti, til atvmn.